Sigurmark Dana á Íslendingum í framlengingu í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Hamborg árið 2007 var úr smiðju núverandi landsliðsþjálfara Íslendinga, Arons Kristjánssonar.

Sigurmark Dana á Íslendingum í framlengingu í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Hamborg árið 2007 var úr smiðju núverandi landsliðsþjálfara Íslendinga, Arons Kristjánssonar. Hann var á þessum tíma þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Skjern en tveir lærisveinar hans, leikstjórnandinn, Jesper Jensen, og stórskyttan hávaxna, Lars Møller Madsen, lögðu upp leikfléttu í síðustu sókn Dana sem sá síðarnefndi skoraði úr sigurmarkið á síðustu sekúndu framlengingar.

„Við höfum gert þetta 600 sinnum áður á æfingum hjá Skjern,“ sagði Madsen í samtali við Jyllandsposten eftir sigurinn í Hamborg. „Jesper sagði við mig að hann vildi nota þetta leikkerfi, sem við köllum einfaldlega Skjern. Hann gaf boltann á mig og hindraði síðan varnarmann í kjölfarið. Það eina sem ég átti að gera var að „dúndra“ á markið,“ sagði Lars Møller Madsen þegar hann lýsti markinu og aðdraganda þess í samtali við Jyllandsposten strax að leik loknum í Hamborg. iben@mbl.is