RÚSSLAND
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Nú er hún Snorrabúð stekkur,“ varð handknattleiksunnanda á orði þegar Rússar töpuðu fyrir Rúmenum vorið 2010 í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Svíþjóð í janúar 2010. Í fyrsta sinn voru Rússar ekki með á heimsmeistaramóti í handbolta. Allar götur frá því að bestu handboltalandslið heims hófu að hittast með reglubundnum hætti um miðja síðustu öld höfðu Rússar átt lið í keppni þeirra bestu. Lengi vel undir fána Sovétríkjanna en síðar þeim rússneska eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur.
Rússar voru heimsmeistarar 1993 og 1997 og hafa margoft unnið til verðlauna, jafnt á HM sem EM og Ólympíuleikum.
Spilin stokkuð
Eftir vonbrigðin 2010 tókst Rússum með naumindum að skríða inn á EM sem haldið var í Serbíu í ársbyrjun í fyrra. Það varð engin frægðarför og niðurstaðan varð 15. og næstsíðasta sætið. Fljótlega eftir mótið skilaði gamla brýnið, Vladimir Maximov, inn uppsagnarbréfi sínu sem landsliðsþjálfari. Tími var kominn á kynslóðaskipti, ekki aðeins við stjórn liðsins heldur einnig á meðal leikmanna.Oleg Kuleshov var ráðinn landsliðsþjálfari og honum til halds og trausts Alexander Rymanov. Þeim er ætlað að endurheimta stöðu rússneska landsliðsins á alþjóðavettvangi. Uppskera síðustu ára var rýr en botninum var náð á árunum 2010 til 2012.
Leitar Kuleshov í smiðju Alfreðs?
Kuleshov var á sinni tíð frábær handknattleiksmaður. Hann var leikstjórnandi hjá þýska liðinu Magdeburg á velmektarárum þess undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Rymanov er aðeins eldri en var afar góður leikmaður á sinni tíð. Eftir að ferlinum sem leikmaður lauk tók hann upp þjálfun og stýrði m.a. liðum í þýsku 1. deildinni um nokkurra ára skeið.Kuleshov og Rymanov er ekki aðeins ætlað að koma rússneska landsliðinu í fremstu röð á nýjan leik. Þeir eiga einnig að snúa leik liðsins til nútímans, en mörgum þótti rússneska landsliðið fast í gamla „sovéska boltanum“ undir stjórn Maximovs. Rússa hafi ekki vantað góða leikmenn heldur breyttan leikstíl.
Kuleshov þekkir vel til hins vestræna handknattleiks og er örugglega tilbúinn að breyta miklu. Hann þótti vinnusamur og ósérhlífinn leikmaður og var í miklum metum hjá Alfreð Gíslasyni. Þeirra samband hefur haldist gott, eftir því sem næst verður komist. Enginn vafi leikur á að Kuleshov sækir talsvert í smiðju Alfreðs þegar kemur að uppbyggingu á handknattleiksliði og hvaða leikaðferðum skal beita.
Kuleshov og Rymanov tókst að ryðja fyrstu hindruninni úr vegi í júní 2011 þegar rússneska landsliðið vann Tékka í umspilsleikjum um sæti á HM á Spáni.
Hryggstykkið frá Chehovski Medvedi
Hryggstykki liðsins er myndað með leikmönnum frá hinu sterka rússneska félagsliði Chehovski Medvedi, sem lengi hefur verið í fremstu röð í Evrópu og er reyndar enn undir stjórn Maximovs. Einnig eru nokkrir úr St. Pétursborgarliðinu sem hefur einnig leikið í Meistaradeild Evrópu undir stjórn hins þrautreynda Dímítrís Torgovanovs. Svo og eru leikmenn í rússneska liðinu sem leika utan heimalandsins s.s. í Þýskalandi og í grannríkinu Úkraínu. Uppistaðan er þó úr rússneskum félagsliðum.Rússar hafa búið sig af kostgæfni undir heimsmeistaramótið á Spáni. Skömmu fyrir áramótin unnu þeir fjögurra liða mót í Riga í Lettlandi. Þeir kjöldrógu Letta og Litháa og lögðu Hvít-Rússa með fimm marka mun, 26:21. Stórsigur á Lettum og Litháum segir e.t.v. ekki mikið þar sem báðar þjóðir eiga slök landslið um þessar mundir. Sigurinn á Hvít-Rússum segir kannski meiri sögu þar sem þeir síðarnefndu eru einnig á leiðinni á HM.
Rússar leika framliggjandi vörn, mikið 5/1 undir stjórn Kuleshovs og markvörðurinn Oleg Grams er reyndur og sterkur.
Fyrsti leikur Íslands á HM verður við Rússa í Sevilla 12. janúar kl. 17. Sú viðureign verður ekki eingöngu mikill prófsteinn á íslenska landsliðið sem gengið hefur í gegnum miklar breytingar. Leikurinn verður einnig prófsteinn á nýja þjálfara Rússa, Kuleshov og Rymanov, og hvort þeim tekst að færa leik rússneska landsliðsins inn í nútímann að einhverju leyti og koma Rússum um leið í fremstu röð.