Ólafur Jónsson fæddist í Skálholtsvík, Bæjarhreppi í Strandasýslu, 2. desember 1923. Hann andaðist á Droplaugarstöðum 1. janúar 2013.

Foreldrar Ólafs voru Jón Ólafsson frá Strandasýslu, f. 1891, d. 1971, og Aldís Ósk Sveinsdóttir frá Árnessýslu, f. 1895, d. 1990.

Systkini Ólafs eru Guðrún, f. 1921, Þórhallur, f. 1926, Borghildur, f. 1928, Höskuldur, f. 1929, Ægir, f. 1938. Bróðir hans sammæðra er Þorsteinn Erlingsson Ólafsson, f. 1916, d. 1984.

Fyrri eiginkona Ólafs var Jóhanna Margrét Jóhannesdóttir, f. 1921, d. 1972. Börn þeirra eru: 1) Anna Sigríður Ólafsdóttir, f. 1944, gift Sigmundi Tómassyni og eiga þau þrjú börn, Ólaf, Margréti og Tómas Jón. 2) Jón Ólafsson, f. 1947, d. 1994, kvæntur Þorbjörgu Einarsdóttur og eiga þau þrjú börn, Einar Veigar, Jóhönnu Margréti og Ýri. 3) Ragnheiður Ólafsdóttir, f. 1953, gift Stig Faber Rasmussen og á hún eina dóttur, Söru Tänzer.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Þórlaug Guðbjörnsdóttir, f. 1940.

Ólafur ólst upp á Hömrum í Laxárdal og kom til Reykjavíkur 1945. Þá vann hann ýmis verkamannastörf þar til að hann hóf störf hjá BP. Þar starfaði hann m.a. sem olíuflutningabílstjóri og rak Bón- og þvottastöðina. Eftir að hann lauk störfum hjá BP hóf hann störf hjá Mýrarhúsaskóla þar sem hann starfaði sem húsvörður og síðustu árin vann hann í skólaskjólinu.

Útför Ólafs fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 11. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Tengdafaðir minn Ólafur Jónsson kvaddi þetta jarðlíf 1. janúar sl., 89 ára að aldri. Þegar ég fyrir tæpum 49 árum kom inn í fjölskyldu Óla og Möggu var mér strax afar vel tekið og boðinn velkominn. Urðum við Óli miklir mátar og duglegir að aðstoða hvor annan þegar á þurfti að halda.

Þegar Óli rak Bón- og þvottastöðina á Klöpp við Skúlagötu var ég oft aðstoðarmaður hjá honum. Eins var það að þegar við Anna keyptum okkar fyrstu íbúð í Hafnarfirði, þá var Óli boðinn og búinn að aðstoða okkur á allan máta. Óli var mikill bílaáhugamaður og höfðu þeir feðgar Jón heitinn sonur hans gaman af að skoða gamla og nýja bíla.

Óli vann í mörg ár hjá BP, bæði sem bílstjóri og við afgreiðslu olíuskipa í Laugarnesi, en stutt var í vinnu fyrir hann þar sem fjölskyldan bjó við Kleppsveginn. Óli var vel látinn af vinnufélögum sínum, vinmargur og hvers manns hugljúfi. Óli var söngelskur maður og var oft gaman þegar þeir bræður tóku lagið saman. En gleðin er ekki eilíf, sorgin á það til að banka á dyrnar, þegar Jóhanna Margrét tengdamóðir mín veikist skyndilega og var dáin tveimur mánuðum síðar, og rúmum tuttugu árum seinna lést Jón sonur hans eftir stutta baráttu við krabbamein.

Seinni kona Ólafs er Þórlaug Guðbjörnsdóttir, og reyndist hún honum og fjölskyldunni allri ákaflega vel. Þau byggðu sér hús við Sævargarða á Seltjarnarnesi og tók ég þátt í að reisa það. Þegar húsið var tilbúið undir tréverk, var bílskúrnum breytt í trésmíðaverkstæði og voru flestar innréttingar í húsið smíðaðar þar.

Óli hóf störf við Mýrarhúsaskóla sem húsvörður og var vel virtur af kennurum sem nemendum. Þau hjón voru dugleg að ferðast og fóru víða jafnt innanlands sem erlendis. Það var notalegt að koma í garðinn til þeirra á sumrin, þiggja veitingar og ekki spillti það fyrir að þau höfðu gaman af að taka á móti börnunum og leyfðu þeim að hoppa um í garðinum.

Svo gerðist það sem enginn bjóst við, Óli veiktist fyrir níu og hálfu ári og var bundinn við hjólastól eftir það. Hann dvaldi á Droplaugarstöðum í um það bil níu ár og var hugsað vel um hann þar og var hann dáður á meðal starfsfólks og vistmanna. Þórlaug var að sjálfsögðu hans hjálparhella og var dugleg að taka hann heim um helgar og annaðist hann alveg frábærlega vel.

Óli minn, ég kveð þig nú með þökk frá börnum og barnabörnum. Vertu sæll að sinni, minning þín lifir í hjörtum okkar.

Þinn tengdasonur,

Sigmundur.

Afi minn var mjög góður karl. Hann keyrði um á Bens og fórum við í þó nokkra bíltúra þar sem afi veifaði öllum krökkum sem hann sá á Seltjarnarnesi og þegar ég spurði hann hver þetta væri þá sagði hann: Þetta er vinur minn. Öll börnin á Nesinu voru vinir hans afa. Hann vann lengi við Mýrarhúsaskóla og meira að segja eftir starfslok kom hann aftur þangað til að opna skólann fyrir krakkana sína.

