Alls hafa Íslendingar og Danir mæst sjö sinnum á heimsmeistaramóti í handknattleik og þar af hafa Danir unnið í fimm skipti. Síðasti leikur þjóðanna á HM var 30. janúar 2007 í Hamborg og skar úr um hvort liðið færi áfram í undanúrslit mótsins. Viðureignin var hnífjöfn og æsispennandi en svo fór að Danir unnu eftir framlengingu, 42:41, með ævintýralegu marki á síðustu sekúndu en nánar er fjallað um það á öðrum stað. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 15 mörk í leiknum.
Fyrsti leikur þjóðanna á HM var í Karlsruhe í Þýskalandi á HM 1961. Danir unnu örugglega með ellefu marka mun, 24:13, þar sem Gunnlaugur Hjálmarsson var markahæstur í íslenska liðinu með fjögur mörk. Níu árum síðar mættust þjóðirnar á HM í Frakklandi og aftur unnu Danir örugglega, 19:13. Geir Hallsteinsson var markahæstur með 5 mörk.
Næsta viðureign var í Erfurt í Austur-Þýskalandi 1974 og enn höfðu Danir betur, 19:17. Axel Axelsson var markahæstur með fjögur mörk.
Á ný liðu fjögur milli leikja Íslendinga og Dana á heimsmeistaramóti, og nú mættust þjóðirnar á HM sem fram fór í Danmörku 1978. Þá tóku Danir Íslendinga í kennslustund og unnu með sjö marka mun, 21:14, þar sem Þorbergur Aðalsteinsson var markahæstur með fjögur mörk.
Stórbrotinn sigur í Luzern
Átta ár liðu áður en Íslendingar og Danir mættust á ný á heimsmeistaramóti og þá var líka komið að fyrsta sigri Íslendinga. Þá voru Danir hreinlega kjöldregnir í Luzern, 25:16. Atli Hilmarsson var fremstur jafningja í íslenska liðinu í þeim stórbrotna leik og skoraði átta mörk.Aftur vann íslenska liðið þegar það mætti Dönum næst á HM, 1993 í Svíþjóð, 27:22. Leikið var í Globen-höllinni í Stokkhólmi en tveimur dögum áður höfðu Rússar rassskellt íslenska landsliðið, 27:19.
Bjarki Sigurðsson var markhæstur hjá íslenska liðinu með átta mörk. Sigurður Sveinsson næstur með sex mörk.
Nú eru liðin 20 ár frá síðasta sigri Íslendinga á Dönum á HM. Í millitíðinni hefur Ísland aðeins einu sinni unnið Dani á stórmóti í handknattleik karla, á EM 2010 í Austurríki, 27:22. iben@mbl.is