Bensínhækkun Verð á bensíni hækkaði um þrjár krónur í gær.
Bensínhækkun Verð á bensíni hækkaði um þrjár krónur í gær. — Morgunblaðið/Jim Smart
Bensínverð hefur hækkað undanfarna daga og hafði í gær hækkað um 3 krónur á öllum bensínstöðvum. Bensínlítrinn kostar því nú 249,50 krónur hjá Orkunni, Atlantsolíu og ÓB, 249,80 krónur hjá Olís og N1 og 251,90 krónur hjá Skeljungi.

Bensínverð hefur hækkað undanfarna daga og hafði í gær hækkað um 3 krónur á öllum bensínstöðvum. Bensínlítrinn kostar því nú 249,50 krónur hjá Orkunni, Atlantsolíu og ÓB, 249,80 krónur hjá Olís og N1 og 251,90 krónur hjá Skeljungi.

Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir að rekja megi þessa hækkun einkum til tveggja þátta. Annars vegar hafi gengi Bandaríkjadals hækkað töluvert og var í gær komið upp í 130 krónur. Þá hafi heimsmarkaðsverð á bensíni verið á stöðugri uppleið síðustu vikurnar.

„Heimsmarkaðsverðið núna í dag er 55 dollurum hærra en það var í desember,“ segir Magnús og bendir einnig á að gengi bandaríkjadals þann 2. janúar síðastliðinn hafi verið 128 krónur.

Aðspurður hvort hann eigi von á frekari hækkunum á næstunni svaraði Magnús, að hann byggist ekki við að eldsneytisverðið mundi breytast mikið á næstunni.

Hækkun kemur ekki á óvart

Að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, kemur þessi verðhækkun honum ekki á óvart enda hafi heimsmarkaðsverðið, sem og gengi bandaríkjadals hækkað. Spurður hvort hann eigi von á frekari hækkunum segir Runólfur: „Svona að óbreyttu þá á ég frekar von á að íslensku félögin reyni að halda að sér höndum.“ skulih@mbl.is