Í gærmorgun var á það bent á þessum stað að Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, væri undir auknum blóðþrýstingi á sama tíma og nokkrir aðrir flokksmenn hefðu orðið fyrir miklum þrýstingi til að bjóða sig fram gegn honum. Síðar sama dag sagði Dagur: „Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram til varaformennsku áfram.“ Hann bætti því við að nú hygðist hann einbeita sér að verkefnum í borginni eftir fjögur ár á varaformannsstóli.
Það er mikið áfall fyrir Samfylkinguna að missa slíkt foringjaefni, mann sem leiddi flokkinn til sögulegs taps í borginni í síðustu kosningum. En þó að Dagur hafi tapað kosningunum vann hann stjórnarmyndunarviðræðurnar, sem í raun fóru fram fyrir kosningarnar þó að leiksýning gæfi annað til kynna.
En Samfylkingin þarf ekki að örvænta þó að enn stefni í sögulegan ósigur. Vinir Dags eru aftur á kreiki og ætla aftur að bjóða landsmönnum upp á Litlu Samfylkinguna.
Og í þessu gæti líka falist sóknarfæri fyrir Dag því að Litla Samfylkingin flækir ekki málin með kosningum í embætti eða á lista. Þar er mun notalegra að vera fyrir kosningafælna lýðræðissinna.