Björn Kolbeinsson fæddist í Lúxemborg 25. júlí 1977. Hann lést af slysförum á Þingvöllum þann 28. desember 2012.
Foreldrar hans eru Kolbeinn Sigurðsson, f. 11.8. 1943, og Jónína Jófríður Gunnarsdóttir, f. 13.1. 1942, d. 10.2. 1987. Systkini hans eru: 1) Sigurður Kolbeinsson, f. 7.12. 1966. 2) Jóhannes Ingi Kolbeinsson, f. 24.9. 1969, maki Andrea Kristín Jónsdóttir, f. 7.7. 1966. Börn þeirra eru Jónína Jófríður Jóhannesdóttir, Högni Steinn Jóhannesson og Þurí Gunnarsdóttir. 3) Friðdóra Dís Kolbeinsdóttir, f. 28.2. 1982. Barn hennar Aðalheiður Ísmey Davíðsdóttir.
Seinni kona föður Björns er Aðalheiður Ingvadóttir, f. 28.4. 1947. Hennar börn eru: 1) Þórhildur Þórhallsdóttir, f. 18.9. 1968, maki Pétur Jónsson, f. 30.6. 1968. Börn þeirra Aþena Mjöll, og Þórhallur Dagur. 2) Elías Þórhallsson, f. 20.8. 1969, maki Berglind Inga Árnadóttir, f. 6.2. 1974. Barn þeirra Rökkvi Dan. Börn Elíasar með Kolbrúnu Haraldsdóttur eru Sigurður Heiðar og Hrafndís Katla. 3) Hrafnhildur Þórhallsdóttir, maki Guðjón Ingi Viðarsson, þau skildu. Barn þeirra er Kría Sól. Björn ólst upp í Lúxemborg til 15 ára aldurs. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi starfaði hann í nokkur ár við ýmsa banka í Lúxemborg, en hóf síðan nám við Háskólann í Reykjavík og lauk þaðan BA- og MA-prófum í lögfræði. Að loknu námi starfaði hann hjá einkaleyfastofu og einnig um tíma hjá Kortaþjónustunni þar til hann hóf störf hjá EFTA í Genf.
Útför Björns fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 11. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.
Þegar birta jólaljósanna er sem skærust berst okkur harmafregnin, allt tekur á sig breytta mynd, missir marks. Sársaukinn nístir að hjartarótum. Fátt getur orðið þungbærara en að setja á blað minningarorð um börnin sín.
Ég kom inn í líf hans Bjössa þegar hann var 12 ára er við pabbi hans hófum sambúð. Við vorum fljót að kynnast, hann var ljúfur og hlýr og við náðum fljótt vel saman sem ekki var sjálfgefið fyrir ungan dreng enn í sárum eftir móðurmissinn sem hafði markað djúp ör á sálina.
En að eðlisfari var hann glaðvær og vinsæll og áhugamálin margvísleg, vinahópurinn stór. Hann laðaði að sér fólk, hafði djúpa samkennd og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra. Námshæfileikar hans voru miklir, skilaði alltaf toppeinkunnum á öllum skólastigum og undruðumst við foreldrarnir oft hvar hann hefði skotið inn tíma fyrir lærdóm þar sem hann virtist alltaf hafa tíma fyrir áhugamálin og vinina. Var m.a. í nokkrum hljómsveitum og náði langt á því sviði og músíkin skipaði stóran sess í lífi hans.
Hann elskaði lífið og lifði hratt, var mikill sportáhugamaður, var flinkur skíðamaður og síðustu sumrin tók hann þátt í hestaferðum fjölskyldunnar, þar naut hann sín vel og var efnilegur reiðmaður. Vegna starfsins var hann búinn að ferðast um allan heim, þar sem annars staðar ávann hann sér traust og virðingu. Hann sagði okkur frá reynslu sinni á framandi slóðum, notaði alltaf tækifærið og kynnti sér sögu og menningu staðanna.
Fjölskyldan hér heima var honum kær, hann hafði einlægan áhuga á högum allra, spurði frétta af mannskapnum og sýndi börnunum í fjölskyldunni ótrúlega umhyggju enda elskuðu þau öll hann Bjössa. Sjálfur átti hann draum um að eignast fjölskyldu og mörg börn. Alltaf kom hann hlaðinn gjöfum hingað heim, allt valið af kostgæfni, t.d. eðalkonfekt og gæðaostar frá Sviss. Guatemala-kaffi færði hann mér úr síðustu vinnuferð sinni í S-Ameríku, okkur bar saman um að þarna værum við með heimsins besta kaffi.
Við eldhúsborðið, gjarnan yfir góðum kaffibolla, deildum við sameiginlegum áhugamálum, allt frá kaffitegundum og matargerð til andlegra málefna. Hann var ótrúlega þroskaður og fróður enda áhuginn fjölbreytilegur. Hann bar djúpa virðingu fyrir eldra fólki, ömmurnar hans voru honum einkar kærar og skipuðu háan sess í líf hans. Réttlætiskennd hans var rík og mannréttindi voru honum hugleikin, fordómalaus og kom jafnt fram við alla. Hjálpsemin var honum í blóð borin, ávallt til taks, í eldhúsinu sem annars staðar.
