Athyglisvert er að fimm af sex ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu taka þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni. Þau hafa aldrei verið fleiri saman á einu stórmóti eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Rík hefð er fyrir blómlegu og kraftmiklu íþróttastarfi í þessum löndum enda voru Júgóslavar löngum meðal fremstu þjóða Evrópu í boltaíþróttagreinum, þ.e.a.s. blaki, handknattleik, knattspyrnu og körfuknattleik. Eftir að Júgóslvavía liðaðist í sundur á sínum tíma hafa sterkefnaðir menn og stöndug fyrirtæki bundið trúss sitt við íþróttir í lýðveldunum. Það hefur ekki dregið úr áhuga ungs fólks á að stunda íþróttir og brjótast þar með úr sárri fátækt sem stór hluti íbúa landanna glímir við.
Króatar, Slóvenar og Serbar hafa verið tíðir gestir á stórmótum síðustu ára. Makedóníumenn verða nú með í annað sinn á heimsmeistaramóti og Svartfellingar í fyrsta sinn sem sjálfstætt ríki. Svartfellingar voru um nokkurra ára skeið í ríkjasambandi með Serbum og áttu þá leikmenn í sameiginlegu landsliðið þjóðanna á nokkrum stórmótum, m.a. í lokakeppni EM og HM karla.
Fjögur þessara ríkja voru með á EM karla í Serbíu fyrir ári og stóðu sig vel. Serbar voru í öðru sæti, Króatar í því þriðja, Makedóníumenn í fimmta og Slóvenar í sjötta sæti. Svartfellingar voru þá ekki með.
Bosnía tapaði naumlega
Bosníumenn tóku þátt í undankeppni HM. Þeir féllu út eftir tveggja leikja einvígi við Þjóðverja á vormánuðum, 60:57, eftir sveiflukennda leiki. Þjóðverjar unnu fyrri leikinn á heimavelli með 12 marka mun, 36:24, en Bosníumenn unnu heimaleik sinn, 33:24. Það dugði ekki til.Ekki er útilokað að sá dagur renni upp að Júgóslavíulýðveldin sex verði einhvern tímann öll saman þátttakendur á stórmóti í handknattleik.
Síðan má minna á að Kosovo hefur aðild að Handknattleikssambandi Evrópu en ekki eru miklar líkur á að handknattleiksslið Kosovo blandi sér í baráttu þeirra bestu. Eins og sakir standa hafa Serbar heldur ekki viðurkennt sjálfstætt Kosovo. iben@mbl.is