Bjarki Þór Grönfeldt er í hópi útskriftarnema frá Menntaskóla Borgarfjarðar sem útskrifast í dag. Bjarki Þór lýkur náminu á aðeins tveimur og hálfu ári og hefur einnig verið ötull í félagsstörfum á þeim tíma. Hann hefur nám í sálfræði við Háskólann í Reykjavík eftir helgina og hefur hlotið nýnemastyrk til námsins.
María Ólafsdóttir
maria@mbl.is
Bjarki Þór Grönfeldt útskrifast í dag með stúdentspróf frá Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi eftir aðeins tveggja og hálfs árs nám. Bjarki Þór hefur hlotið svokallaðan nýnemastyrk við Háskólann í Reykjavík sem veittur er afburðanemendum á fyrstu önn þeirra og hefur sálfræðinám við skólann á mánudaginn.
Stúdent í ensku í 10. bekk
„Ég tek bara helgarfrí á milli menntaskóla og háskóla,“ segir Bjarki Þór í léttum dúr, en hann ætlar að fagna áfanganum á morgun með veislu fyrir nánustu ættingja.Bjarki Þór er fæddur árið 1994 og býr á Brekku í Norðurárdal sem er rétt norðan við háskólaþorpið á Bifröst. Hann hefur ferðast daglega í skólann um 33 km síðastliðin ár ásamt Dagbjörtu skólasystur sinni og nágranna í Tröð, en foreldrar og aðrir hjálpuðust að við aksturinn þar til þau fengu bílpróf.
Bjarki Þór útskrifast af félagsfræðibraut en hann tók ensku í fjarnámi við skólann í 9. og 10. bekk sem gerði honum kleift að verða stúdent í ensku í 10. bekk og útskrifast fyrr. „Það má segja að ég hafi alltaf verið mikill námsmaður og ég hef haft nóg að gera enda bætt félagsstörfum við líka,“ segir Bjarki Þór. Við skólann í heild stunda 170 manns nám en í útskriftarhópnum eru um 30 nemendur. Áfangakerfi er í skólanum en Bjarki Þór segir þó mikla bekkjarheild geta skapast þar sem skólinn sé lítill og skólastarfið gott.
„Margir tala um að stofnun menntaskóla hér í Borgarnesi sé það besta sem hafi komið fyrir bæinn síðan Borgarfjarðarbrúin kom,“ segir Bjarki Þór.
Viðurkenning að hljóta styrk
Það leggst vel í Bjarka Þór að flytja til Reykjavíkur en þar á hann frænku sem hann fær að búa hjá og þarf því ekki að hafa áhyggjur af húsnæðismálum. Félagi Bjarka Þórs hlaut sams konar styrk síðastliðið haust og í framhaldi af því ákvað hann að sækja um líka.„Ég ákvað að prófa að sækja um og það er ekki hægt að segja annað en að það hafi komið mér skemmtilega á óvart að fá styrkinn. Það eru ekki bara peningarnir sem skipta máli heldur viðurkenningin sem í því felst að hljóta styrkinn. Ég hef ætlað mér lengi að fara í sálfræði en við hana heilla mig helst þessi mannlegu tengsl. Af hverju fólk er eins og það er og hvernig það verður öðruvísi. Eins að velta fyrir sér hvað gangi í erfðir og hvað mótist af umhverfinu. Þetta er líka orðið svo vítt fræðasvið og hefur færst frá því að sálfræðingur fái fólk til sín á bekk. Nú er þetta jafnvel farið að tengjast viðskipta- og stjórnmálafræði og fleiri fögum. Ég sé fyrir mér framhaldsnám í einhverju slíku,“ segir Bjarki Þór.
Gróska í félagslífinu
Fyrir utan námið hefur Bjarki Þór einnig verið öflugur í félagslífinu. Hann hefur keppt í Gettu betur undanfarin tvö ár og er nú nýju liði skólans innan handar.„Það er gífurlega skemmtilegt að taka þátt í Gettu betur. Þegar ég var í liðinu hittumst við gjarnan á kvöldin og fórum yfir heimsmálin, gömul og ný, lærðum Gettu betur-spilið utan að og horfðum saman á spurningaþætti í sjónvarpinu. Það er alveg yndislegt,“ segir Bjarki Þór sem einnig var í hópi nemenda sem komu á fót skólablaði við skólann.
Hópurinn kom fyrst saman haustið 2011 og var fyrsta tölublaðið af Eglu gefið út í apríl 2012 en hið seinna í desember síðastliðnum. Bjarki Þór var í fyrstu auglýsingastjóri blaðsins en tók síðan við sem ritstjóri.
„Ég tók m.a. viðtal við frú Vigdísi Finnbogadóttur ásamt félaga mínum fyrir blaðið sem var mjög mikill heiður,“ segir Bjarki Þór. Allir nemendur MB fengu eintak af Eglu, sem var einnig dreift í kynningarskyni í alla grunnskóla í héraðinu og víðar en stefnt er að útgáfu einu sinni á ári. Einnig hefur Bjarki Þór unnið með leikfélagi skólans og fór með eitt af aðalhlutverkunum í Stútungasögu sem sett var upp síðastliðið vor. Í haust var hann síðan sýningarstjóri Litlu hryllingsbúðarinnar sem sýnd var í tæpan mánuð fyrir fullu húsi.
„Ég hef alltaf reynt að vinna með skólanum, eins og margir gera. Það er mikilvægur liður í því að ná að skipuleggja sig og láta öll tannhjólin ganga. Þegar fullt nám, félagsstörf og vinna skarast er mikilvægt að halda rétt á spöðunum. Ef það gengur vel verður það að góðu farteski út í lífið,“ segir nýstúdentinn Bjarki Þór að lokum.