Ég mun sakna þín, elsku ljúflingurinn minn, megi englar himinsins umvefja þig ljósinu, vaka yfir þér og leiða á nýjum brautum. Björt minning þín mun lýsa okkur veginn áfram. Almættið gefi okkur öllum styrk.
Kom, huggari, mig hugga þú,
kom, hönd, og bind um sárin,
kom, dögg, og svala sálu nú,
kom, sól, og þerra tárin,
kom, hjartans heilsulind,
kom, heilög fyrirmynd,
kom, ljós, og lýstu mér,
kom, líf, er ævin þver,
kom, eilífð, bak við árin.
(Vald. Briem)
Hafðu þökk fyrir allt sem þú varst okkur.
Þín fósturmamma,
Aðalheiður.
Það er sjaldan sem maður er sleginn. Ég er til skiptis svekktur og reiður. Og svo gefst ég upp. Þetta er óskiljanlegt. Eins og þú veist, þá gefst ég aldrei upp, en nú veit ég ekki hvað.
Þetta átti ekki að fara svona – en þessu verður ekki breytt.
Elsku bróðir minn, þú hefur gefið mér svo ótrúlega margt. Ég hef svo oft verið stoltur af þér, því sem þú hefur verið að gera og fyrir hvað þú hefur staðið. Þú varst alltaf þú sjálfur, aldrei að þykjast vera einhver annar eða þóknast því sem öðrum fannst. Það er með miklum söknuði sem ég kveð þig, kæri bróðir.
Til að taka það saman í stuttu máli hver þú varst og fyrir hvað þú stóðst, þá varstu til að byrja með prakkari, ljúfur, óþekktarangi, góður strákur, unglingavillingur, hjartahlýr, pönkari, góðmenni, anarkisti, réttsýnn, uppátækjasamur og síðast en ekki síst rokkari. Árangur þinn í námi og starfi var engin tilviljun, því þú varst bráðgreindur, eldklár, útsjónarsamur og lausnamiðaður. Þessi samsetning leiddi þig til árangurs. Meðfram stundaðir þú áhugamálin af miklum eldmóði.
Ég myndi giska á að nú fari að verða partíhæft þarna hinumegin hjá þér. Haltu áfram að vera þú, hvar sem þú ert. Við munum sjá um málin hérna megin og svo verður ærleg veisla þegar við hittumst aftur.
Þú munt áfram vera fyrirmynd mín í svo mörgum málum og ég mun halda þínum hugsjónum á lofti.
Rokk on, bróðir.
Jóhannes Ingi Kolbeinsson.
Ég er gífurlega þakklát, elsku Bjössi minn, fyrir að hafa fengið að verða samferða þér í gegnum lífið og fyrir að eiga þig fyrir bróður. Þú hefur verið mér algjör stoð og stytta. Takk fyrir að passa alltaf svona vel upp á mig og fyrir að vera svona mikið yndi.
Ég er svo óendanlega þakklát fyrir vináttu okkar. Öll ferðalögin okkar, sem við skipulögðum sjálf í gegnum tíðina, eru afar dýrmæt í minningunni, hvort sem það voru ferðir um landið hér heima, skíðaferðir erlendis, tónleikar eða öll þessi margbreytilegu erindi sem við höfum átt víðsvegar um Evrópu. Ævintýrin sem við lentum í, sum alveg óstjórnlega fyndin og önnur sem voru meira bara fyndin eftir á. Eitt dæmi þegar pústið brotnaði undan bílnum og við neyddumst til að keyra bílinn þannig frá Danmörku til Lúx. því á sunnudegi voru öll verkstæði lokuð í Danmörku. Sú ferð hefði vanalega tekið um níu tíma í akstri en tók rúma 12 tíma því vegna hávaðamengunar af okkar völdum var bara hægt að fara mest upp í 80 km hraða, jei. Og það á hraðbraut í Þýskalandi þar sem enginn keyrir undir 100 km, það var ekkert horft á okkur, nei nei. Tónlistin í botni til að gera lætin aðeins bærilegri. Mikið var ljúft að koma svo loks heim til Junglinster og skella sér í sólbað með fuglasöng.
Ég er mjög þakklát fyrir að hafa náð að heimsækja þig í Sviss. Þú lagðir þig alltaf svo mikið fram og það er ekkert lítið sem hefur þú verið stórtækur fyrir litlu systur. Ég varð alveg undrandi þegar ég var hjá þér í Genf fyrir ári og þú varst búinn að panta útsýnisflug í þyrlu fyrir litlu systur í þrítugsafmælisgjöf. En sökum óveðurs varð flugmaðurinn að hætta við. Þú varst með dvöl okkar mæðgna alveg skipulagða og fórst með okkur í nærliggjandi bæi við Genfarvatnið að skoða kastala og á jólamarkað þar sem við drukkum Glühwein. Æðislegt var að fara upp í Alpana í panorama-lest. Það var ævintýri, fyrst var það sporvagn frá heimilinu, svo lest, labb, aftur lest, loks panorama-lestin, svo rúta og aftur lest og loks stigið út í Gstaad þar sem við fórum á veitingastað að slaka aðeins á áður en við skoðuðum bæinn. Ferðalagið varð aðeins lengra á leiðinni til baka, þegar við hlupum upp í einhverja lest sem við héldum að við værum að missa af, en það var einfaldlega vitlaus lest sem fór með okkur í þveröfuga átt. Við hlógum að þessu rugli í okkur og rifjuðust upp í kjölfarið ýmis fyndin brot úr ferðalögum okkar í gegnum tíðina. Nú langar mig að fá kisa til mín, sem er bara í pössun, eigandalaus í Sviss.
