Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
„Víða gæti orðið hætta á kali ef svellið fer ekki af túnunum. Bændur eru ánægðir með hlákuna sem verið hefur en það þarf meira til að hreinsa klakann, hann er víða mikill og þykkur og hefur legið yfir síðan í nóvember,“ segir Eiríkur Loftsson, ráðunautur á Sauðárkróki, um ástand túna í Skagafirði.
Víða um land liggur klaki yfir túnum, sérstaklega á Norðurlandi þar sem snjóað hefur mikið í vetur.
Eiríkur segir að þar sem horfurnar séu verstar séu bændur eðlilega áhyggjufullir. Ef grasræturnar fái aðgang að lofti sé minni hætta á kalskemmdum en þolið sé mismunandi eftir grastegundum og aldri túna. Þannig séu dæmi um að tún í Fljótum hafi komið vel undan vetri þó að þar sé jafnan mikið fannfergi.
„Núna hefur klaki hins vegar legið yfir og þetta má ekki standa lengi svona. Hér hafa verið hlýindi síðustu daga en sólin er lágt á lofti og auk þess hefur verið logn eins og í gær [miðvikudag], en við þær aðstæður minnkar klakinn lítið,“ segir Eiríkur.
Hann bendir jafnframt á að síðustu tvö sumur hafi heyskapur á svæðinu verið almennt slakur og bændur vilji ekki fá kalskemmdir í ofanálag í vor.
Útlitið ekki gott
Undir þetta tekur Ingvar Björnsson, ráðunautur á Búgarði í Eyjafirði. Útlitið sé ekki mjög gott ef fram heldur sem horfir. Þó sé of snemmt að vera með miklar svartsýnisspár. Staðan verði metin nánar í byrjun febrúar.„Langt er síðan það snjóaði og frysti og svellið hefur því verið yfir alveg síðan í nóvember sums staðar. Það er ástæða til að hafa meiri áhyggjur af golfvöllum og íþróttavöllum þar sem grösin þola ekki jafnmikinn klaka. Túnin geta þolað allt að þrjá mánuði áður en veruleg hætta skapast á kalskemmdum,“ segir Ingvar.
Hann rifjar upp að ekki séu nema tvö ár liðin síðan tún skemmdust norðan- og austanlands vegna kals. Bændur hafi einnig upplifað þurrkatíð og heybirgðir séu í lágmarki. „Það eru búnir að vera óvanalega miklir umhleypingar og ótíð í vetur. Þannig muna eldri Þingeyingar ekki eftir jafnslæmri tíð og svona snemma vetrar,“ segir Ingvar.