Íslandsmót barna í skák fer fram í Rimaskóla laugardaginn 12. janúar og hefst klukkan 12. Þátttökurétt hafa börn í 1. til 5. bekk (fædd 2002 og síðar) og sigurvegarinn fær sæmdarheitið Íslandsmeistari barna 2013 og keppnisrétt á Norðurlandamótinu í skólaskák sem haldið er á Bifröst í febrúar 2013.
Þetta er í 20. sinn sem keppt er um Íslandsmeistaratitil barna. Sigurður Páll Steindórsson sigraði á fyrsta mótinu árið 1994, en meðal annarra meistara má nefna titilhafana Dag Arngrímsson, Guðmund Kjartansson og Hjörvar Stein Grétarsson. Núverandi Íslandsmeistari barna er Nansý Davíðsdóttir. Hún er eina stúlkan sem hefur hampað titlinum.