Markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson hlaut ekki náð fyrir augum Arons Kristjánssonar þegar hinn síðarnefndi valdi 16 manna hóp til þátttöku á HM á Spáni.

Markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson hlaut ekki náð fyrir augum Arons Kristjánssonar þegar hinn síðarnefndi valdi 16 manna hóp til þátttöku á HM á Spáni. Þetta verður því fyrsta stórmótið sem Hreiðar Levý tekur ekki þátt í með landsliðinu síðan hann kom fyrst inn í landsliðið fyrir stórmót en það var á HM 2005 í Túnis. Þá lék Hreiðar Levý einn leik á mótinu, gegn Kúveit, í 30:21 sigri Íslands.

Hreiðar Levý hefur tekið þátt í þremur heimsmeistaramótum með landsliðinu, Evrópumótin eru orðin fjögur auk tvennra Ólympíuleika, 2008 og 2012. Alls hefur hann leikið 51 landsleik á stórmótum, 16 á heimsmeistaramóti, 21 á Evrópumeistaramóti og 14 leiki á Ólympíuleikum.

Alls á Hreiðar Levý 147 landsleiki að baki.

Hann náði reyndar ekki að ljúka Evrópumeistaramótinu í Serbíu fyrir ári. Þá var Hreiðari Levý skipt út fyrir Aron Rafn Eðvarðsson að lokinni riðlakeppninni í Vrsac áður en haldið var í milliriðlana í Novi Sad. iben@mbl.is