Sagan er ekki beinlínis með íslenska landsliðinu þegar kemur að því að fara yfir úrslit leikja landsliðsins gegn Rússum og forverum þeirra, Sovétmönnum, á heimsmeistaramóti í handknattleik karla. Sovétmenn og síðar Rússar hafa haft betur í öllum átta viðureignunum.
Sú fyrsta var á HM í Frakklandi árið 1970. Þá mættust Íslendingar og Sovétmenn í París 4. mars. Sovétmenn unnu, 19:15. Jón Hjaltalín Magnússon var markahæstur í íslenska liðinu með fjögur mörk.
Sovétmenn náðu sér ekki á strik á þessu móti og höfnuðu í 9. sæti en Ísland varð í 11. sæti. Vladimir Maximov, síðasti landsliðsþjálfari Sovétmanna og fyrsti landsliðsþjálfari Rússa, á árunum upp úr 1990, var markahæsti leikmaður HM 1970 með 31 mark.
Aftur unnu Sovétmenn Íslendinga á HM 1978 í Danmörku, 22:18, og endurtóku leikinn á HM 1990, 27:19. Þremur árum síðar, á HM í Svíþjóð, unnu Rússar með sömu markatölu og Sovétmenn á HM 1990, 27:19. Rússar urðu heimsmeistarar á HM í Svíþjóð 1993.
Hrikalegt tap á heimavelli
Stærsta tap Íslendinga fyrir Rússum var á HM á Íslandi 1995, 25:12, í leik þar sem rússneski björninn lék sér að íslenska landsliðinu eins og köttur að mús fyrir framan fimm þúsund áhorfendur í Laugardalshöll.Íslendingar sluppu með þriggja marka tap, 30:27, úr viðureign sinni við Rússa á HM 2003. Aron Kristjánsson, núverandi landsliðsþjálfari, skoraði tvö af mörkum Íslands í þeim leik.
Tap í Túnis og Þýskalandi
Á HM í Túnis 2005 fögnuðu Rússar sjö marka sigri, 29:22, og sendu þar með íslenska liðið út úr keppninni.Síðast þegar þjóðirnar leiddu saman hesta sína á heimsmeistarmóti unnu Rússar með þriggja marka mun, 28:25, í Hamborg 1. febrúar 2007.
Sé rýnt nánar í viðureignir Íslendinga og Rússa á stórmótum hefur Ísland aðeins getað fagnað sigri í þrígang; tvisvar á EM og einu sinni á Ólympíuleikum. 34:32 á EM í Sviss 2006, 38:30 á EM í Austurríki 2010 og 33:31 á ÓL í Peking í ágúst 2008.
iben@mbl.is