Tveir leikmenn íslenska landsliðsins sem taka þátt í heimsmeistaramótinu á Spáni náðu að leika HM-leiki með Aroni Kristjánssyni landsliðsþjálfara áður en hann varð að leggja keppnisskóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla í hné fyrir átta árum.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, lék með Aroni á HM 2001 í Frakklandi og aftur tveimur árum síðar þegar mótið var haldið í Portúgal.
Hinn núverandi leikmaður íslenska landsliðsins sem lék HM-leik með Aroni er Snorri Steinn Guðjónsson. Snorri Steinn tók þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti í Frakklandi fyrir 10 árum og kom við sögu í einum leik, tapleik gegn Rússum, 30:27. Aron lék þann leik og hina átta leiki íslenska landsliðsins á mótinu og skoraði tvö mörk. Aron var leikstjórnandi eins og Snorri Steinn.
Ólafur Stefánsson, sem um tíma var inni í hugmyndum Arons landsliðsþjálfara fyrir HM á Spáni, var samherji Aron á HM 2001 og 2003. Aðrir samherjar Arons á HM 2001 og 2003 hafa fyrir nokkuð löngu hætt að leika með íslenska landsliðinu. iben@mbl.is