Elsku bróðurhjarta, mér þykir óendanlega vænt um þig og hlakka til að hitta þig aftur seinna. Sakna þín þangað til.
Friðdóra Dís Kolbeinsdóttir.
Við vorum ungir þegar við hittumst fyrst, mamma mín og pabbi hans höfðu tekið saman eftir að hafa bæði misst maka sína og við Bjössi því orðnir einskonar bræður og ekki hefði maður getað hugsað sér betri bróður. Það er ekki auðvelt að sameina svona tvær fjölskyldur og ekki sjálfgefið að ungur drengur sem nýlega hafði misst móður sína tæki því vel en það lýsir Bjössa kannski best hvernig hann tók okkur. Við urðum strax góðir vinir og styrktust þau vinabönd mikið er árin liðu. Það eru forréttindi að fá að kalla þig vin og bróður.
Þú varst mikið náttúrubarn og dýravinur, þrátt fyrir að þú hefðir ekki stundað hestamennsku fyrr en seinni árin varst þú fljótur að ná tökum á henni og voru hestaferðirnar sem þú komst með okkur í ógleymanlegar.
Þrátt fyrir að ég geti ekki boðið þér í reiðtúr hérna megin þá veit ég að pabbi mun glaður þeysa með þér um grundu Paradísar enda ætti sá gamli að vera nokkuð vel hestaður ef ég þekki hann rétt.
Þrátt fyrir að við öll sem eftir sitjum séum buguð af sorg og skiljum ekki þetta óréttlæti að taka þig frá okkur þá er ég samt svo óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Þú gerðir mig og alla sem þér kynntust að betri manneskjum.
Takk Bjössi fyrir hvað þú varst alltaf góður við börnin mín. Takk Bjössi fyrir hvað þú varst góður við mig. Takk Bjössi fyrir að hafa verið til.
Þar til við sjáumst aftur, þinn vinur og bróðir,
Elías.
Þín fóstursystir,
Hrafnhildur.
Öllum leið vel í návist þinni, útgeislun þín, bros þitt, smitandi hlátur þinn og umhyggja þín fyrir öðrum var aðdáunarverð.
Elsku hjartans Bjössi, það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þér.
Grámi dagsins grætur
hin góðu, liðnu ár,
þá hlupu fimir fætur
og féllu gleðitár.
Nú faðmast fólk sem lifir
og fegurð leitar að
en engill svífur yfir
þeim yndislega stað.
Nú tala englar aðrir
um allt sem hérna var.
Til jarðar falla fjaðrir
sem fagrar minningar.
(Kristján Hreinsson)
Sjáumst aftur seinna, kæri vinur, þín mágkona,
Berglind Inga Árnadóttir.
Þú varst nú bara fermingargutti þegar við bróðir þinn fórum að skjóta okkur saman og ég kynntist þér fyrst. Ég sá þig ekki oft þar sem þú bjóst úti í Lux en við Jói vorum á Bifröst. En þú komst samt strax inn í líf mitt þar sem hann bróðir þinn kunni af þér ótal sögur sem honum leiddist ekki að rifja upp. Æska og uppvöxtur í Lux, ævintýrin hér heima og ytra og um allan heim. Þú varst sannarlega kraftmikill strákur og ýmis samskipti þurftu að vera milli foreldra og skóla þar sem uppátækin voru ýmisleg, það var engin lognmolla í kringum þig. Svo fluttir þú hingað heim og fórst í menntaskóla og stundum skildi maður ekki hvernig þú fórst að því að klára hann svona vel með svona fínar einkunnir þar sem þú varst nú ansi oft upptekinn við eitthvað annað en námið.
