Í haldi Karl Vignir verður í gæsluvarðhaldi næstu tvær vikurnar.
Í haldi Karl Vignir verður í gæsluvarðhaldi næstu tvær vikurnar. — Pressphotos.biz
Anna Lilja Þórisdóttir Jón Pétur Jónsson Hópur fagfólks úr innanríkis-, velferðar- og forsætisráðuneytinu var kallaður saman að frumkvæði forsætisráðherra á miðvikudag til að fara yfir mál tengd Karli Vigni Þorsteinssyni í kjölfar umfjöllunar um langa...

Anna Lilja Þórisdóttir

Jón Pétur Jónsson

Hópur fagfólks úr innanríkis-, velferðar- og forsætisráðuneytinu var kallaður saman að frumkvæði forsætisráðherra á miðvikudag til að fara yfir mál tengd Karli Vigni Þorsteinssyni í kjölfar umfjöllunar um langa sögu kynferðisbrota hans gegn börnum.

Að sögn Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra gæti starf hópsins orðið til þess að lögum eða reglugerðum yrði breytt. Á meðal þess sem verði skoðað sé starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka en Karl Vignir starfaði fyrir ýmis slík samtök.

„Við erum að velta fyrir okkur mörgum spurningum; hvernig gat þetta gerst, hvað í umhverfinu veldur því að það var ekki gripið fyrr inn í og í framhaldinu viljum við skoða hvaða leiðir séu til úrbóta. Þessi hópur mun síðan skila minnisblaði og hugmyndum og unnið verður með það áfram,“ segir Guðbjartur.

Skýrslur teknar af fórnarlömbum Karls Vignis

Kærur vegnar kynferðisbrota á hendur Karli Vigni sem eru hugsanlega ekki fyrnd hafa borist lögreglu eftir að fjallað var um mál hans í Kastljósi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér í gær.

„Strax eftir að þættinum lauk gaf fólk sig fram og hafði samband,“ segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Skýrslutökur yfir fólki sem sakar Karl Vigni um kynferðisbrot stóðu yfir í gær en sjálfur var hann úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á miðvikudag. Björgvin segir að vísbendingar séu um að einhver brotanna séu ekki fyrnd. Í tilkynningunni segir jafnframt að á grundvelli nýrra upplýsinga sem komu fram eftir Kastljósumfjöllunina hafi Karl Vignir verið úrskurðaður í gæsluvarðhaldið.

Sumir treysta sér ekki til lögreglu

Í yfirlýsingu frá stjórnendum Kastljóss í gær kemur fram að þættinum hafi borist ábendingar um nýrri brot Karls Vignis í kjölfar umfjöllunarinnar. Þeim einstaklingum hafi verið bent á að leita til lögreglu.

Í sumum tilfellum hafi fórnarlömbin ekki treyst sér til þess og hafi óskað eftir trúnaði.