Mikill fjöldi lausna barst við vetrarsólstöðugátunni og voru margir með rétta lausn á henni.
Lausnin er:
Skórnir okkar skipta máli
skaflajárn og nagladekk
í veðrahamsins versta báli,
velur hver sér eftir smekk.
Ekki spillir úlpu klæðast,
einnig hjálpar brókin hlý.
Annars pestar ljótar læðast
og leggja okkur rúmið í.
Skynsemi að leiðarljósi
látum vera okkar skjól.
Eins og kýrnar úti í fjósi,
unnum friði þessi jól.
Vinningarnir eru bækur frá Forlaginu. Aðalsteinn H. Guðnason, Pósthússtræti 1, 230 Reykjanesbæ, hlýtur bókina Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur, Ágústa Högnadóttir, Austurvegi 1A, 900 Vestmannaeyjum, hreppir bókina Húsið eftir Stefán Mána og Bergdís Ósk Sigmarsdóttir, Blikanesi 2, 210 Garðabæ, fær bókina Íslenskir kóngar eftir Einar Má Guðmundsson.
Vinningshafar geta vitjað vinninganna í móttöku ritstjórnar Morgunblaðsins eða hringt í 5691100 og fengið bækurnar sendar heim. Morgunblaðið þakkar þátttökuna.