Tónlistin skipaði stóran sess í þínu lífi og fólkið í kringum þig líka. Ekki bara fjölskyldan heldur allir. Þú hafðir strax svo ríka réttlætiskennd og hafðir auga fyrir hinum smáu og þeim sem ekki áttu eins auðveldan gang í lífinu. Þegar þú fórst að velta fyrir þér framtíðinni þá var ljóst að þú vildir læra eitthvað og starfa þar sem þú gætir haft áhrif til góðs, gera eitthvað sem skiptir máli. Þegar kom að framhaldsnámi valdir þú lögfræðina og eins og endranær reyndist námið þér ekki erfitt. Þú varst alltaf kominn í vinnu um leið og þú þurftir á því að halda, bæði meðfram námi og eftir útskrift. Um tíma komstu við í Kortaþjónustunni hjá honum bróður þínum og þar tala verkin þín enn. Svo flaugstu út í heim og hófst störf hjá EFTA og þessi ár þín í Sviss hafa sannarlega verið ævintýraleg. Það hefur verið svo gaman að fylgjast með þér, hvernig þú hefur notið þín í starfi, þessi áhugi á framandi menningarheimum, virðing þín fyrir náunganum og öðrum þjóðum og þessi iðandi kraftur sem í þér býr. Ég er svo ákaflega stolt af þér, kæri mágur, ekki bara eða endilega vegna þess sem þú hefur áorkað í námi og starfi, heldur vegna þess hver þú ert og hvernig þú ert. Þú ert ein af mínum fyrirmyndum í lífinu (þó þú sért miklu yngri en ég). Það er nú ekkert lítið búið að ræða um þig á mínu heimili í gegnum tíðina og sú umræða mun halda áfram um ókomna tíð enda af nægu að taka þar sem þú ert. Þú munt alla tíð verða partur af okkar lífi og halda áfram að lifa með okkur þó þú hafir kvatt þessa jarðvist.
Stórfjölskyldan hefur safnast saman þar sem við höfum haldið hvert utan um annað í leit að huggum og fró á þessum erfiða kveðjutíma. Kæru ættingjar og vinir Bjössa sem ég hef ekki náð í, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur. Öll hafið þið átt ykkar líf með Bjössa og í hugum ykkar og hjörtum mun hann lifa áfram. Verið dugleg að rifja upp minningar til að ylja ykkur við og haldið hvert utan um annað.
Bjössi minn, ég kveð þig úr þessum heimi með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir góða samferð.
Þín mágkona,
Andrea.
Höggið er þungt og óvænt þegar hann er skyndilega tekinn frá okkur. Söknuður fjölskyldunnar er sár og djúpur.
Við minnumst ungs manns sem náði langt, naut virðingar í erfiðum störfum og var hvers manns hugljúfi hvar sem hann kom. Fyrir það ber að þakka.
Það var engan veginn ljóst hvaða leið Bjössi myndi velja þegar hann hafði lokið menntaskólanámi. Hann var í tónlist og spilaði í hljómsveitum, um tíma langaði hann að vera leikari. Ég minnist samtals okkar Bjössa, þar sem ég ráðlagði honum frekar að læra lögfræði, en á því hafði hann alltaf áhuga eins og fleiri í fjölskyldunni. Það kom í ljós að það fag átti einkar vel við hann. Við fylgdumst stolt með fjölskyldan þegar hann sótti um krefjandi sérfræðistarf hjá EFTA í Genf og ekki síður þegar hann var valinn úr miklum fjölda umsækjenda. Hann naut þess að hafa alls staðar komið sér vel og ekki hefur tungumálakunnáttan tafið fyrir honum, en hann talaði mörg tungumál reiprennandi þótt íslenskan hafi alltaf verið móðurmálið.
Í þessu erfiða starfi í Genf hefur hann notið mikillar virðingar. Hann var sífellt á förum á einhverjar óþekktar slóðir þegar maður hitti hann eða nýkominn úr löngum ferðum til fjarlægra heimshluta á vegum starfsins. Hress og skemmtilegur, leitandi og frjór.
Það er þungur harmur sem kveðinn er að fjölskyldunni, einkum Kolla og Heiðu og systkinum Bjössa. Megi minning um einstakan dreng styrkja þau á þessari erfiðu stundu.
Þórunn Sigurðardóttir.
Kveðjustundin er sérstaklega sár; ungur maður sem lagt hefur hart að sér við nám og þroska og náð hverjum áfanganum á fætur öðrum, stendur á tindinum þegar honum er kippt burt. Ekki efa ég þó að hann hefði átt eftir að njóta útsýnisins af enn hærri tindum.
Hann var nokkurn tíma að átta sig á því hvað hann vildi gera í lífinu, enda móðurmissir á unga aldri ekki léttur. En þegar hann hafði fundið sína leið hurfu allir farartálmar og með sínu góða veganesti birtist leiðin, bein og breið og bara upp á við. Á þeim stutta tíma frá því hann lauk námi hafði hann náð einstökum árangri í starfi. Það er huggun harmi gegn að hann fékk að njóta ávaxta erfiðis síns, þó ekki væri lengi. Mín ósk er að líf hans geti orðið þeirri kynslóð sem mun taka við landinu hvatning.
Líf Bjössa varð stutt en það var gott og innihaldsríkt líf. Hann átti mörg áhugamál sem hann sinnti af eldmóði. Hann var leitandi og forvitinn og vopnaður hugrekki naut hann sín í útivist jafnt og hugleiðingum um stóru málin. Glaðlegt og hlýlegt viðmót hans í allra garð endurspeglaði hans góða innræti og gleði yfir lífinu. Í starfi sínu sem fulltrúi Íslands út um allan heim naut hann virðingar en ég tel samt að allir þeir sem kynntust honum, bæði í starfi eða leik, minnist aðallega hans einstaklega góðu nærveru, hlýleika, heiðarleika og hreinskilni.
