Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Nú gerðist það að stjórnlagaráð náði saman um drög sem eru komin til þingsins. Ekki efast ég eina stund um að margt er gott sem þar kemur fram. En samt er það svo að frumvarpið verður umdeildara eftir því sem lengra líður."

Sagt er að allir menn hafi nokkuð til síns ágætis, og efa ég það ekki. Hitt skilur menn oft að, hvernig málin eru borin fram, mýktin sigrar hörkuna. Hnefinn stöðvar mál og skapar átök og reiði. Það er nýtt að sjá í umræðu um breytingar á stjórnarskrá að tæpur meirihluti á Alþingi ætli með málið áfram á hnefanum. Það er því fróðlegt að bera saman vinnubrögð Gunnars Thoroddsen og Jóhönnu Sigurðardóttur, en bæði voru í lok forsætisráðherrastarfa sinna með stjórnarskrána efst á dagskrá óskalistans. Stjórnarskráin er fjöregg þjóðar, hún er leiðsögn og biblía, hana má aldrei brjóta eða skapa um hana hatrammar deilur. Stjórnarskrá á að vera fámál en skýr um aðalatriði.

Íslendingar eignuðust nýja stjórnarskrá árið sem landið varð lýðveldi 1944 og studdu hana 99% kjósenda. Sú stjórnarskrá hefur reynst vel þó vilji og full ástæða sé til að endurskoða nokkur atriði enn sem eðlilegt er í tímans rás. Stjórnarskráin var Gunnari heilagur sáttmáli, hann vann að endurskoðun hennar með mönnum úr öllum flokkum, var sjálfur formaður stjórnarskrárnefndarinnar og trúði því að hann næði að láta kjósa um breytingarnar 1983. Nokkrir nefndarmanna eru enn lífs og á góðum aldri, svo sem Ólafur Ragnar Grímsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Ragnar Arnalds, Matthías Bjarnason, Sigurður Gizurarson. Þarna sátu menn á borð við Gylfa Þ. Gíslason og Þórarin Þórarinsson, báðir mikilsvirtir stjórnmálamenn en látnir. Sagt var um glæsileika Gunnars að hann hefði ,,gengið sparibúinn að reiptogi stjórnmálanna“.

Jón Baldvin segir svo í ævisögu sinni

Flokksbróðir Jóhönnu Sigurðardóttur, Jón Baldvin Hannibalsson, minntist vinnubragða Gunnars Thoroddsen í ævisögu sinni, og hversu hann vann sitt starf vel og kunni að vinna með mönnum ólíkra sjónarmiða. Jón Baldvin segir: ,,Doktor Gunnar hélt mönnum hægt og hljóðlega við efnið. Það var auðfundið að hann bjó yfir ótrúlegri þekkingu, ekki bara á stjórnarskránni, sögu hennar og merkingu, heldur nánast allri löggjafarsögu landsins. Stjórnmálasöguna hafði hann á hraðbergi og þekkti út í æsar. Hann kryddaði mál sitt með gamansögum sem einkenndust af fínlegum húmor.“ Svo minnist Jón Baldvin þess hvernig hann bar klæði á vopnin þegar deilur hófust meðal nefndarmannanna. En Gunnar náði aðeins að tala fyrir nýju frv. til stjórnarskipunarlaga. Sumt er orðið að lögum sem hann dreymdi um og komið í stjórnarskrá, annað ekki.

Jóhönnu er reiðin og hnefinn

Nú gerðist það að stjórnlagaráð náði saman um drög sem eru komin til þingsins. Ekki efast ég eina stund um að margt er gott sem þar kemur fram. En samt er það svo að frumvarpið verður umdeildara eftir því sem lengra líður. Stjórnlagaráðsmaðurinn Salvör Nordal, en hún var forseti stjórnlagaráðsins, efast um vinnubrögð og varar við deilum og telur málið ekki í farvegi afgreiðslu eins og það stendur nú. Fræðimannasamfélagið gagnrýnir vinnubrögð og ýmsar hættur sem í frv. séu. Forseti landsins leggur fram bókum í ríkisráði og í nýársávarpi tekur hann nokkra kafla frv. og afhjúpar galla og átakalínur. Telur að verði það að lögum færi hér af stað tilraun um allt annað stjórnkerfi en við höfum búið við og stjórnkerfi sem ætti ekki sinn líka á Vesturlöndum. Svo óttast forsetinn það vald sem standi til að færa forsætisráðherra og forseta. Forsætisráðherra verði fært vald til að ráðskast með alla hina flokkana. Bendir á hvernig málsvarar landsbyggðarkjördæmanna verði á Alþingi aðeins 11 (af 63 þingmönnum). Jóhanna Sigurðardóttir bregst við þessu öllu reið og steytir hnefann og segir málið muni keyrt áfram og um það kosið í vor.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, er helmingi reiðari og varðar ekkert um gallana og átakalínurnar. Steingrímur J. Sigfússon gæti tekið í taumana, hann veit betur, trúi að Ögmundur Jónasson rísi gegn vinnubrögðunum. Þorvaldur Gylfason, prófessorinn af stjórnlagaþingi, segir of seint að gera athugasemdir. Þorvaldur rær nú einn á báti á móti flestöllum prófessorum háskólanna. Venja þingsins er samt sú að mál sem komið er í gegnum fyrstu umræðu er enn á byrjunarstigi, tekur breytingum í nefndinni eftir umsagnir og umræður sem enn eru af skornum skammti.

Forseti Alþingis stöðvar ráðherravaldið

Eins og stjórnlagafrumvarpið er nú búið í átök eftir þessar hremmingar sem það er komið í hefði það samkvæmt venju um mikilvæg mál verið saltað fram yfir kosningar. Ein leið er reyndar fær sem væri Jóhönnu til heiðurs, að afgreiða þá þætti sem samstaða er um. Forseti Alþingis hefði á hverjum tíma talið ófært að taka það til annarrar umræðu með deilum um allt þjóðfélagið á þeim stutta tíma sem eftir er. Það verður því að treysta því að nýr þingvilji komi fram sem svæfir málið í þessum búningi, og það bíði nýs þings. Forseti Alþingis á hverjum tíma lætur sér annt um stjórnarskrána, þannig er Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta farið. Forseti Alþingis hlýtur að kalla á sátt um málið í forsætisnefnd og meðal þingflokksformanna. Hún getur ekki látið framkvæmdavaldið kollvarpa gömlum og góðum siðum Alþingis. Aðeins eitt er í stöðunni, að fara að eins og Gunnar Thoroddsen gerði að viðurkenna að málið er fallið á tíma.

Höfundur er fyrrv. alþm. og ráðherra.

Höf.: Guðna Ágústsson