Fréttaskýring
Þórunn Kristjánsdóttir
thorunn@mbl.is
Sjálfstraust og líkamsímynd segja fyrir um þunglyndi ungmenna. Þetta sýnir meðal annars niðurstaða rannsóknar Silju Rutar Jónsdóttur, Jakobs Smára og Eiríks Arnar Arnarsonar á líkamsímynd, sjálfstrausti og þunglyndi ungmenna, sem kynnt var á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands í upphafi árs.
Rannsóknin náði til 316 nemenda 6.-8. bekkjar í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Stúlkur eru uppteknari af líkamsímynd sinni en drengir, að auki er þunglyndi algengara meðal stúlkna en drengja. Þá er líkamsímynd lakari meðal stúlkna en drengja og meðal eldri barna en yngri. Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir, erlendar sem innlendar.
Ályktunin sem dregin var af rannsókninni er sú að við forvörn þunglyndis ungmenna þurfi að beina athygli betur að líkamsímynd en áður hefur verið gert.
Ekki hefur verið lögð áhersla á að styrkja líkamsímynd ungmenna með markvissum hætti í forvarnarstarfi gegn þunglyndi segir Eiríkur Örn Arnarson, prófessor í sálfræði við læknadeild við Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði á Landspítala. Hann vinnur að forvörnum þunglyndis og vonast til að unnt verði í framtíðinni að draga úr algengi þunglyndis hjá ungmennum.
Þunglyndi að aukast
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir því að þunglyndi verði mest áberandi sjúkdómur heimsins árið 2020.„Þunglyndi er almennt að aukast í heiminum og er yngsta kynslóðin ekki undanskilin. Ekki er hægt að rekja aukninguna til þess að skilmerki fyrir greiningu þunglyndis hafi breyst heldur er um raunverulega aukningu að ræða,“ segir Eiríkur.
Gerður er greinarmunur á einkennum þunglyndis annars vegar og þunglyndi hins vegar, segir Eiríkur og bendir á að gjarnan sé talað frjálslega um þunglyndi meðal fólks. Margir eru með einkenni þunglyndis þótt þeir séu ekki þunglyndir.
Þótt þunglyndi aukist meðal yngstu kynslóðarinnar hefur ekki verið sýnt fram á slíkt hér á landi með óyggjandi hætti, segir Eiríkur og vísar til gagna sem safnað hefur verið frá því fyrir árið 2000.
Þunglyndi á unglingsárum hefur meiri áhrif á einstaklinginn en ef hann greinist á fullorðinsaldri. Rannsóknir benda til þess að líklega megi rekja ástæðuna til þess að sjálfsmynd einstaklingsins er enn að mótast á þessum árum. Sjálfsmynd og sjálfstraust er ekki einsleitt fyrirbæri.
Árangursríkar forvarnir
„Áhugi fólks á líkamsímynd er að aukast. Það eru ekki til margar rannsóknir á tengsl líkamsímyndar og sálfræðilegra þátta. Ég myndi segja að skortur væri á slíkum rannsóknum,“ segir Eiríkur. Hann bendir á að stöðug skilaboð samfélagsins, eins og auglýsingar um hvernig fólk skuli líta út, hafi oft neikvæð áhrif á líkamsímynd.Svarið gegn þunglyndi ungmenna liggur í forvörnum. Rannsóknir Eiríks hafa sýnt fram á að forvarnir gegn þunglyndi bera raunverulegan árangur. Með því að vinna með einstaklingum í áhættuhópi með að greinast með þunglyndi má sporna við neikvæðri þróun.
MIKILVÆGI FORVARNA
Fylgifiskar þunglyndis
„Forvarnir gegn þunglyndis eru mikilvægar jafnt þjóðhagslega sem og fyrir einstaklinginn; fjölskyldur og atvinnurekendur. Ef hægt væri að byrgja brunninn með því að koma í veg fyrir að unglingar og ungmenni þróuðu með sér þunglyndi hefði það líka áhrif á önnur vandamál. Fylgifiskar þunglyndis eru ótalmargir, m.a. áfengis- og vímuefnaneysla, brottfall úr skóla og að einstaklingar eiga almennt erfiðara uppdráttar í lífinu.Ef þunglyndisferlið hefst snemma á lífsleiðinni og einstaklingur greinist með alvarlegt þunglyndi eru miklar líkur á að það endurtaki sig síðar, segir Eiríkur.