Allt frá barnæsku var Bjössi með skemmtilegt „glimt í öjet“ sem lýsti upp andlit hans í samblandi af glettni og góðmennsku. Mér fannst þessi bróðursonur minn alltaf sérstaklega fallegur. Eitt sinn var ég að passa hann hér í Lönguhlíðinni og horfði á hann sofandi og þeirri hugsun laust niður að það væri ekki til neitt fallegra né fullkomnara en þessi sofandi drengur. Þegar hann óx úr grasi jókst bara við sjarmann og útgeislunin var áþreifanleg.
Hann var ekkert að láta mig föðursysturina finna fyrir aldursmuninum og ræddi opnum huga sín persónulegu málefni við mig ef svo bar við. Eftir að hann flutti til Genfar plönuðum við að heimsækja hvort annað. Ég mun alltaf sjá eftir að hafa ekki látið verða af því en sem betur fer var hann fyrri til og heimsótti mig til Ítalíu. Hann var ekki fyrr kominn en hann var rokinn af stað að kanna fjalllendið, það varð að heils dags fjallgöngu. Eðalrauðvínsflöskuna sem hann skildi eftir hjá mér á ég enn óupptekna og ég mun opna hana á afmælisdaginn hans í sumar, minnug þess að það sem lirfan kallar endalok lífsins kalla allir aðrir fiðrildi (Lao Tze).
Megi björt og fögur minning Bjössa vera ávallt með okkur öllum sem nutum þeirra forréttinda að fá að ganga með honum um stund. Foreldrum og systkinum óska ég styrks og blessunar.
Guðrún S. Sigurðardóttir.
Á síðustu árum fann ég betur og betur hvað við áttum margt sameiginlegt, bæði í áhugamálum og á einhvern hátt líka varðandi störf okkar, þó ólík væru. Núna er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa að minnsta kosti átt örlítinn tíma til að kynnast Bjössa sem fullorðnum manni, sjá inn í líf hans í Genf og heimsækja hann þar.
Bjössi bjó yfir mörgum góðum gáfum. Hann var skarpgreindur og það sýndi sig vel í lögfræðinni og starfi hans og frama hjá EFTA í Genf. Bjössi kunni að halda uppi fjöri, hvort sem var í Skátum eða á meðal vina, og það var alltaf stutt í húmorinn. Hann tók sjálfan sig ekki of alvarlega. Það var gott að leita til hans og viðmót hans var alltaf jákvætt, opið og einlægt.
Það að reyna að sætta sig við að Bjössi sé farinn frá okkur, á þann stað þaðan sem ekki verður aftur snúið, er sárt og manni finnst það eiginlega ómögulegt. Ég mun alltaf sakna hans. Ég er þakklát fyrir tíma okkar saman, sem var alltof stuttur. Maður stólar alltaf á framtíðina, svo einn daginn er framtíðin orðin að fortíð. En áfram lifir ástin á Bjössa, og stolt yfir lífi hans og afrekum. Hvíl í friði, fallegi frændi minn.
Katrín Sigurðardóttir.
Hann Bjössi, eins og ég kallaði hann alltaf, var einstakur maður. Hann var aldrei hræddur við að prófa eitthvað nýtt eða ferðast á framandi staði, ég dáðist að því hvað hann var hugrakkur og ævintýragjarn. Það var alltaf skemmtilegt að heyra sögurnar hans frá ferðalögum hans um heiminn.
Hann var vinur vina sinna, ég vissi alltaf að ég gæti leitað til hans og ósjaldan spjölluðum við um allt á milli himins og jarðar. Það var alltaf gaman með Bjössa, við gátum endalaust sagt hvort öðru aulabrandara og hlegið og látið eins og kjánar. Hann hafði góða nærveru og öllum líkaði vel við hann.
Hvert sem hann fór fylgdi honum alltaf gleði og hlátur.
Ég man enn þann dag þegar við kynntumst fyrir allmörgum árum, hvað hann var opinskár og með einstakt bros, við urðum bestu vinir frá fyrsta degi. Þó að við byggjum seinna sitt í hvoru landinu þá héldum við alltaf sambandi og hittumst eins oft og hægt var. Mér þótti óskaplega vænt um hann Bjössa og ég sendi foreldrum hans og fjölskyldu mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Ég vil gjarnan lítið ljóð
láta af hendi rakna.
Eftir kynni afargóð
ég alltaf mun þín sakna.
(Guðrún V. Gísladóttir.)
Elsku Bjössi. Takk fyrir allt, elsku vinur minn, ég gleymi þér ekki.
Anna Einarsdóttir-Kaaber.
Fríverslunarmálin eru stærstu og þýðingarmestu störf fastanefndar Íslands í Genf. Vegna þeirra er sendiherrann þar í daglegu sambandi við EFTA-skrifstofuna og haustið 2009 fangaði hinn nýi liðsmaður EFTA strax athygli mína. Vinnubrögð hans og eljusemi vöktu traust. Á löngum og oft erfiðum samningaferðum til fjarlægra heimshorna kynntist ég honum líka sem góðum og hjálpsömum félaga.
