Stjórnarformaður Google, Eric Schmidt, segist hafa hvatt stjórnvöld í Norður-Kóreu til að binda enda á einangrun landsins og leyfa íbúunum að nota netið.

Stjórnarformaður Google, Eric Schmidt, segist hafa hvatt stjórnvöld í Norður-Kóreu til að binda enda á einangrun landsins og leyfa íbúunum að nota netið. Schmidt sagði eftir ferð bandarískrar sendinefndar til Pjongjang, höfuðborgar Norður-Kóreu, að landið myndi ekki rétta úr kútnum efnahagslega nema netfrelsi yrði komið á þar.

Bill Richardson, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, fór fyrir sendinefndinni. Hann segir að nefndin hafi hvatt N-Kóreumenn til að hætta að þróa kjarnavopn og langdrægar eldflaugar. Þeir voru einnig hvattir til að leysa bandarískan fanga úr haldi.