[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norska knattspyrnufélagið Sarpsborg hefur gert Eyjamönnum tilboð í miðjumanninn Þórarin Inga Valdimarsson . Óskar Örn Ólafsson formaður knattspyrnudeildar ÍBV sagði þetta við Fótbolta.net í gær og sagði að Norðmönnunum yrði svarað á mánudag.

Norska knattspyrnufélagið Sarpsborg hefur gert Eyjamönnum tilboð í miðjumanninn Þórarin Inga Valdimarsson . Óskar Örn Ólafsson formaður knattspyrnudeildar ÍBV sagði þetta við Fótbolta.net í gær og sagði að Norðmönnunum yrði svarað á mánudag. Sarpsborg er nýliði í norsku úrvalsdeildinni en Haraldur Björnsson ver mark liðsins og félagið keypti Guðmund Þórarinsson af ÍBV fyrr í vetur.

Stefán Ragnar Guðlaugsson , fyrirliði Selfyssinga í knattspyrnunni, skrifaði í gær undir samning við Valsmenn um að leika með þeim á komandi keppnistímabili. Eins og fram kom í gær er Stefán á leið til reynslu hjá norska úrvalsdeildarliðinu Hönefoss í næstu viku. Í fréttatilkynningu frá Val sagði að ef norska félagið semdi ekki við Stefán mundi hann leika með Valsmönnum í sumar.

Alfreð Gíslason , þjálfari Evrópu- og Þýskalandsmeistara Kiel, hefur fundið arftaka Thierry Omeyers í markinu hjá sínu liði því í gær var tilkynnt að Johan Sjöstrand hefði samið við Kiel um að ganga til liðs við félagið í sumar. Sjöstrand er 25 ára gamall Svíi og leikur með AaB í Danmörku til loka þessa tímabils en hann semur við Kiel til þriggja ára. Omeyer fer til Montpellier í sumar en fyrir er hjá Kiel annar sænskur landsliðsmarkvörður, Andreas Palicka. Þeir landarnir munu því slást um stöðuna hjá meisturunum næstu árin. Sjöstrand hefur áður leikið í Þýskalandi því hann spilaði um skeið með Flensburg en fór þaðan til Barcelona og lék þar í tvö ár.

Sergio Ramos , varnarmaður Real Madrid, var í gær úrskurðaður í fimm leikja bann af aganefnd spænska knattspyrnusambandsins. Ramos fékk rauða spjaldið í bikarleik gegn Celta Vigo, eftir að hafa fengið tvívegis að líta það gula, en orðbragð hans við dómarann þegar hann gekk af velli var á þann veg að refsingin varð eins þung og raun bar vitni.

Valsmenn sigruðu ÍR 4:1 í fyrsta leik Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu í Egilshöllinni í gærkvöld. Rúnar Már Sigurjónsson og Kolbeinn Kárason gerðu tvö mörk hvor. Þeir Fjalar Þorgeirsson, Björgólfur Takefusa, Sigurður Egill Lárusson, Magnús Már Lúðvíksson og Arnar Sveinn Geirsson voru allir í byrjunarliði Vals en þeir hafa allir bæst í hópinn þar frá því í fyrra.