Nýbökuð og volg sneið af brúnku (brownie) er alltaf jafn góð og rennur ljúflega niður með mjólkurglasi. Brúnku-bitarnir mega ekki vera of mikið bakaðir og þurfa að fara vel undir tönn. Dálítið eins og tyggjó. Það er um að gera að prófa sig áfram við baksturinn og finna þá áferð sem manni finnst best. Margir eiga sína leyniuppskrift og sumum finnst gott að setja hnetur út í deigið.
Kosturinn við svona bakstur er líka að bitana má skera ýmist meðalstóra eða bara litla sem eftirrétt eins og konfekt. Ef þig langar að skreyta brúnkusneið fallega á rómantískan hátt handa einhverjum sérstökum eða sérstakri í þínu lífi er til einföld leið til þess. Klipptu út pappírshjarta í þeirri stærð sem þú kýst og settu á miðja sneiðina. Dustaðu síðan flórsykri yfir og fjarlægðu hjartað að því loknu. Þannig má búa til einfalda skreytingu. Svo má líka klippa ýmislegt annað út en hjarta eða skreyta sneiðina með ávöxtum.