Ísland hefur hvorki mætt Síle né Makedóníu á heimsmeistaramóti í handknattleik. Fyrstu viðureignirnar við þjóðirnar fara fram í Sevilla 13. og 15. þessa mánaðar.
Landslið Makedóníu komst á HM 2009 á kostnað íslenska landsliðsins en þjóðirnar mættust í tveimur umspilsleikjum um keppnisréttinn vorið 2008.
Aðeins viku eftir að íslenska landsliðið tryggði sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum sumarið 2008 hélt það til Makedóníu í byrjun júní og tapaði óvænt með átta marka mun, 34:26. Þann mun tókst aldrei að fullu að vinna upp í síðari leiknum í Laugardalshöll nokkrum dögum síðar sem íslenska landsliðið vann, 30:24. Hermt er að í vonbrigðum yfir að hafa fallið úr keppni hafi íslensku leikmennirnir stigið á stokk og strengt þess heit á gólfi Laugardalshallar í leikslok að þeir skyldu vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum í Peking rúmum tveimur mánuðum síðar.
Hvort sem sagan er sönn eða ekki þá vann íslenska landsliðið silfurverðlaun á ÓL í Peking í ágúst.
Íslendingar og Sílebúar hafa aðeins einu sinni mæst á handknattleiksvellinum. Það var í Varazdin í Króatíu í forkeppni Ólympíuleikanna 6. apríl í vor. Ísland vann auðveldan sigur, 25:17. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með 10 mörk í fremur auðveldum íslenskum sigri. iben@mbl.is