Geir Þórðarson fæddist í Kaupmannahöfn 15. nóvember 1926. Hann lést á heimili sínu föstudaginn 4. janúar síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Ragnar Erlingsson, f. 26. desember 1903 á Stóru-Drageyri Borgarfirði og Ásta Þórðardóttir, f. 22. ágúst 1901 að Klöpp á Stokkseyri. Geir ólst upp hjá móður sinni. Systkini hans samfeðra eru: Hanna Ragnarsdóttir, f. 26. nóvember 1929, d. 28. maí 2008, Guðbjörg Hulda Ragnarsdóttir, f. 12. mars 1930, d. 12. júlí 2012, Kolbrún Ragnarsdóttir, f. 6. september 1942, Þórarinn Ragnarsson, f. 27. nóvember 1945.
Í júní 1949 giftist Geir Jónasínu Jónsdóttur, f. 23. ágúst 1926, d. 23. maí 2011. Foreldrar hennar voru Jón Pálmi Jónsson frá Hliði á Álftanesi, f. 19. október 1892, d. 10. september 1988, og Guðlaug Daníelsdóttir frá Stóra-Bóli í A-Skaftafellssýslu, f. 16. mars 1891, d. 2. janúar 1984. Þau eignuðust þrjá syni, þeir eru: 1) Þór Geirsson, f. 3. sept. 1952, maki Dagbjört Berglind Hermannsdóttir. Þeirra börn eru: Guðný Jóna Þórsdóttir, f. 27. mars 1976, maki Sigurður Rúnar Samúelsson, f. 11.1.1973, þeirra börn eru Sunna Björg Sigurðardóttir, 18. mars 2007 og Telma Björg Sigurðardóttir, f. 17. desember 2009. Áður átti Guðný Birtu Björgu Alexandersdóttur, f. 28. júlí 2000 með Alexander F. Kristinssyni. Hermann Geir Þórsson, f. 6. júlí 1979, maki Freydís Bjarnadóttir, f. 21. janúar 1982, þeirra börn eru Breki Þór Hermannsson, 20. mars 2003, Gabríel Ómar Hermannsson, f. 26. ágúst 2004 og Heikir Darri Hermannsson, 23. júlí 2009. Þóra Lind Þórsdóttir, f. 2. febrúar 1984. Áður átti Þór Ásthildi Dóru Þórsdóttur, f. 13. janúar 1974, með Bryndísi Kvaran. Maki Ásthildar er Kristófer Skúli Sigurgeirsson, þeirra börn eru: Helena Sól Kristófersdóttir, f. 12. nóvember 1997 og Örvar Máni Kristófersson, f. 17. september 2003. 2) Örn Geirsson, f. 19. mars 1954, maki Vilborg H. Júlíusdóttir, f. 21. mars 1955, dóttir þeirra er Ingibjörg Helga Arnardóttir, f. 29. júní 1972, maki Högni Björn Ómarsson, f. 2. janúar 1973, dætur þeirra eru Júlía Helga Högnadóttir, f. 19. júní 2002 og María Helga Högnadóttir, f. 26. júlí 2005. 3) Ásgeir Geirsson, f. 19. apríl 1968, maki Ólöf Örvarsdóttir, f. 17. janúar 1968, þeirra börn eru: Tómas Atli Ásgeirsson, f. 20. september 1995, Viktor Örn Ásgeirsson, f. 4. janúar 1998 og Íris Erla Ásgeirsdóttir, f. 25. janúar 2004.
Geir lauk námi í prentmyndasmíði frá Iðnskólanum 1947 og hóf fljótlega nám í bifreiðasmíði og vann við þá iðn til 1954. Á árinu 1958 stofnaði hann Prentmót og vann þar til ársins 1962 þegar hann hóf störf hjá Myndamótum í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og starfaði þar til hann hætti störfum rúmlega sjötugur. Geir sinnti félags- og trúnaðarstörfum fyrir Prentmyndasmíðafélag Íslands á árunum 1960-1972.
Jarðarför Geirs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 11. janúar 2013 kl. 13.
Elsku pabbi og tengdapabbi.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum
þér síðar fylgja' í friðarskaut.
(Vald. Briem.)
