UPPRIFJUN
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Íslenska landsliðið í handknattleik tók í sextánda sinn þátt í heimsmeistaramóti í karlaflokki þegar Svíar voru gestgjafar heimsmeistaramóts í fjórða sinn fyrir tveimur árum. Niðurstaðan varð sjötta sætið, einn besti árangur Íslands á HM frá upphafi. Aðeins fimmta sætið á HM í Japan 1997 var betra en í tvígang áður hafði Íslandi tekist að krækja í sjötta sætið, á HM 1964 í Vestur-Þýskalandi og 22 árum síðar þegar HM fór fram í Sviss.
Þrátt fyrir sjötta sætið er óhætt að segja að leikur íslenska landsliðsins á mótinu hafi verið endasleppur. Liðið vann allar fimm viðureignir sínar í riðlakeppninni, sem varð til þess að bjartsýni á framúrskarandi árangur jókst. Ljóst var að milliriðlakeppnin yrði erfið með Frökkum, Spánverjum og Þjóðverjum en menn gerðu sér vonir um að eftir fimm sigurleiki í röð myndi íslenska liðið knýja fram a.m.k. einn sigur. Sú varð ekki raunin. Ísland tapaði strax fyrir Þýskalandi í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar. Tapið virtist fara illa í menn og í framhaldinu komu tveir leikir, við Spánverja og Frakka, þar sem íslenska liðið átti aldrei raunhæfa möguleika á sigri eftir að flautað var af.
Ísland hóf milliriðlakeppnina með fullu húsi stiga og sá árangur skilaði liðinu í þriðja sæti riðilsins þegar upp var staðið þrátt fyrir þrjá tapleiki. Niðurstaðan varð leikur um 5. sætið við Króata í Malmö. Sá leikur var afar sveiflukenndur af hálfu beggja liða en eftir háspennu á lokamínútunum höfðu Króatar betur, 34:33.
Lítum aðeins betur á gang mála í Svíþjóð fyrir tveimur árum.
Ótti við Ungverja
Ísland mætti Ungverjum í fyrsta leik í riðlakeppninni og virtist nokkur kvíði vera í herbúðum íslenska landsliðsins fyrir leikinn sem fram fór í Norrköping. Ungverjar þóttu sterkir og voru ekki óskamótherji í fyrsta leik. Fljótlega eftir að flautað var til leiks kom í ljós að íslenska landsliðið var klárt í slaginn. Það náði um tíma sex marka forskoti, 12:6, en slakaði á og aðeins munaði þremur mörkum í hálfleik, 14:11.Vörnin var frábær í síðari hálfleik og var talað um að „hin ógnarsterka Pekingvörn“ íslenska landsliðsins væri mætti til leiks á HM. Aron Pálmarsson fór á kostum í sóknarleiknum og skoraði m.a. átta mörk í leiknum sem Ísland vann örugglega, 32:26. Þetta var um leið í fyrsta sinn sem íslenska landsliðið vann upphafsleik sinn á heimsmeistaramóti.
„Við virtumst betur undirbúnir en þeir og uppskárum samkvæmt því,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið og hrósaði mjög samherjum sínum í vörninni fyrir vaska framgöngu. Samherji hans, Róbert Gunnarsson, viðurkenndi í samtali við Morgunblaðið að nokkurt stress hefði verið í mönnum fyrir leikinn þar sem þeir hefðu ekki alveg vitað hvar þeir stæðu í samanburði við Ungverja.
Meiðsli hjá Ólafi og Guðjóni
Næstu tveir leikir voru við Brasilíu og Japan og þá vann íslenska liðið örugglega, 34:26 og 36:22. Segja má að um skyldusigra hafi verið að ræða enda báðar þjóðir mun lakari en Íslendingar á handboltavellinum. Ólafur Stefánsson lék lítið sem ekkert í þessum tveimur leikjum. Hann glímdi við meiðsli í hné fyrir mótið og þau bötnuðu ekki við leikjaálagið í mótinu og fylgdu honum út mótið.Guðjón Valur Sigurðsson var einnig nýlega farinn á leika á nýjan leik, skömmu fyrir HM, eftir nærri ár frá keppni vegna hnémeiðsla. Eins og fyrri daginn óð hann eld og brennistein fyrir landsliðið og lét sársauka og e.t.v. ekki toppleikform koma í veg fyrir að hann spilaði alla leiki Íslands í mótinu frá upphafi til enda.