Birni voru fljótlega falin stór verkefni hjá EFTA. Hann fór með vandasama málaflokka svo sem hugverkarétt og síðar samkeppnismál. Hann sá um framkvæmd fríverslunarsamninga við m.a. Arabaríkin við Persaflóa, Suður-Kóreu og Serbíu. Frá síðasta sumri bar hann líka ábyrgð á lögfræðistörfum Genfarskrifstofunnar á fríverslunarsviðinu. Hann var einnig umsjónarmaður yfirstandandi viðræðna EFTA-ríkjanna við Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan, einhverra flóknustu fríverslunarsamninga sem EFTA hefur enn hleypt af stokkunum. Allt ber þetta vott um það traust sem Björn naut, bæði meðal samverkamanna sinna og aðalsamningamanna EFTA-ríkjanna.
Þegar ég hóf svo störf sem framkvæmdastjóri samtakanna síðastliðið haust urðu mér mannkostir Björns enn ljósari. Hann var afburðastarfsmaður. Hann var hlýr, einlægur og hjartahreinn. Hann var harðjaxl til verka og hvers manns hugljúfi. Hann var í stjórn starfsmannafélags EFTA og starfandi formaður þegar hann lést. Þannig kynntist ég einnig þeirri hlið Björns sem laut að áhuga hans á velferð félaga sinna og á samtökunum sem stofnun og vinnustað. Hann var rökfastur en sanngjarn, og samstarfsfólk og yfirstjórn treystu honum í hvívetna.
Nú er þessari alltof stuttu samferð lokið. Björns verður sárt saknað. Fyrir hönd samtakanna og starfsfólksins vil ég votta fjölskyldu Björns, foreldrum og systkinum, einlæga samúð.
Kristinn F. Árnason,
framkvæmdastjóri EFTA.
Ég kynntist Bjössa þegar við leigðum saman íbúð á Guðrúnargötu í Norðurmýrinni. Mér byrjaði strax að líka við hann eftir fyrsta símtalið. Við áttum margt sameiginlegt, vorum jafnaldrar, þekktum sama fólkið en höfðum aldrei hist áður. Við urðum mjög góðir vinir á mjög stuttum tíma og leigðum saman í tvö ár. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Bjössa, hann var alltaf kátur og hress. Hann kunni að skemmta sér og njóta lífsins. Hann kom alltaf vel fyrir en gat bitið frá sér ef honum var misboðið. Bjössi hafði mikla réttlætiskennd. Hann var mesti dýravinur sem ég hef kynnst og tók hagsmuni kattarins Jóhannesar fram yfir flesta aðra hagsmuni. Hann hafði róttækar skoðanir, var víðsýnn og laus við allan rétttrúnað. Hann var mjög rökfastur og það var erfitt að stoppa hann þegar hann komst í gang. Í Búsáhaldabyltingunni naut Bjössi sín í botn og vorum við oft saman að mótmæla. Bjössi lagði sitt af mörkum í þeirri byltingu.
Þó að Bjössi hafi farið alltof snemma naut hann lífsins á meðan hann lifði og upplifði margt. Bjössi var mikill ævintýramaður, hann ferðaðist víða og bjó í mörgum löndum. Hann var sannkallaður heimsborgari, bæði í hugsun og útliti. Bjössi spilaði í mörgum hljómsveitum og hafði þann sveigjanleika að geta unnið á skrifstofu á daginn og slammað á kvöldin. Hann samdi mikið af lögum og hefði getað spjarað sig ágætlega á hinu listræna sviði. En hann fór í lögfræði og fann sig vel á því sviði líka. Á seinni árum breyttist hann svo í útivistarfrík og var búinn að taka allan skalann í þeim efnum. Það var í eðli Bjössa að taka allt með trompi. Ég fór einu sinni með Bjössa á skíði og hann endaði á spítala, viðbeinsbrotinn.
Það varð mikil breyting á lífi Bjössa þegar hann fékk starfið hjá EFTA. Hann var valinn úr hópi mörg hundruð umsækjenda og enginn skildi hvernig nýútskrifaður og reynslulítill lögmaður gat skákað öllum hinum. Hann trúði því varla sjálfur. Ég tel að persónuleiki Bjössa hafi ráðið þar miklu; hann hafði svo gott lag á að ná til fólks. Bjössi var allt í einu kominn í vel launað starf hjá alþjóðlegri stofnun í Sviss. Maður sem bjó í kjallaraíbúð í Norðurmýrinni og spilaði í pönkhljómsveit var allt í einu orðinn samningamaður hjá EFTA. Einhverjir hefðu sennilega misst tengsl við raunveruleikann við það að komast í slíka stöðu, en það gerði Bjössi ekki. Þegar ég heimsótti hann í sumar hafði Bjössinn ekkert breyst. Hann var að vísu kominn í dýr jakkaföt og keyrði um á blæjubíl, en hans innri maður var sá sami. Og kötturinn var á sínum stað eftir að hafa þurft að dúsa í einangrun í margar vikur. Bjössi var algjör höfðingi heim að sækja, við fórum saman í ferðalag um Alpana og mun ég seint gleyma þeirri ferð. Það voru mínir síðustu dagar með Bjössa. Þeir hefðu mátt vera fleiri. Hvíl í friði kæri vinur.
