Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Samninganefnd Alþýðusambands Íslands samþykkti á fundi í gærkvöldi að hitta fulltrúa Samtaka atvinnulífsins á fundi í dag til að ræða útspil vinnuveitenda vegna endurskoðunar kjarasamninga sem nú stendur yfir. „Við viljum sjá hvort hægt er að spinna eitthvað úr þessum þræði,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, eftir fundinn.
Stjórn SA lýsti sig reiðubúna til viðræðna við ASÍ og landssambönd þess um að stytta samningstíma kjarasamninga um einn mánuð, til 31. desember nk., og hefja viðræður um undirbúning næstu kjarasamninga. Stjórnin mun leita eftir samstöðu með ASÍ um meginþætti atvinnustefnu og reyna að fá fram afstöðu stjórnmálaflokkanna fyrir komandi alþingiskosningar. Eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar gefist möguleiki til að fullvinna raunhæfa aðgerðaáætlun til næstu ára.
Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir að með þessu sé stjórn SA að taka mið af reynsluheimi samskipta við núverandi ríkisstjórn. Hún hafi svikið allt jafnóðum sem lofað var.
Gylfi Arnbjörnsson segir að fulltrúum ASÍ þyki boð SA um styttingu samningstíma heldur lítið. Þá vilji ASÍ einnig ræða um forsendur verðlagsmála. Þótt ekki sé gert lítið úr mikilvægi atvinnumála sé verðbólgan mesta ógnin við kjör launafólks.
Vilja samstöðu 2
Bætt vinnubrögð
» Stjórn Samtaka atvinnulífsins leggur til að samningsaðilar á almennum og opinberum vinnumarkaði bæti vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
» Vill stjórnin horfa til nágrannaríkja sem tekist hafi að tryggja kaupmáttaraukningu samfara lítilli verðbólgu.