Stuðnings -
maðurinn
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Einar Guðlaugsson verður að sjálfsögðu á meðal áhorfenda á leikjum Íslands á HM í handknattleik. Einar kom til Sevilla í gærkvöldi ásamt dætrum sínum, Margréti og Guðlaugu, og Sigga og Sigmari, félögum sínum „Við höfum farið á mörg mót saman í gegnum tíðina,“ segir Einar sem lætur sig aldrei vanta á landsleiki Íslands hér á landi. Einar hefur einnig fylgt landsliðinu eftir á nær öllum stórmótum frá og með HM í Þýskalandi. „Ég hef ekki farið á Ólympíuleika ennþá. Ég hef bara ekki komist þar sem þeir fara alltaf fram á sumrin. Þá er alltaf meira en nóg að gera hjá mér,“ sagði Einar sem rekur gistiheimilin Travel Inn í Reykjavík.
„Ég hef bara lokað núna á meðan HM fer fram,“ segir Einar.
Einar vekur ævinlega athygli á mótum enda styður hann íslenska landsliðið með ráðum og dáð í hverjum leik, hrópar sig hásan og blæs í lúðra auk þess að vera klæddur í landsliðspeysuna og málaður í andliti og oft með hjálm á höfði og rauða hárkollu.
„Þetta hentar vel með vinnunni, það er gott að taka frí á þessum tíma. Auk þess er þetta skemmtilega áhugamál og maður getur fagnað oft og tíðum mjög vel þar sem landsliðið vinnur marga leiki þótt það tapi á stundum einnig eins og önnur lið. Þetta byggist mikið á að vera glaður,“ segir Einar sem er alltaf hrókur alls fagnaðar í áhorfendastúkunni og á fyrir vikið auðvelt með blanda glöðu geði sínu við stuðningsmenn annarra landsliða.
Fyrst og fremst skemmtun
„Þetta er kannski einhver hluti af athyglissýki hjá mér. Ég klæði mig oft einkennilega. En fyrst og fremst er þetta skemmtun hjá okkur. Hópurinn er alltaf góður. Dætrum mínum þykir mjög gaman að þessu og mega varla missa af mótum,“ segir Einar en yngri dóttir hans verður 15 ára meðan mótið stendur yfir. „Þá verðum við komin til Barcelona og daginn sem stúlkan á afmæli verður ekkert leikið. Stefnan verður þá sett á að fara til Mónakó og halda upp á afmæli dótturinnar á veitingastað í smáríkinu. Við höfum alltaf gert eitthvað „spes“ í kringum þessi mót þann dag sem stelpan á afmæli.Það er langt ferðalag frá Barcelona til Mónakó en við ætlum að láta okkur hafa það. Leggjum bara snemma af stað,“ segir Einar.
Spurður hvað sé svo sérstakt við að fara á stórmót í handbolta ár eftir ár, segir hann það fyrst og fremst vera mikla skemmtun og gleði. „Síðan myndast ákveðin vinatengsl á milli fólks. Það er alltaf einhver hópur Íslendinga sem sækja flest mótin. Ég hitti til dæmis hóp kvenna úr Haukum á dögunum. Þær sögðust ekki ætla að fara þetta árið og það verður maður bara leiður að heyra.“
Einar segist reikna með að einhverjir tugir Íslendinga mæti á leikina í Sevilla þótt hann viti ekki um fleiri sem hafi skipulagt ferð til Spánar á mótið.
„Við verðum fimm og höfum svo hátt að við jafngildum að minnsta kosti 25,“ segir Einar og hlær við og virðist þegar vera kominn í HM-skapið.
Tveir á við 200 Króata
Einar fylgdi landsliðinu til Króatíu í apríl á síðasta ári þegar það lék í forkeppni Ólympíuleika. Hann fór ásamt Guðlaugu, yngri dóttur sinni, og vöktu þau óskipta athygli og voru leyst út með gjöfum þegar mótinu lauk. „Forstöðumaður íþróttahallarinnar sagði að ef Króatar hefðu 200 stuðningsmenn eins og okkur tvö þá töpuðu Króatar aldrei leik.“Spurður hvert sé eftirminnilegasta mótið svarar Einar hiklaust. „EM 2010 þegar Ísland fékk bronsverðlaun,“ segir Einar sem lenti einnig í óvæntum erfiðleikum í Austurríki með að koma lúðrum og öðru inn í íþróttahallirnar en Austurríkismenn voru mjög vandlátir á hvað áhorfendur máttu taka með sér inn í keppnishallirnar.
„Ég sagði Austurríkismönnunum að við þyrftum að hafa lúðra vegna þess hversu fá við værum. Við þyrftum að hafa meira fyrir því að styðja okkar lið. Þeir gáfu sig ekki en þá kom ég með krók á móti bragði. Stelpurnar mínar teipuðu lúðrana við lærin á sér áður en þær fóru inn í hallirnar. Austurríkismenn kunnu ekki við að leita þar og þar með sluppum við inn í keppnishöllina með lúðrana og gátum látið hressilega í okkur heyra.“
Á miða á úrslitaleikinn
Einar og dætur hans ásamt Sigga og Sigmari verða út keppnina á Spáni, hvernig sem íslenska liðinu vegnar. „Ég er búinn að kaupa miða á úrslitaleikinn 27. janúar í Barcelona. Ég reyni yfirleitt að vera út mótin og sjá úrslitaleikinn ef ég á kost á því.“Spuður hvernig honum lítist á íslenska landsliðið að þessu sinni segist Einar vera nokkuð bjartsýnn.
„Mér líst nokkuð vel á fyrirkomulagið á keppninni, það er að fara strax í 16-liða útsláttarkeppni og síðan aftur í útsláttarkeppni í 8-liða úrslitum. Ég held að það geti hentað liðinu betur vegna ástandsins. Það er kannski betra að gíra sig upp í bikarleiki, það dugar ekkert jafntefli og menn verða „peppa sig upp“ til þess að vinna. Ég er að minnsta kosti sáttari við þetta fyrirkomulag en millriðlana. Þeir voru okkur ekki alltaf hagstæðir,“ segir Einar Guðlaugsson, grjótharður stuðningsmaður íslenska landsliðsins í handknattleik.