Ein minning af mörgum var þegar ég var lítill, þá hjóluðum við vinahópurinn út á Nes og ég ákvað að kíkja á afa og Þórlaugu, þá var okkur, öllum hópnum, boðið inn í flottar veitingar, þetta er svona ekta afi og Þórlaug. Allir velkomnir alltaf og maður átti helst að borða á sig gat og aðeins meira.

Afi var mjög duglegur að rækta garðinn sinn og vildi hafa hann fallegan, ég fékk stundum að hjálpa til við að slá garðinn. Það fannst mér mjög gaman.

Afi passaði vel upp á hópinn sinn og var kakóboð á Sævargörðum á aðfangadagskvöldi hluti af jólunum þar sem öll fjölskyldan hittist.

Síðustu ár eftir að veikindin voru farin að taka sinn toll af honum fylgdist hann samt mjög vel með afkomendum sínum og spurði fregna af öllum.

Elsku afi minn, hvíldu í friði.

Þinn

Tómas Jón.

Er held ég enn á æskuslóð

úti er napurt og sól er sest

og er nóttin skellur á

verð ég magnlaus í myrkrinu

og minning þín er sterk sem bál.

Ó hve sárt ég sakna þín

sem lýstir mér inn í ljóðaheim

og lífs mér sagðir sögur

um landið okkar ljúfa

og lífsins leyndarmál.

En morgundaggar ég fer á fund

og finn þar huggun í dalsins kyrrð

og minningarnar lifna við

um sveitina, fólkið og fjöllin

sem fylgdu þér hvert fótmál.

(Haraldur Haraldsson)

Við munum alltaf minnast þín, afi.

Einar Veigar, Jóhanna

Margrét og Ýr.

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,

– hvert andartak er tafðir þú hjá mér

var sólskinsstund og sæludraumur hár,

minn sáttmáli við Guð um þúsund ár.

Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?

Hve öll sú gleði' er fyrr naut hugur minn

er orðin hljómlaus utangátta' og tóm

hjá undrinu að heyra þennan róm,

hjá undri því, að líta lítinn fót

í litlum skóm, og vita' að heimsins grjót

svo hart og sárt er honum fjarri enn,

og heimsins ráð sem brugga vondir menn,

já vita eitthvað anda hér á jörð

er ofar standi minni þakkargjörð

í stundareilífð eina sumarnótt.

Ó, alheimsljós, ó, mynd sem hverfur skjótt.

(Halldór Kiljan Laxness)

Elsku besti langafi.

Óskar Tumi spyr hvernig við komum hjólastólnum þínum upp til himna. En ég held að þegar maður er á himnum þá þurfi maður ekki hjólastól því núna geturðu labbað aftur og á himnum er enginn sársauki, bara gleði og hamingja.

Við vorum svo heppnir að fá að kynnast þér, það áttu ekki allir strákar langafa sem kunni að prjóna. Langafi reyndi eins og hann gat að fylgjast með hvað gekk á í okkar lífi og gladdist yfir sigrunum.

Elsku langafi, við vonum að þú hafir það sem allra best á himninum og við sjáumst síðar.

Þínir langafastrákar,

Sigmundur Nói, Benedikt Snær og Óskar Tumi

Tómassynir.

Kveðja til bróður

Fram í fögrum Laxárdal

fyrstu sporin lágu.

Svanir svifu um fjallasal

með söng á vötnin bláu

en lóa og þröstur hófu hjal

um haga og túnin gráu.

Oft var kátt í okkar hóp

allir þurftu að vinna.

Starfið okkur skyldur skóp

skepnum þurfti að sinna.

Stundum kapp í kinnar hljóp

kærra vina minna.

Svífa fyrir sjónum mér

svið frá barnæskunni.

Sveitin kæra ennþá er

okkur sterk í minni.

Hún í dag vill þakka þér

þessi fornu kynni.

Höskuldur Jónsson.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju elskulegan mág okkar, Ólaf Jónsson, er lést hinn fyrsta janúar sl. á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum á nítugasta aldursári. Við kynntumst Ólafi fyrst er hann kom inn í líf systur okkar, Þórlaugar, fyrir hartnær 40 árum. Strax tókst með okkur góð vinátta og tengsl, enda maðurinn glaðsinna og félagslyndur og hafði mörg áhugamál sem féllu að okkur öllum. Þar á meðal var ferðaáhuginn þar sem við nutum glaðværðar hans og félagsskapar bæði hér innanlands og á góðum stundum erlendis. Ekki er síður vert að minnast næmni hans við að tengjast öðrum fjölskyldumeðlimum og má þar nefna hvernig börn okkar tengdust honum og báru mikla virðingu fyrir honum og minnast hans með þökkum við leiðarlok. Ólafur var alla tíð mjög starfsamur maður bæði heima og heiman og má það meðal annars sjá á fallegum garðinum þeirra að Sævargörðum sem ber natni hans vitni. Hann starfaði lengi sem umsjónarmaður við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi en er hann fór á eftirlaun sinnti hann öðrum störfum við skólann um tíma. Fyrir um níu árum veiktist hann þannig að upp frá því var hann bundinn við hjólastól. Hann dvaldist síðan á Droplaugarstöðum og reyndi þá mikið á Þórlaugu er stóð sem klettur við hlið hans í veikindum hans. Að leiðarlokum kveðjum við Ólaf Jónsson með þakklæti og söknuði og sendum öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Halla, Sigurmundur, Jón,

Áslaug, Guðrún, Sigmar

og fjölskyldur.