Kristjana Elísabet Kristjánsdóttir fæddist hinn 28. júlí 1926 á Saurum í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Hún lést hinn 1. janúar 2013 á hjúkrunardeild H-1, Hrafnistu í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Hjörleifsdóttir húsmóðir frá Hofstöðum í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, f. 20. júní 1904, d. 12. október 1991, og Kristján Erlendsson bóndi frá Hjarðarfelli í sömu sveit, f. 28. apríl 1896, d. 23. ágúst 1973. Þau bjuggu á bænum Mel í Staðarsveit allan sinn búskap eða frá 1926 til 1968. Systkini Kristjönu Elísabetar eru: Elín, f. 1927, Magðalena Margrét, f. 1928, Theódór Þorkell, f. 1930, dáinn, Aðalheiður, f. 1931, dáin, Gunnar, f. 1933, dáinn, Matthildur, f. 1936, dáin, Hjörleifur, f. 1937, Erlendur, f. 1939, Stefán, f. 1942, Sigurður Jóhann, f. 1944, og Sólveig Guðrún, f. 1947. Auk systkinanna ólst Guðrún Helga Steingrímsdóttir, f. 1949, dóttir Elínar, upp hjá afa sínum og ömmu frá barnsaldri.

Kristjana Elísabet giftist 31. des. 1968 Guðlaugi Gíslasyni stýrimanni, f. 22. maí 1929, frá Steinstúni í Árneshreppi. Þau höfðu áður búið saman um nokkurn tíma. Synir þeirra eru Guðmundur, stýrimaður, f. 3. mars 1961, og Gísli Steinn, öryrki, f. 2. júlí 1967. Þau bjuggu lengst af á Háaleitisbraut 40, eða í þrjátíu og eitt ár. Síðustu tvö árin dvaldi Kristjana á hjúkrunardeild Hrafnistu í Reykjavík.

Kristjana ólst upp hjá foreldrum sýnum á Mel í Staðarsveit og var í barnaskóla sveitarinnar á Ölkeldu og fermdist í kirkjunni á Staðastað, en þar var faðir hennar organisti í fjörutíu ár. Hún fór ung að heiman til Reykjavíkur og bjó þar síðan alla sína tíð. Í upphafi var hún í vist, sem kallað var, og síðar starfaði hún á veitingastöðum borgarinnar við þjónustustörf. Hún var lengi aðstoðarþjónn í Súlnasal Hótels Sögu og á tímabili var hún þjónn á strandferðaskipinu Heklu og nokkrar ferðir fór hún á farþegaskipinu Gullfossi. Síðari hluta starfsævinnar vann hún mest á saumastofum auk þess að annast um heimili sitt.

Útför Kristjönu verður gerð frá Áskirkju í dag, 11. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Hún Kristjana mágkona mín er fallin frá. Við þessi tímamót langar mig að senda nokkur kveðjuorð. Guðlaugur bróðir minn og Kristjana hófu búskap í Barmahlíð í Reykjavík, eiga nú heima í Brúnavegi 9. Á þeim árum, í byrjun síðasta sjöunda áratugarins, kynntist ég henni fyrst og nýstofnuðu heimili þeirra. Kristjana var glaðleg og ræðin kona. Allt heimilishald þeirra bar vott um mikla smekkvísi og snyrtimennsku.

Svo hagaði til, að vegna vinnu minnar norður á Ströndum átti ég nokkuð oft erindi til Reykjavíkur. Leitaði ég og kona mín oft eftir því að fá gistingu hjá þeim, sem ávallt var tekið sem sjálfsögðum hlut. Annar af tveimur sonum þeirra er fatlaður og þurfti mikla umönnun, og var svo meðan hann var í foreldrahúsum, var öllu sem í þeirra valdi stóð kostað til.

Faðir okkar bræðra, Gísli Guðlaugsson, var fæddur og uppalinn á Steinstúni og ól þar allan sinn aldur. Þegar honum fannst Elli kerling vera farin að herða á sér tökin, brá hann á það ráð að kveðja heimahagana og fara til dvalar á Hrafnistu í Reykjavík. Þetta var honum stór ákvörðun, en léttbærari fyrir það, að hann vissi að Kristjana og Guðlaugur tækju á móti sér og greiddu götu sína. Honum brást það ekki. Astoð þeirra var hans haldreipi. Dvaldi hann jafnan hjá þeim um hátíðar og helgar eftir því sem til féll. Þetta var honum mikill styrkur í þeirri útlegð sem honum fannst hann kominn í.

Ég veit ég tala fyrir hönd okkar allra bræðranna, þegar ég við þessi tímamót ber fram þakkir til þeirra hjónanna fyrir árin sem hann dvaldi á Hrafnistu. Öll þeirra búskaparár hef ég verið tíður gestur á heimili þeirra. Það var notalegt að setjast við kaffiborðið hjá henni Kristjönu, ævinlega dúkað borð og því fylgdi sú alúð sem bjó í fari hennar. Undanfarin ár átti hún við veikindi að stríða sem leiddu til þeirra umskipta sem nú eru orðin.

Endasleppt er ekkert hér.

Alvalds rekjum sporið.

Morgunn ei af aftni ber

og ei af hausti vorið

(Steingrímur Thorsteinsson.)

Ég lýk þessum fátæklegu kveðjuorðum mínum.

Við hjónin og fjölskyldur okkar sendum þér, kæri bróðir, og sonum þínum innilegar samúðarkveðjur.

Gunnsteinn Gíslason

frá Steinstúni.