Bronsliðið Lið Síle hafnaði í þriðja sætinu í Suður-Ameríkukeppninni og tryggði sér þar sæti á HM með því að sigra Úrúgvæ í bronsleik mótsins, 37:27.
Bronsliðið Lið Síle hafnaði í þriðja sætinu í Suður-Ameríkukeppninni og tryggði sér þar sæti á HM með því að sigra Úrúgvæ í bronsleik mótsins, 37:27.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SÍLE Ívar Benediktsson iben@mbl.is Með fullri virðingu fyrir landsliði Síle er alveg ljóst að það á ekki að vefjast fyrir íslenska landsliðinu í þessari keppni, þótt íslenska liðið sé e.t.v. ekki eins sterkt og stundum áður.

SÍLE

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Með fullri virðingu fyrir landsliði Síle er alveg ljóst að það á ekki að vefjast fyrir íslenska landsliðinu í þessari keppni, þótt íslenska liðið sé e.t.v. ekki eins sterkt og stundum áður. Sílemenn höfnuðu í þriðja sæti í síðustu Ameríkukeppni eftir að hafa tapað fyrir Brasilíu í undanúrslitum. Síle lánaðist að ná jafntefli við Argentínu í riðlakeppni mótsins, en Argentína hefur verið besta liðið í álfunni um nokkurt skeið ásamt Brasilíu.

Ekki bætir úr skák hjá Sílemönnum að þeirra þekktasti og besti leikmaður, línumaðurinn Marco Oneto, getur ekki leikið með landsliðinu á HM vegna meiðsla. Oneto lék um langt árabil með Barcelona en er nú í herbúðum Veszprém í Ungverjalandi.

Rodrigo Salinas er sennilega einna þekktasti leikmaður landsliðs Síle. Hann er á mála hjá Granollers í spænsku 1. deildinni.

Flestir leikmenn landsliðs Síle eru á mála hjá félagsliðum í heimalandinu. Tveir spila á Ítalíu og fjórir í Þýskalandi með liðum í 3. deild, HC Ascherleben og TSV Friedberg.

Annað mót Sílemanna

Þetta verður í annað sinn sem Sílemenn taka þátt í heimsmeistaramóti. Þeir voru einnig með á HM í Svíþjóð fyrir tveimur árum og höfnuðu þá í 22. sæti af 24 þátttökuþjóðum. Þá eins og nú er Fernando Capurro við stjórnvölinn. Hann vonast til þess að geta náð lengra með liðið að þessu sinni en mörgum þykir Capurro mikill bjartsýnismaður.

Sílemenn leika svolítið villtan handknattleik og geta fyrir vikið verið óútreiknanlegir. Líkamlegir burðir og grunnæfing í handknattleik er ekki eins góð og hjá mörgum öðrum og því má telja næst víst að hlutskipti Sílemanna verði að tapa öllum leikjum sínum í riðlinum. Sóknarleikurinn er slakur og hægur og varnarleikurinn virðist ekki vera upp á marga fiskana.

Sílemenn mæta þó með eilítið sjálfstraust til leiks því um liðna helgi unnu þeir Japani, 30:29, á fjögurra þjóða móti á Spáni. Áður höfðu þeir tapað, 40:17, fyrir Spáni og 38:21, á móti Brasilíu.