Andri Karl
andri@mbl.is
Bakkavararbræður, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, hafa stefnt Inga Frey Vilhjálmssyni, fréttastjóra á DV, vegna leiðaraskrifa hans um þá. Telja þeir að skrifin séu ærumeiðandi og krefjast þess að fern tiltekin ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. janúar næstkomandi.
Bræðurnir krefjast þess ekki að Ingi Freyr verði dæmdur til að greiða þeim miskabætur heldur „aðeins“ 800 þúsund krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í tveimur dagblöðum og að DV verði gert að birta forsendur og dómsorð í málinu í blaðinu og á vefmiðlinum dv.is strax að dómi gengnum.
Meðal annars er vísað í umfjöllun Inga Freys í helgarblaði DV um nokkur af þeim hlutafélögum þar sem Ágúst og Lýður komu að rekstri fyrir hrunið haustið 2008. Blaðið kom út 19.-21. október 2012. Þeir gera ekki sérstakar athugasemdir við umfjöllunina en vekja athygli á því í stefnu, að fréttinni hafi verið sá tilgangur að kynda undir andúð í garð þeirra vegna þátttöku í atvinnurekstri og atvinnuuppbyggingu. „Skrif þessi fela almennt ekki í sér málefnalega eða upplýsandi umfjöllun, heldur bera þau ríkan keim af hatursáróðri í garð tiltekinna einstaklinga. Hatursáróður í fjölmiðlum er bannaður sbr. 27. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 og refsiverður sbr. 56. gr. sömu laga.“
Fela í sér grófa aðdróttun
Ummælin sem krafist er að dæmd verði dauð og ómerk birtust hins vegar í leiðara sem kom út 24. október undir fyrirsögninni „Ættu Bakkabræður að eiga níu milljarða“.Í stefnu segir að Ingi hafi haldið uppteknum hætti og dregið upp sem dekksta mynd af bræðrunum. „[Skrif Inga] eru ósönn og fela í sér grófa aðdróttun, sem borin var út opinberlega og gegn betri vitund. Ummælin eru til þess fallin að vera virðingu stefnenda til hnekkis, móðgandi og fela í sér aðdróttun í garð stefnenda og fara því í bága við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Þá segir að það skerði ekki tjáningarfrelsi Inga að dæma ummælin dauð og ómerk, enda sé honum frjálst að fjalla um bræðurna sé það gert í samræmi við siðareglur sem blaðamenn hafi sett sér og reynt sé að tryggja upplýsta og vitræna umræðu.
Ummælin
» Þetta voru peningar sem þeir höfðu tekið í arð út úr íslenskum hlutafélögum sínum á árunum fyrir hrunið.
» Bakkabræður halda hins vegar arðgreiðslum upp á milljarða sem þeir tóku út úr eignarhaldsfélaginu sem þarf að afskrifa 22 milljarða hjá.
» Arðgreiðslurnar byggðu því á blekkingum.
» Þau uppkaup kunna að vera fjármögnuð með arðgreiðslunum sem þeir tóku út úr íslenska hagkerfinu á árunum fyrir hrunið.