Danski hornamaðurinn Hans Óttar Lindberg, sem er eins og flestum er orðið kunnugt af íslensku bergi brotinn, er líklegur til afreka á HM á Spáni. Lindberg er líklega besti hægri hornamaður í heimi en hann hefur verið lykilmaður í liði Dana undanfarin ár og er markahæstur í þýsku 1. deildinni með 146 mörk í 19 leikjum.
Íslendingar þurfa glíma við Hans í riðlakeppninni þar sem liðið mætir Danmörku en hornamaðurinn er hæstánægður með frammistöðu sína hjá Hamburg í Þýskalandi það sem af er tímabili.
„Ég hef staðið mig vel og árangurinn er langt fram úr björtustu vonum þótt ég segi sjálfur frá. Mér líður vel og ég er viss um að ég hef upp á mikið að bjóða fyrir landsliðið á HM,“ segir Hans Óttar sem er þó með frábæran varamann fyrir aftan sig, Lasse Svan Hansen.
Lasse Svan, sem hóf að leika með Dönum 2003, er staðráðinn í að nýta tækifærið fái hann það á HM á Spáni. „Ég er mjög metnaðargjarn og tel mig vera hæfileikaríkan hornamann. Ég verð tilbúinn þegar ég fæ mitt tækifæri,“ segir Lasse Svan í viðtali við hbold.dk.
Giftur og í nýju húsi
Það verður þó erfitt fyrir hann að slá út Hans Lindberg sem hefur getað slakað á utan vallar á þessari leiktíð eftir annasama tíma í einkalífinu á síðasta tímabili.„Það er mun minna að gera hjá mér núna. Í fyrra var ég að gifta mig og byggja nýtt hús. Ég myndi ekki segja að það hafi gert mig kraftlausari inni á vellinum en þessir hlutir tóku sinn tíma og vel þurfti að hlúa að þeim. En nú er ég giftur og bý í nýju húsi þannig að ég nýt bara lífsins og einbeiti mér að handboltanum,“ segir Hans Óttar Lindberg. tomas@mbl.is