Troðsla Michael Craion treður boltanum í körfu Grindvíkinga í gærkvöldi.
Troðsla Michael Craion treður boltanum í körfu Grindvíkinga í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Skúli Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Grindavík Skúli B. Sigurðsson sport@mbl.is Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og komu, sáu og unnu gríðarlega mikilvægan sigur þegar þeir heimsóttu granna sína í Grindavík í Röstina í gærkvöldi.

Í Grindavík

Skúli B. Sigurðsson

sport@mbl.is

Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og komu, sáu og unnu gríðarlega mikilvægan sigur þegar þeir heimsóttu granna sína í Grindavík í Röstina í gærkvöldi. 98:106 var lokastaða leiksins og á tölunum að sjá var ekki mikið um varnartilþrif þetta kvöldið, hjá hvorugu liðinu. Með sigrinum færast Keflvíkingar að hlið KR í 5. sæti deildarinnar en Grindvíkingar eru enn á toppnum þrátt fyrir tapið.

Röstin, heimavöllur Grindvíkinga, hefur verið þeirra Selvogsbanki þetta árið. Gjöful mið þar sem þeir höfðu fram að kvöldinu í gær ætíð fiskað vel og komið í land með 2 stig. En þetta kvöldið var þungt í sjóinn og róðurinn gekk ekki líkt og kallinn í brúnni hafði farið yfir með áhöfninni áður en lagt var í leikinn. „Við viljum halda þeim fyrir framan okkur og stíga vel út. Svo náttúrulega bara halda okkar striki og spila okkar leik,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindvíkinga fyrir leik og voru þetta skilaboðin sem hans menn fengu fyrir leik.

„Við tökum það sem við gerðum vel í síðasta leik og nýtum það hér í kvöld. Við erum að fínisera okkar leik hægt og bítandi,“ sagði hinsvegar Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, fyrir leikinn þetta kvöldið.

Ótrúlegt að enginn fauk út af

En kvöldið einkenndist af mikilli baráttu beggja liða og að því sögðu er nánast ótrúlegt að enginn leikmanna beggja liða hafi fokið út af með þann fimm villu kvóta sem úthlutað er. En leikurinn var einnig hraður og mikið var skorað. Strax í fyrri hálfleik höfðu Grindvíkingar skorað 62 stig gegn 53 frá gestunum.

Framan af leik virtust Grindvíkingar vera komnir í bílstjórasætið í leiknum. Sammy Zeglinski, leikstjórnandi þeirra, stýrði liðinu af festu og margar hverjar gullfallegar stoðsendingar rötuðu á samherja í galopnu sniðskoti. Virkilega öflugur bakvörður sem augljóslega nýtur sín vel í Grindavíkinni.

En í seinni hálfleik fór Keflvíkingurinn Magnús Þór Gunnarsson í gang líkt og hraðsuðuketill. Hann gaf þyngdaraflinu langt nef með sumum skotum sínum og stúlkurnar á jafnvægisslánni hjá Gerplu hefðu roðnað við suma tilburði stráksa í skotum hans. Magnús endaði kvöldið með 27 stig fyrir þá Keflvíkinga.

Að lokum er óhætt að segja að það hafi verið barátta Keflvíkinga sem skilaði þessum sigri fyrir þá. Allir leikmenn köstuðu sér í gólfið á eftir lausum boltum og þessi barátta smitaði út frá sér og gaf þeim byr í seglin. Darrell Lewis sem hóf sinn feril á Íslandi einmitt í Grindavík var sáttur með kvöldið

Sætur sigur fyrir Lewis

„Þeir hafa tekið okkur nokkrum sinnum nú þegar í ár þannig að þetta var sætur sigur hjá okkur. Við sýndum þrek og börðust vel í leiknum. Þrátt fyrir að vera undir í fyrri hálfleik þá gáfumst við ekki upp. Við héldum áfram allan tímann og það skilaði sigri fyrir okkur,“ sagði Darrel Lewis að leik loknum. „Þetta var virkilega slæmt tap hjá okkur og við vorum skelfilega lélegir. Við spilum ekki vörn í kvöld og það var aðalmálið hjá okkur. Við skorum nóg hér í kvöld til að vinna en það dugar skammt þegar andstæðingurinn skorar meira. Sverrir var hissa á okkur eftir leik að hafa mætt svona kærulausir til að spila svona skemmtilegan leik,“ sagði Þorleifur Ólafsson, bakvörður Grindvíkinga.