Vilmundur Jósefsson
Vilmundur Jósefsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það skiptir þá ekki máli hvaða flokkar taka við eftir kosningar, þeim yrði algerlega ljóst hver afstaða okkar er,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, um þá samþykkt stjórnar SA að leita eftir samstöðu með Alþýðusambandi Íslands um meginþætti atvinnustefnu sem lögð yrði fyrir stjórnmálaflokkana fyrir komandi alþingiskosningar. Forseti ASÍ segir að í slíku samráði þyrfti einnig að fjalla um það hvernig ætti að halda aftur af verðbólgunni.

Í samþykkt stjórnar SA er lýst yfir vilja til viðræðna við ASÍ og landssambönd þess um að stytta samningstíma núgildandi kjarasamninga um mánuð, til 31. desember 2013. ASÍ hefur lagt til rauð strik og enn frekari styttingu samningstíma. „Samtökin telja í því samhengi nauðsynlegt að samningsaðilar hefji nú þegar vinnu vegna næstu kjarasamninga sem þarf að felast í mótun á sameiginlegri sýn á getu atvinnulífsins og samfélagsins til launahækkana og aukins kaupmáttar á næstu árum. Ennfremur þarf að hefja sameiginlega stefnumörkun til að tryggja vöxt og viðgang atvinnulífsins og efnahagslegan stöðugleika sem eru forsendur framfara og bættra lífskjara,“ segir í samþykkt stjórnar SA.

Samtökin vilja á næstu vikum leita samstöðu með Alþýðusambandinu um meginþætti atvinnustefnu sem hefur hagvöxt, fleiri og betri störf og bætt lífskjör á grunni stöðugleika að markmiði. Niðurstaða þeirrar vinnu yrði lögð fyrir stjórnmálaflokkana til þess að ná fram afstöðu þeirra fyrir komandi kosningar. Eftir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar gefist síðan möguleiki til að fullvinna raunhæfa aðgerðaáætlun til næstu ára. Vilmundur segir að með þessu sé stjórn SA að taka mið af reynsluheimi samskipta við núverandi ríkisstjórn. Hún hafi svikið allt jafnóðum sem lofað var. Þá segir hann mikilvægt að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga og gera þau markvissari.

Fagnar vilja til viðræðna

„Það er fagnaðarefni að Samtök atvinnulífsins eru komin inn á það að ræða við okkur um lausnir og kalla eftir samstöðu í atvinnumálum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, þegar viðbragða hans er leitað. Hann segist hins vegar sakna þess að sjá fjallað um aðgerðir gegn verðbólgu í yfirlýsingu SA. „Við hljótum að eiga samræður um það á hvaða grundvelli við ætlum að móta stefnu í gengis- og verðlagsmálum.“

ENDURSKOÐUN SAMNINGA

Niðurstaða 21. janúar

Kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ við Samtök atvinnulífsins gilda frá 5. maí 2011 til 31. janúar 2014. Nú stendur yfir endurskoðun, út frá þróun forsendna. Niðurstaða þarf að liggja fyrir 21. janúar næstkomandi þegar frestur til að segja samningunum upp rennur út. Laun hækka um 3,25% 1. febrúar, ef samningar gilda áfram.