Grímur Hákonarson.
Leiðir okkar lágu saman um miðjan síðasta áratug þar sem hann gerði garðinn frægan með hinum mikilfenglegu Skátum. Skátar voru ákaflega merk hljómsveit, en lengi var eitt helsta einkennismerki hennar breitt og blítt bros Björns sem skein af sviðinu eins og sólin og sást lengst aftur í sal. Þrátt fyrir að Skátar hafi leikið oft á tíðum flókið stærðfræðirokk sem jafnvel gæti fælt einhverja frá gerði fas sveitarinnar og framkoma það að verkum að allir fundu sig á tónleikum hennar – og þar réð kæti og brosmildi Bjössa miklu um.
Björns má minnast fyrir margar sakir, en þegar ég hef hugsað til hans síðustu daga stendur upp úr hvað hann virtist eiga auðvelt með að vera hlýr, glaður og jákvæður í allra garð, hvernig hann bauð nýtt fólk velkomið, lét því finnast það vera hluti af hópnum, og naut þess að eignast nýja félaga og spjalla við ókunnuga. Þetta vil ég taka mér til fyrirmyndar og það mættu aðrir eins gera.
Eftir að Björn lagðist í heimshornaflakk hittumst við ekki oft, en þegar svo bar að við mættumst í Reykjavík urðu ávallt fagnaðarfundir. Við minntumst liðinna tíma og ráðgerðum frekara fjör í framtíðinni. Við ætluðum alltaf að hittast meira og betur síðar, eins og maður ætlar alltaf.
Elsku gleðigjafi, kæri Bjössi. Það var heiður að fá að kynnast þér og starfa með þér. Takk fyrir að vera sá sem þú varst. Ég hlakka til að sjá þig síðar.
Haukur Sigurbjörn
Magnússon.
Meðan á námi Björns við deildina stóð áttum við mörg samtöl, bæði að mínu frumkvæði og hans. Að sjálfsögðu ræddum við um námið og frammistöðu hans, sem var góð, en ekki síður um framtíðarvonir hans og áætlanir og hvaða eiginleika góður lögfræðingur en umfram allt góð manneskja ætti að hafa til að bera. Í öllum samtölum okkar var Björn opinn, hlýr og gefandi, hæverskur og mildur í umtali um menn og málefni. Ég var stoltur af að Björn skyldi vera nemandi okkar og þótti vænt um hann. Það kom mér ekki á óvart þegar Björn var að námi loknu ráðinn til starfa hjá EFTA, úr hópi mjög hæfra umsækjenda. Ég gladdist yfir fregnum sem ég fékk af frammistöðu hans hjá EFTA og þeim vandasömu viðfangsefnum sem hann var að fást við. Ég talaði við hann skömmu áður en hann hélt til starfa í Genf. Hann var fullur tilhlökkunar að takast á við krefjandi verkefni í alþjóðlegu umhverfi og frá honum stafaði eins og áður hlýja, hógværð og vinsemd. Ég var þess fullviss að Björns biði björt framtíð og ég myndi á komandi árum fá næg tilefni til að stæra mig af þessum fyrrverandi nemanda mínum.
Ég ætla ekki að lýsa þeim tilfinningum sem ég upplifði þegar ég fékk fréttirnar af andláti Björns. Efst í huga mér er samúð með foreldrum og systkinum Björns og öðrum ættingjum hans og ástvinum. Megi Guð styrkja þau í sorg þeirra. Eftir stendur minningin um góðan dreng. Hún lifir áfram.
Þórður S. Gunnarsson.
Björn Kolbeinsson var lífsglaður, hraustur og einarður maður. Hann hafði góða menntun, stóð sig með prýði í störfum og var falinn æ meiri trúnaður og ábyrgð sem hann skilaði fleiri verkefnum. Síðast starfaði hann sem lögfræðingur á vegum EFTA og var mikið í ferðum víða um heim í trúnaðarerindum og samningum. Hann var fullur áhuga og starfslöngunar og fann kröftum sínum verðugt og áleitið viðfang. Verkefnin voru fjölbreytileg og heillandi og kölluðu fram hugkvæmni, frumkvæði og fundvísi á lausnir. Við ræddum talsvert saman á síðasta sumri og þá lýsti hann fyrir mér verkefnunum sem kölluðu að í starfi hans. Þar voru margvísleg lögfræðileg og viðskiptaleg álitamál sem höfðu fangað huga hans, málefni sem heilla ungan Íslending með alþjóðlegar forsendur til að stuðla að framgangi sameiginlegra fjölþjóðlegra hagsmuna með vaxandi samskiptum og viðskiptum, öllum almenningi til heilla.
Björn átti bernsku sína í Lúxemborg að hluta. Hann missti móður sína barnungur. Hann óx af hverri raun og var það gefið að reynast öðrum stoð og stytta, hlýr, hjálpsamur og þægilegur. Björn var útivistarmaður og hafði gaman af kappsömum leik. Hann hafði lifandi kímnigáfu og sá fyndnina í mannlífinu. Hann átti marga félaga, var glaðvær og vinsæll maður. Lengd ævinnar í árum talið er aðeins ein mælistika á mannlíf. Ævina má líka meta eftir þeirri gleði sem maðurinn veitir út frá sér til sinna nánustu og annarra. Björn var kallaður héðan í ungum blóma lífsins. Ferill hans var glæsilegur og hann lét gott af sér leiða.
