Landamæri Annar maðurinn er frá Senegal en hinn Rússlandi.
Landamæri Annar maðurinn er frá Senegal en hinn Rússlandi. — Morgunblaðið/ÞÖK
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Ekki er talið að tveir erlendir karlmenn sem stöðvaðir voru á Keflavíkurflugvelli með kókaín í fórum sínum nýlega tengist. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málin tvö.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Ekki er talið að tveir erlendir karlmenn sem stöðvaðir voru á Keflavíkurflugvelli með kókaín í fórum sínum nýlega tengist. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málin tvö.

Mennirnir voru báðir einir á ferð en annars vegar er um fertugan mann frá Senegal, búsettan á Spáni, að ræða og hins vegar rúmlega fertugan Rússa.

Sá fyrrnefndi var stöðvaður við landamæraeftirlit en að sögn lögreglu vaknaði fljótlega grunur um að hann hefði fíkniefni í fórum sínum. Reyndist hann vera með rúmlega hálft kíló af kókaíni innvortis.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu er ekki vitað til þess að maðurinn hafi áður komið til Íslands en mögulegt er að hann hafi tengst fíkniefnamálum erlendis. Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. janúar. Ekkert hefur komið fram um hugsanlega íslenska tengiliði mannsins og enginn annar hefur verið handtekinn vegna málsins.

Var með kókaín á sér

Hinn maðurinn er nú í farbanni en hann var stöðvaður við hefðbundið tolleftirlit á flugvellinum vegna gruns um að hann væri með fíkniefni. Við leit á honum fundust 300 grömm af kókaíni. Maðurinn var að koma frá París þegar hann var tekinn höndum.

Lögreglan hefur yfirheyrt nokkra í tengslum við málið en enginn hefur verið handtekinn vegna hugsanlegrar aðildar.