Erfiðir Austurríkismenn
Fjórði leikurinn í mótinu var við Austurríkismenn sem árið áður, á EM 2010, höfðu gert Íslendingum skráveifu og náð jafntefli með tveimur ævintýralegum mörkum á síðustu mínútu leiksins. Þá höfðu Austurríkismenn unnið Íslendinga um haustið í undankeppni EM 2012.Leikmenn íslenska landsliðsins og Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, voru þar af leiðandi með fulla einbeitingu þegar að viðureigninni kom í Linköping.
Ekki veitti af fullri einbeitingu því úr varð mikill spennutryllir. Íslenska liðið lenti snemma í vandræðum, ekki síst í sóknarleiknum, og Nikola Marinovic, markvörður Austurríkismanna, reyndist Íslendingum óþægur ljár í þúfu. Brúnin var þung á Guðmundi þjálfara þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik fimm mörkum undir, 16:11.
Síðari hálfleikur var mun betri og ekki var langt liðið á hann þegar Ísland hafði jafnað metin. Þá tóku við 20 spennuþrungnar mínútur allt til leiksloka. Frábær vörn og markvarsla og vel útfærður sóknarleikur þar sem tókst að finna leiðir framhjá fyrrgreindum Marinovic, varð til þess að Ísland vann með þriggja marka mun, 26:23.
„Við ræddum um í hálfleik að hver og einn færi í sitt hugarpokahorn og bætti þar við. Við rifjuðum upp af hverju við erum í þessari keppni og hvað er í húfi. Engu var við það að bæta því við þurfum í rauninni að bæta okkur á öllum sviðum leiksins. Það var ekkert öðruvísi,“ sagði fyrirliðinn Ólafur Stefánsson við Morgunblaðið eftir sigurinn á Austurríkismönnum.
Frábær vörn og markvarsla
Síðasti leikurinn í riðlakeppninni var við frændur okkur Norðmenn sem oft hafa reynst Íslendingum erfiðir á stórmótum þótt yfirleitt hafi Íslendingar haft sigur að lokum. Fyrir leikinn var sagt að mikið væri undir, sigur þýddi að íslenska liðið myndi sennilega aðeins þurfa að vinna einn leik í milliriðlakeppninni til þess að komast í undanúrslit.Fyrri hálfleikur leiksins við Norðmenn var í járnum og sama upp á teningum framan af síðari hálfleik. Þá skildi leiðir og íslenska landsliðið tók öll völd á leikvellinum, ekki síst með frábærum varnarleik og framúrskarandi markvörslu Björgvins Páls Gústavssonar. Norðmenn sáu sæng sína uppreidda og Íslendingar unnu með sjö marka mun, 29:22, og unnu þar með riðilinn.
„Þetta var stóri leikurinn,“ sagði Björgvin Páll í samtali við Morgunblaðið eftir sigurinn á Noregi. „Ég held að við höfum sýnt að við séum betri en Norðmenn. Við erum einfaldlega komnir á það góðan stall, en nú taka við þrír alvöru leikir í milliriðlum. Þá mætum við þjóðum sem allar eru betri en þær þjóðir sem við mættum í riðlinum. Þá þurfum við að halda áfram að byggja á þeim áherslum sem við höfum verið með,“ sagði Björgvin Páll ennfremur.