En lífið er alltaf margar atburðarásir í senn. Við erum háð margs konar áhrifum og öflum. Og slysin verða meðal annars þegar þessu slær einhvern veginn saman ofar mætti okkar, hraðar en viðbragð okkar nær að afstýra. Þingvellir eru helgur staður, en klettagjárnar fela bæði áfangastaði og dauðahættur. Við vitum ekki hvað tekur við, en við vitum hver tekur á móti okkur öllum. Við sem eftir stöndum nú felum Björn Kolbeinsson Guði í hendur og bænir okkar fylgja honum.
Jón Sigurðsson.
Bjössi var einstaklega ljúfur og góður drengur sem myndaði sterk vinatengsl við marga starfsmenn Einkaleyfastofunnar. Það var auðvelt verk að mæla með mannkostum Bjössa þegar hann sótti um starf lögfræðings hjá EFTA í Genf að lokinni útskrift úr lagadeild Háskólans í Reykjavík. Bjössi hélt alltaf góðri tryggð við sína gömlu vinnufélaga á Einkaleyfastofunni auk þess sem okkur gafst tækifæri til að halda tengslum við hann í gegnum starf hans þar sem hann vann að samningamálum fyrir hönd EFTA m.a. á sviði hugverkaréttar. Síðasta kveðja Bjössa til okkar starfsmanna Einkaleyfastofunnar var í jólakorti nú í desember: „Kærar kveðjur frá Súkkulandi, Bjössi.“
Við vottum fjölskyldu Bjössa okkar dýpstu samúð. Bjössa verður sárt saknað og minning um einstakan mann lifir í huga okkar. Blessuð sé minning hans.
Fyrir hönd starfsmanna Einkaleyfastofunnar,
Borghildur Erlingsdóttir.
Það er eins og við Bjössi höfum þekkst alla tíð, næstum því frá því ég man fyrst eftir mér.
Margt skemmtilegt höfum við upplifað og gert saman, minnisstæðir eru allar tónleikahátíðirnar sem við fórum á og allir tónleikarnir með hljómsveitum hans í gegnum tíðina þar sem hann spilaði sjálfur með. Ógleymanlegar eru allar skíðaferðirnar sem við fórum saman í, bæði til Austurríkis og annarra landa.
Ég get haldið endalaust áfram að rifja upp okkar samverustundir sem ég mun geyma í hjarta mínu um ókomna tíð, en aðallega er mér minnisstæður okkar góði vinskapur. Þú varst traustur og tryggur vinur, við þig gat ég rætt um allt milli himins og jarðar, þú áttir stóran vinahóp sem nú saknar þín sárt.
Kæri vinur, ég sendi fjölskyldu þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur, blessuð sé minning þín.
Þinn vinur,
Stefán Snorrason,
Lúxemborg.
Bjössi kom inn í fyrsta bekkinn í lagadeild HR og var í stuttermabol með mynd af rokkhljómsveit sem enginn hafði heyrt talað um. Hann brosti og hló líka meira en stressuðum laganemum var tamt. Svo fékk hann sér hanakamb.
Eflaust hafa einhverjir haldið fyrirfram að rokkandi lögfræðingar myndu ekki ná langt. Þeir höfðu rangt fyrir sér. Þegar Bjössi fékk vinnu hjá EFTA var ekki einungis ástæða til að skála fyrir velgengni vinar, heldur einnig því að eini maðurinn sem hafði ekki átt jakkaföt fékk bestu vinnuna eingöngu út af því að hann var í alvöru bestur.
Í hógværð sinni sýndi Bjössi fram á að það er engin þörf fyrir sýndarmennsku. Bjössi minnti á að með því einu að vera trúr sjálfum sér, æðrulaus, glaður og góður væri hægt að breyta heiminum. Hann mundi hver hann var og hvað hann ætti að þakka. Hann tók lífinu eins og það kom og tók vonbrigðunum yfir lífsins frosnu krækiberjum með því að búa til krækiberjavodkadrykk – og hlæja. Allir sem hafa einhvern tímann hitt Bjössa vita hvernig hann hlær.
Bjössi var rausnarlegur í kærleikanum gagnvart vinum sínum og var undantekningarlaust með þeim í liði. Í fjölmiðlum var tilkynnt að með fráfalli hans hefði fallið frá maður á fertugsaldri sem væri ókvæntur og barnlaus. Í slíkum tilkynningum er í engu sagt frá að þar hafi farið fágætur einstaklingur sem á hverjum degi gerði alla þá sem hann hitti að fjölskyldu sinni.
Sofðu rótt, kæri vinur. Við förum í margrædda ferðalagið til þín í huganum og rifjum upp ljúfar minningar.
Aðstandendum öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Hildur Sverrisdóttir og Sandra Hlíf Ocares.