Dómarar
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Við erum gríðarlega spenntir, fullir tilhlökkunar,“ segir Anton Gylfi Pálsson handknattleiksdómari, sem ásamt félaga sínum Hlyni Leifssyni dæmir leiki heimsmeistaramótsins í handknattleik á Spáni. Þetta er í fyrsta sinn sem þeir dæma á heimsmeistaramóti en hingað til hafa þeir verið í eldlínunni á Evrópumótum kvenna og karla, dæmt leiki í Meistaradeild Evrópu og öðrum Evrópumótum félagsliða.
„Það hefur verið eitt af markmiðum okkar að dæma á heimsmeistaramóti. Nú eigum við bara eftir að dæma á Ólympíuleikum,“ segir Anton Gylfi.
„Okkar markmið er fyrst og fremst að standa okkur vel og vera sjálfum okkur og íslensku þjóðinni til sóma,“ svaraði Anton Gylfi spurður um markmið þeirra félaga.
Anton Gylfi og Hlynur hafa verið fremsta dómarapar landsins árum saman og margoft verið valdir bestu dómarar Íslandsmótsins.
Gekk vel í Serbíu
Anton Gylfi og Hlynur dæmdu síðast á stórmóti á Evrópumóti karla í Serbíu fyrir ári. Þeir fengu fína einkunn fyrir frammistöðu sína og þóttu líklegir til þess að dæma annaðhvort í undanúrslitum eða leikina um verðlaun. Veikindi settu strik í reikninginn hjá þeim félögum.„Næsta markmið okkar er að dæma á Ólympíuleikum. Það hefði verið gaman að vera í London í sumar sem leið en það tókst ekki. Þar með er ekkert annað að gera en bretta upp ermar og halda áfram og stefna á leikana í Ríó eftir rúm þrjú ár,“ segir Anton Gylfi en aðeins einu sinni hafa íslenskir handknattleiksdómarar dæmt á Ólympíuleikum. Það gerðu Stefán Arnarson og Gunnar Viðarsson á Aþenuleikunum fyrir níu árum.
Tvenns konar próf fyrir mótið
Alls voru 16 dómarapör valin til þess að dæma leiki heimsmeistaramótsins. Tólf þeirra eru frá Evrópu en en hin fjögur koma frá Asíu, Afríku og Ameríku.Pörin mættu til leiks í Barcelona þriðjudaginn 8. janúar og gengust undir skriflegt próf strax um kvöldið. Daginn eftir fóru þau síðan í þrekpróf.
Mest þarf af dómurum meðan á riðlakeppni heimsmeistaramótsins stendur. Að henni lokinni fækkar leikjum og þá um leið verður fækkað í hópi dómara og nokkur pör send heim og skipta þau með sér þeim leikjum sem eftir eru. Þau pör sem fá besta einkunn fyrir frammistöðu sína í leikjum keppninnar dæma síðan úrslitaleikina tvo um verðlaunasætin.
Anton Gylfi byrjar á að dæma leiki í C-riðli sem fram fer í Zaragoza en þar leika Hvíta-Rússland, Pólland, Sádi-Arabía, Serbía, Suður-Kórea og Slóvenía.
Treyst fyrir stórum leikjum
Anton Gylfi segir þá félaga hafa æft mikið og auk þess dæmt talsvert og séu þar af leiðandi í eins góðu formi og mögulegt er.„Við erum í góðri æfingu og tilbúnir að taka þátt í mótinu allt til enda. Eftir að hafa verið Evrópudómarar í tólf ár erum við orðnir nokkuð þekktir enda staðið okkur vel. Fyrir vikið þekkja okkur margir, utan vallar sem innan. Menn treysta okkur fyrir stórum leikjum og það er gott enda tel ég okkur hafa unnið fyrir því. Málið snýst ekki bara um að vera góður að dæma, andlega hliðin verður einnig að vera í lagi,“ segir Anton Gylfi.
Spurður hvort þeir félagar hafi sett stefnuna á úrslitaleikinn svarar Anton Gylfi að þeirra markmið sé að standa sig vel í fyrsta leiknum sem þeir dæmi. „Við hugsum ekki lengra en það. Allt sem bætist við umfram fyrsta leik er hreinn bónus,“ segir Anton Gylfi Pálsson handknattleiksdómari.
Anton og Gylfi
» Þeir hafa verið milliríkjadómarar í tólf ár og dæmt á EM karla og kvenna og í Meistaradeild Evrópu.
» Þeir þóttu líklegir til að dæma einhvern úrslitaleikjanna á EM karla í Serbíu 2012 en veikindi komu í veg fyrir það.
» Þeir fóru í þrekpróf í Barcelona á þriðjudaginn og í skriflegt próf á miðvikudaginn.