Risahöll Katarmenn bjóða upp á eitt stærsta íþróttamannvirki heims, Aspire Zone, sem er með þrettán mismunandi keppnisvelli.
Risahöll Katarmenn bjóða upp á eitt stærsta íþróttamannvirki heims, Aspire Zone, sem er með þrettán mismunandi keppnisvelli.
Næsta heimsmeistaramót í handknattleik karla fer fram í Katar eftir tvö ár. Emír landsins, Joaan bin Hamad Al Thani, hefur lofað að það mót verði glæsilegasta og best skipulagða heimsmeistarakeppni sem haldin hefur verið.

Næsta heimsmeistaramót í handknattleik karla fer fram í Katar eftir tvö ár. Emír landsins, Joaan bin Hamad Al Thani, hefur lofað að það mót verði glæsilegasta og best skipulagða heimsmeistarakeppni sem haldin hefur verið. Ekkert verður til sparað svo það megi takast sem best og verður m.a. mokað peningum úr sjóðum ríkisins til ólympíunefndar landsins til þess að allt verði eins glæsilegt og hugsast getur. Stórar íþróttahallir eru í byggingu til að hýsa kappleiki mótsins.

Ekkert verður sparað

Al Thani sagði á dögunum að ekkert yrði sparað í undirbúningi og framkvæmd mótsins. Allar framkvæmdir vegna þess væru á áætlun og vel það. Þá verður miklum fjárhæðum varið í að auglýsa mótið, jafnt heimafyrir sem og í Evrópu, og mun herferðin hefjast á Spáni á meðan heimsmeistaramótið fer þar fram næstu tvær vikurnar. M.a. geta áhugasamir þegar tryggt sér miða á leiki keppninnar í Katar meðan þeir dveljast á Spáni og bókað gistingu og flug.

Ekki mun Katarbúum veita af að efla áhugann heimafyrir því í kringum áramótin var haldið fjögurra liða æfingamót í Katar þar sem að jafnaði voru 150 áhorfendur á leik, eftir því sem upplýst er á vef Handknattleikssambands Sviss, en landslið Sviss tók þátt í mótinu.

Katarbúar héldu heimsmeistaramótið í sundi í 50 m laug í hitteðfyrra og þótti takast afar vel til. Þá verða þeir gestgjafar heimsmeistaramótsins í knattspyrnu karla eftir níu ár.

iben@mbl.is