Hólmfríður Gísladóttir
holmfridur@mbl.is
Til stendur að loka þeim fjórum herbergjum sem hafa orðið hvað verst úti vegna rakaskemmda á þriðju hæð elstu byggingar Landspítalans en um er að ræða skrifstofur og eitt hvíldarherbergi starfsfólks. Viðgerð á framhlið byggingarinnar verður boðin út í febrúar og verður m.a. skipt um þá glugga sem hafa lekið og valdið því að myglusveppur hefur þrifist í skrifstofuálmunni. Talið er að veikindi tíu starfsmanna spítalans megi rekja til rakans og myglunnar en starfsfólkið varð fyrst vart við einkenni fyrir allt að þremur árum.
Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítalans, segir húsið þannig byggt að myglusveppurinn berist ekki á milli herbergja og það ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að komast fyrir vandamálið.
„Það fyrsta er að útiloka rakann,“ segir Ingólfur. „Það þarf að loka þessum herbergjum þar sem þetta er og gera við gluggana. Við byrjum vonandi á því í apríl og gerum svo ráð fyrir að gera við inni á herbergjunum í framhaldinu,“ segir hann.
Ingólfur segir vonir standa til þess að búið verði að standsetja herbergin seinni part sumars. Hann segir að yfirvöldum hafi verið gerð grein fyrir mikilli viðhaldsþörf bygginga Landspítalans en í ljósi þróunar mála verði mögulega að forgangsraða verkefnum upp á nýtt.
Skoða forgangsröðun verkefna
„Við höfum ekki tekið ákvörðun um slíkt en allt sem við gerum er mjög brýnt. Við höfðum tekið frá 40 milljónir til að endurnýja lyftu innandyra á spítalanum, þannig að það væri með góðu móti hægt að flytja sjúklinga á milli gjörgæslu og bráðamóttöku, sem er erfitt því lyftan er svo lítil, og það hefur svona verið nefnt, án þess að það hafi nokkur ákvörðun verið tekin um það, að fresta því og reyna að gera meira utandyra.“Ingólfur segir að þetta sé nokkuð sem verði metið í framhaldinu en þeir fjármunir sem rekstrarsviðið hafi til ráðstöfunar í utanhússviðgerðina dugi aðeins til að gera við hálfa framhlið hússins.
Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær gera áætlanir ráð fyrir að um 300 milljónum verði varið til viðhalds á byggingum Landspítalans á árinu. Þar af fara 60 milljónir í utanhússviðhald en um 240 milljónir í viðhald innanhúss, s.s. breytingar á húsnæðinu, málningarvinnu, gólfdúkaskipti og uppsetningu á nýjum tækjum.