Félagar Sakine Cansiz og Abdullah Öcalan, leiðtogi PKK, árið 1995.
Félagar Sakine Cansiz og Abdullah Öcalan, leiðtogi PKK, árið 1995. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Þegar hafa komið fram nokkrar kenningar um hverjir myrtu þrjár konur úr röðum frammámanna í Verkamannaflokki Kúrdistans (PKK) eftir að þær voru skotnar til bana í Menningarmiðstöð Kúrda í París í gær.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Þegar hafa komið fram nokkrar kenningar um hverjir myrtu þrjár konur úr röðum frammámanna í Verkamannaflokki Kúrdistans (PKK) eftir að þær voru skotnar til bana í Menningarmiðstöð Kúrda í París í gær. Daginn áður var skýrt frá því að tyrkneska ríkisstjórnin hefði hafið friðarviðræður við leiðtoga PKK, Abdullah Öcalan, sem hefur verið í fangelsi í Tyrklandi frá árinu 1999.

Verkamannaflokkur Kúrdistans var stofnaður seint á áttunda áratug aldarinnar sem leið og hóf vopnaða baráttu sína árið 1984. Hún hefur kostað um 45.000 manns lífið. Leiðtogar flokksins féllu frá kröfu sinni um sjálfstæði Kúrda-héraðanna í Tyrklandi og vilja nú að héruðin fái aukin sjálfstjórnarréttindi.

Hermt er að í viðræðunum við fulltrúa tyrknesku stjórnarinnar hafi Öcalan fallist á vopnahlé gegn því að réttindi Kúrda yrðu aukin í Tyrklandi, auk þess sem hann og fleiri leiðtogar PKK í tyrkneskum fangelsum yrðu látnir lausir.

Manuel Valls, innanríkisráðherra Tyrklands, skoðaði lík kvennanna þriggja, og sagði að enginn vafi léki á því að þær hefðu verið teknar af lífi með byssum. Þær voru allar með skotsár á höfði.

Deilt um friðarviðræðurnar

Ein kvennanna, Sakine Cansiz, var á meðal stofnenda PKK. Sérfræðingar í málefnum Kúrda segja að hún hafi verið í nánum tengslum við Öcalan og á meðal talsmanna hans. Þeir telja því líklegt að konurnar hafi verið myrtar vegna friðarviðræðna Öcalans við tyrknesku stjórnina.

Vitað er að í PKK er róttæk fylking sem er andvíg friðarviðræðum við tyrknesk stjórnvöld og hugsanlegt er að hún standi á bak við morðin.

Mikil andstaða er einnig sögð vera meðal Tyrkja við friðarviðræður við PKK og hugsanlegt er að tyrkneskir þjóðernissinnar, leyniþjónustumenn, morðingjar glæpasamtaka eða útsendarar hersins hafi verið að verki.

Ennfremur hefur komið fram sú tilgáta að morðin megi rekja til deilna um peninga í tengslum við fíkniefnasmygl eða fjárkúganir sem liðsmenn PKK hafa verið sakaðir um að stunda. PKK hefur aflað fjár með því að leggja „byltingarskatta“ á Kúrda, sem hafa flúið frá Tyrklandi, og bandarísk yfirvöld hafa sakað nokkra af forystumönnum PKK um fíkniefnasmygl.