Botninn datt úr
Ekki tókst íslenska landsliðinu að byggja ofan á það sem vel hafði verið gert í riðlakeppninni þegar kom að millriðlakeppninni. Liðið lék sinn slakasta leik til þessa í mótinu gegn Þjóðverjum í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar í Jönköping. Þjóðverjar höfðu greinilega lært meira en Íslendingar af vináttuleikjunum í Laugardalshöll skömmu fyrir Evrópumótið. Þeir vængstýfðu sóknarleik Íslands alveg. Þýska liðið tók frumkvæðið snemma og hafði forystu nær allan leikinn. Mestur varð munurinn fimm mörk í nokkur skipti en að lokum fögnuðu Þjóðverjar fjögurra marka sigri, 27:24.Ólafur Stefánsson fyrirliði sagði íslenska liðið hafa leikið langt undir getu. „Við skoruðum fá mörk úr hraðaupphlaupum og skoruðum nánast engin auðveld mörk. Við þurftum alltaf að stilla upp í sókninni og þar gengu hlutirnir ekki upp. Það margt að í þessum leik.“
Ólafur hafði þó ekki gefið upp vonina um sæti í undanúrslitum þótt framundan væru viðureignir við Spánverja og Frakka, annar hvor leikurinn yrði að vinnast til þess að öðlast sæti í undanúrslitum í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti.
„Við eigum þó enn leið út og örlögin eru enn í okkar höndum þótt vissulega bíði stór lið eftir okkur. Stundum þarf að fara í gegnum slíka andstæðinga,“ sagði Ólafur.
Afgreiddir í fyrri hálfleik
Hafi menn gert sér vonir um sigur á Spánverjum þá ruku þær vonir út í veður og vind strax í fyrri hálfleik í viðureigninni í Jönköping. Spánverjar léku sér að íslenska liðinu eins og köttur að mús og hefndu að hluta til fyrir tapið í undanúrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Peking hálfu þriðja ári áður þegar hlutverkin voru á hinn veginn. Staðan í hálfleik var 20:10. Síðari hálfleikur snerist aðeins um að bjarga andlitinu sem varla tókst því átta mörkum munaði að leikslokum, 32:24.„Ég veit ekki hvað gerðist hjá okkur. Við töpuðum alla vega hverri einustu baráttu, bæði í vörn og sókn,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson þegar hann hitti naglann á höfuðið í leikslok.
Undanúrslitasæti var úr myndinni af hálfu íslenska landsliðsins þótt einn leikur væri eftir í milliriðlinum.
Íslenska landsliðið náði sér ekki á strik gegn Frökkum og tapaði með sex marka mun, 34:28. Ungverjar töpuðu á sama tíma fyrir Spánverjum og náðu þar með ekki að „nappa“ þriðja sætinu í riðlinum af Íslendingum sem þeir hefðu gert með sigri og þar með komist í „léttari“ forkeppni fyrir Ólympíuleikana árið eftir.
„Við vorum í dauðafæri“
Vonbrigðin láku af leikmönnum íslenska landsliðsins eftir tapið fyrir Frökkum, ekki endilega með það eina tap heldur tapleikina þrjá í milliriðlinum. „Eftir frábæra riðlakeppni eru það vonbrigði að ná ekki lengra en þetta. Við vorum í dauðafæri en köstuðum þessu frá okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, einn leikmanna landsliðsins, við Morgunblaðið.„Ef maður kemst ekki í undanúrslitin þá getur maður ekki gert betur en að spila um 5. sætið. Það er eiginlega ótrúlegt að við séum að fara að spila um það sæti og eigum möguleika á að jafna besta árangur Íslands á HM, í ljósi þess að við höfum tapað þremur leikjum í röð,“ sagði varnarjaxlinn Sverre Jakobsson.
Heppnir með sjötta sætið
Framundan var leikur við Króata um 5. sætið á HM í Malmö Arena. Eins og að framan segir var sá leikur sveiflukenndur en sennilega á heildina skásti leikur íslenska landsliðsins frá og með milliriðlakeppninni. Króatar hrósuðu naumum sigri, 34:33, í leik þar sem sigurinn gat fallið hvorum megin sem var.„Sjötta sæti hljómar ágætlega en fimm sigrar og fjögur töp í röð er náttúrlega ekki það sem við viljum. Við getum talið okkur heppna að hafa náð 6. sætinu miðað við að hafa tapað fjórum leikjum,“ sagði Ólafur Stefánsson fyrirliði að loknum síðasta kappleik á ferlinum á heimsmeistaramóti.