Katar
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Katarbúar eru töluvert líkamlega sterkari en þeir voru þegar ég mætti þeim með íslenska landsliðinu á HM fyrir tíu árum,“ segir Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handknattleik karla. B-landslið hans mætti landsliði Katars á æfingamóti í Sviss í byrjun þessa árs og tapaði með fjögurra marka mun, 32:28.
„Ég var með B-liðið í þessu móti. Það vantaði níu sterka leikmenn auk þess sem fjórir leikmenn voru að spila sinn fyrsta landsleik á þessu móti í Sviss. Þar af leiðandi var þetta ágætt hjá okkur,“ sagði Patrekur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans til Austurríkis í vikunni.
„Katarbúar náðu jafntefli við Hvít-Rússa í þessu móti sem segir að þeir geta eitt og annað. Þeir hafa tekið framförum á síðustu árum.
Aðalmarkvörður liðsins, Mohsen Yafai, er góður. Hann varði mjög vel á móti okkur og eins gegn Hvít-Rússum. Þá er línumaður Katars, Mahmoud Osman, sterkur og illviðráðanlegur þegar hann fær boltann. Þetta er samanrekinn náungi sem menn verða að hafa góðar gætur á. Við lentum í vandræðum með hann, eins Hvít-Rússarnir sem eru mjög líkamlega sterkir. Osman var einn besti leikmaður mótsins í Sviss,“ sagði Patrekur.
„Síðan eru Katarbúar með eina örvhenta skyttu sem er nokkuð góð og hefur fína skottækni,“ segir Patrekur.
Villtur varnarleikur úr sögunni
Katarbúar leika fjölbreyttan varnarleik og geta að sögn Patreks leikið allgóða 5/1-vörn og eins 6/0-vörn. Þá eiga þeir til að bregða sér fram í 3/2/1 en þessi villti varnarleikur út um allan völl, sem stundum einkenndi lið eins og Katar á árum áður, var hvergi sjáanlegur í leik þess á mótinu í Sviss.“Svartfellingurinn Pero Milosevic tók við þjálfun landsliðs Katars fyrir fáeinum árum. Patrekur segir ljóst að eftir að Milosevic tók við þjálfun landsliðsins hafi agi í leik Katarbúa aukist enda hafi ekki verið vanþörf á. „Hornamennirnir eiga það þó til ennþá að stökkva upp og vera með ýmsar kúnstir, en þeim hefur fækkað og ljóst að aginn í leik liðsins hefur batnað,“ segir Patrekur.
„Varnarleikur Katarbúa er á tíðum ágætur en sóknarleikurinn oft agalítill og endasleppur. Það getur nýst íslenska landsliðinu vel sem gæti náð að „keyra“ talsvert af hraðaupphlaupum á Katarbúana,“ segir Patrekur.
Geta strítt einhverjum
„Katarmenn eru með lið sem getur eflaust strítt einhverjum, það er ekkert hægt að útiloka það. Þeir eru seinir aftur í vörnina og það verða lið að nýta sér. Þegar þeim tekst að stilla upp í vörn eru þeir hins vegar nokkuð sterkir.Á heildina litið eru Katarbúar með líkamlega sterkara lið en fyrir tíu árum. Meiri agi hefur færst í leik liðsins þótt hann geti verið meiri. Nokkrir leikmenn ráða yfir ágætri skottækni og þeir geta leikið allgóða vörn þegar þeir skila sér aftur í vörnina.
Hins vegar er ekki nokkur vafi á því að íslenska landsliðið á vinna Katarbúana nokkuð örugglega með eðlilegum leik,“ segir Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis og þjálfari Vals í handknattleik karla.