Fyrsta Aron Kristjánsson tók við starfi landsliðsþjálfara í haust og hans fyrsta stórmót með liðið er að hefjast á Spáni.
Fyrsta Aron Kristjánsson tók við starfi landsliðsþjálfara í haust og hans fyrsta stórmót með liðið er að hefjast á Spáni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjálfarinn Ívar Benediktsson iben@mbl.

Þjálfarinn

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Eftir að hafa verið í landsliðinu um nokurra ára skeið og farið á nokkur stórmót, þar á meðal tvö heimsmeistaramót, veit ég betur út í hvað ég er að fara, þótt vissulega sé það annað að vera leikmaður en þjálfari,“ segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Hann þreytir nú frumraun sína sem landsliðsþjálfari á stórmóti. Aron lék með íslenska landsliðinu á HM 2001 og 2003 og á EM 2002, alls 22 landsleiki sem hann skoraði í 34 mörk.

„Ég hef svo sem komist nærri stóra sviðinu sem þjálfari eftir að hafa verið þjálfari með lið í Evrópukeppni auk þess að þjálfa félagslið í Danmörku og í Þýskalandi um skeið. Ég tel mig hafa ágæta reynslu og vita vel hvað ég er að fara út í á næstu dögum.

Vissulega er mikill munur á að vera leikmaður eða þjálfari á stórmóti í handknattleik. Leikmaðurinn vinnur eftir ákveðnu skipulagi sem lagt er upp í hendurnar á honum og þarf að hugsa um mataræði og hvíldina milli leikja.

Hjá þjálfaranum snýst vinnan mikið um hvar við getum bætt leik okkar og eins að greina andstæðinginn og „matreiða“ hann ofan í leikmennina. Þjálfarinn verður að vera tilbúinn með ákveðna vinnu til þess að leggja fyrir leikmenn, svo sem varðandi leikskipulag. Hluti þessarar vinnu hefur þegar átt sér stað á síðustu vikum en einnig þegar komið er á leikstaðinn. Þegar út í leikinn er komið verður þjálfarinn að geta lesið í stöðuna hverju sinni og brugðist við því sem gerist í leikjum með því að stýra leikmönnum inn á annað spor, ef svo má að orði komast,“ segir Aron.

Reynslumenn miðla til þeirra óreyndari

Aron segir stóran hluta íslenska landsliðshópsins vera skipaðan leikmönnum sem hafa tekið þátt í mörgum stórmótum og vita hvað þarf að gera til þess að ná árangri, þeir þekkja einnig umhverfið. Reynslumennirnir verða að styðja við bakið á þeim óreyndari ásamt þjálfurunum.

Þjálfarateymið þarf einnig að ná sem mestu út úr þeim tíma sem líður milli leikja á mótum. „Menn verða líka að geta slakað á milli leikja, ekki síður andlega en líkamlega,“ segir Aron en forveri hans var þekktur fyrir að sofa lítið sem ekkert á stórmótum. Hvort sama verður upp á teningnum hjá Aroni er eftir að koma í ljós þegar út í baráttuna verður komið.

Reyndir aðstoðarmenn

Aron hefur tvo menn sér til aðstoðar við ýmsa vinnu í kringum leikina og meðan á þeim stendur. Gunnar Magnússon aðstoðarþjálfari hefur yfir að ráða góðri reynslu eftir að hafa verið í þjálfarateymi landsliðsins síðustu fimm ár meðGuðmundi Þórði Guðmundssyni, forvera Arons í stóli landsliðsþjálfara. Hinn er Erlingur Richardsson sem kom inn í þjálfarateymið í haust þegar ljóst var að Óskar Bjarni Óskarsson gæti ekki haldið áfram að vinna með hópnum.

„Gunnar verður í þeirri vinnu að klippa saman efni með leik okkar. Erlingur einbeitir sér meira að andstæðingunum, að greina leik þeirra,“ segir Aron, spurður um hver verði verkaskiptingin á milli þeirra félaga.

Gunnar hefur farið á mörg mót með landsliðinu og Erlingur fékk nasaþefinn og rúmlega það af stórmótum sem leikmaður í HM í Frakklandi fyrir 12 árum, þá einn samherja Arons.

Alltaf krafa um árangur

„Framundan er spennandi verkefni næstu vikurnar,“ svarar Aron þegar hann er spurður hvort hann sé farinn að finna fyrir pressu þegar stutt er í að flautað verði til leiks.

„Það er alltaf krafa um að menn standi sig þegar komið er á stórmót. Ég geri þær kröfur til leikmanna að þeir leggi sig fullkomlega fram og þannig að menn nái að hámarka eigin getu í hverjum leik.

Ég þrífst á spennunni og pressunni sem fylgir þjálfarastarfinu. Ef svo væri ekki þá væri ég ekki í þessu starfi,“ segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.