Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
Í fyrsta sinn frá því að heimsmeistaramótið í handknattleik karla var haldið í Svíþjóð fyrir 20 árum verður Ólafur Stefánsson ekki í leikmannahópi Íslands.

Í fyrsta sinn frá því að heimsmeistaramótið í handknattleik karla var haldið í Svíþjóð fyrir 20 árum verður Ólafur Stefánsson ekki í leikmannahópi Íslands. Hann hefur tekið þátt í öllum HM-mótum sem Ísland hefur unnið sér keppnisrétt á frá og með HM 1995 sem haldið var hér á landi. Þá tók Ólafur þátt í öllum sjö leikjum íslenska landsliðsins og skoraði alls 11 mörk.

Á þessu tímabili sem um er að ræða og spannar nærri tvo áratugi hefur Ólafur tekið þátt í 54 af 55 leikjum íslenska landsliðsins og skoraði í þeim 227 mörk. Vafasamt er að nokkur útispilari í handknattleik hafi leikið fleiri leiki í lokakeppni heimsmeistaramóts.

Lék 54 leiki alls á HM

Ólafur er leikjahæsti leikmaður Íslands á HM frá upphafi með 54 leiki eins og áður sagði. Sá næsti á listanum er markvörðurinn Guðmundur Hrafnkelsson með 44 leiki. Guðmundur stóð í marki íslenska landsliðsins á sex heimsmeistaramótum.

Eini leikurinn sem Ólafur tók ekki þátt í, þ.e. var ekki á leikskýrslu, var viðureignin gegn Brasilíu á HM í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Ólafur var þá meiddur á hné.

Ólafur skoraði a.m.k. eitt mark í 49 af 54 HM-leikjum sínum á ferlinum. Þrisvar skoraði Ólafur tíu mörk eða fleiri í leik á HM.

Íslenska landsliðið öðlaðist ekki þátttökurétt á HM í Egyptalandi 1999 og í Króatíu tíu árum síðar. Hefði Ísland verið með á þeim mótum væru HM-leikir þessa einstaka handknattleiksmanns vafalaust fleiri. iben@mbl.is