Þór og Linda.
Ég var krakki þegar ég hitti Sínu og Geir fyrst, þá var hann í blóma lífsins en ég að æfa íþróttir með Erni syni hans. Daglega lífið var í anda tíðarandans – hefðbundið og án þess að vera hjúpað himnu vanans. Samfylgdin er löng og minningabrotin mörg; við Örn urðum hjón. Geir var fínlegur maður, hægur í háttum og vingjarnlegur, alltaf vel klæddur, best var ef fötin voru keypt í Kaupmannahöfn.
Hann varð seint leiður á að segja frá því að móðir hans, Ásta Þórðardóttir, og móðursystir hans, Inga Þórðardóttir leikkona, hefðu farið ungar til Kaupmannahafnar og stundað nám í kjólasaumi og dvalið í Höfn árum saman og að móðir hans hefði starfað m.a. í 12 ár hjá Magasin du Nord. „Allt var best í Kaupmannahöfn,“ sagði Geir – þar bjó hann til 9 ára aldurs og þangað vildi hann helst ferðast.
Fyrir nokkrum árum var ég á ferð með Geir og Sínu í New York – auðsjáanlegt var að hann var hálffeginn þegar sú reisa var á enda – það fann ég best þegar hann fór að segja mér sögur; af ferðum sínum til Útverka á Skeiðum, víðáttunni miklu í suðri – þaðan sem móðurfólkið hans var ættað, þar skein sól í heiði, þar var stafalogn þegar hann og Grétar frændi hans renndu fyrir fisk í spegilsléttum ósi við Hvítá og þar var ekki endilega „kaffisopinn“ eina fáanlega hressingin á boðstólum.
Geir var sundmaður á sínum yngri árum og það áttum við sameiginlegt að geta spjallað um bjartar minningar frá æsku- og unglingsárasundi en við vorum ekki alltaf samherjar í pólitískri umræðu – þar var hann of nálægt pólitískum skoðunum Moggans í vinnu sinni sem prentmyndasmiður í Myndamótum í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti.
Hin síðustu ár keyrði Geir um á „lávarðardeildargömlum“ Volvo – fór hægt yfir en var duglegur að koma til okkar Arnar – las mikið og fylgdist vel með þjóðmálum. Myndin af fínlegum myndarlegum gömlum manni, sjálfstæðum, einum á báti, fullþroska, viljaþrekið þverrandi en ótrúlega æðrulausum er ofarlega í huga mér. Geir var mér góður og fyrir það er ég þakklát.
Allt hið liðna er ljúft að geyma, sagði Jóhannes úr Kötlum og bætir við: sólskinsdögum síst má gleyma – segðu engum manni hitt. Eftir góu hefst einmánuður og svo kemur apríl og birtan fær yfirhöndina. Með þessum orðum kveð ég tengdaföður minn og bið algóðan guð að taka hann í faðm sér.
Vilborg.
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði er frá.
Nú héðan lík skal hefja,
ei hér má lengur tefja
í dauðans dimmum val.
Úr inni harms og hryggða
til helgra ljóssins byggða
far vel í Guðs þíns gleðisal.
(Vald. Briem.)
Guðný, Hermann, Þóra
og barnabarnabörn.
Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,
hnígur að Ægi gullið röðulblys.
Vanga minn strýkur blærinn blíðri hönd,
og báran kveður vögguljóð við
fjarðarströnd.
Ég er þreyttur, ég er þreyttur,
og ég þrái svefnsins fró. –
Kom, draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.
Syngdu mig í svefninn, ljúfi blær.
Sorgmæddu hjarta er hvíldin jafnan vær.
Draumgyðjan ljúfa, ljá mér vin arhönd,
og leið mig um þín töfraglæstu
friðarlönd.
Ég er þreyttur, ég er þreyttur,
og ég þrái svefnsins fró.–
Kom draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.
(Jón frá Ljárskógum.)
Hvíldu í friði, elsku afi Geir.
Ingibjörg Helga
Arnardóttir.
Vertu sæll, kæri vinur, ég þakka þér öll þessi ár. Sonum og fjölskyldum sendi ég samúðarkveðjur.
Páll Vígkonarson.