Öflugur Kiril Lazarov er lykilmaður í liði Makedóníu, enda er hann talinn vera ein besta skytta heims í handboltanum.
Öflugur Kiril Lazarov er lykilmaður í liði Makedóníu, enda er hann talinn vera ein besta skytta heims í handboltanum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MAKEDÓNÍA Ívar Benediktsson iben@mbl.is Makedónía, eitt lýðvelda fyrrverandi Júgóslavíu, hefur verið að færa sig hægt og bítandi upp á handboltaskaftið síðustu árin.

MAKEDÓNÍA

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Makedónía, eitt lýðvelda fyrrverandi Júgóslavíu, hefur verið að færa sig hægt og bítandi upp á handboltaskaftið síðustu árin. Makedóníumönnum skýtur sífellt ofar í lokakeppni stórmóta og hægt og bítandi hefur árangur þeirra farið batnandi. Þeir höfnuðu í fimmta sæti á Evrópumeistaramótinu í Serbíu fyrir ári. Þá þóttu þeir koma á óvart og reyndust mörgum „stærri“ handboltaþjóðum óþægur ljár í þúfu.

Makedóníumenn nutu þess ríkulega að leika svo að segja á heimavelli í hverjum leik keppninnar í Serbíu. Vegna þess hversu stutt er á milli Makedóníu og Serbíu flykktust þúsundir Makedóníumanna yfir til Serbíu og hálffylltu keppnishallirnar og studduu hressilega við bakið á sínum mönnum. Engu var líkara en Makedóníumenn lékju á heimavelli í hverjum leik. Þessi mikli stuðningur hafði sitt að segja og hvatti leikmenn til dáða.

Lazarov leikur stórt hlutverk

Lykillinn að bættum árangri landsliðs Makedóníu á síðustu árum er án efa sú staðreynd að Makedóníumenn eiga eina helstu og bestu skyttu heimsins, Kiril Lazarov, sem keyptur var til Ciudad Real þegar Ólafur Stefánsson yfirgaf spænska liðið fyrir fáeinum árum. Lazarov er afar öflugur og er illviðráðanlegur. Hann varð markahæsti leikmaður heimsmeistarakeppninnar fyrir fjórum árum. Á EM í fyrra endurtók hann leikinn og sló m.a. markamet Ólafs Stefánssonar frá EM 2002 í Svíþjóð. Enginn handknattleiksmaður hefur skorað fleiri mörk á heimsmeistaramóti en Lazarov gerði á HM í Króatíu fyrir fjórum árum, 92 mörk í níu leikjum, 26 mörkum meira en næsti maður á eftir.

Leikur Makedóníumanna byggist í kringum Lazarov og sé hann tekinn úr umferð leika félagar hans lausum hala. Þá kemur vel í ljós að þeir eru engin lömb að leika við. Þá eiga Makedóníumenn góða markverði sem enginn skyldi vanmeta. Á því fengu Slóvenar m.a. að kenna í leiknum um 5. sætið á títtnefndu Evrópumeistaramóti í Serbíu fyrir ári.

Uppistaðan í landsliði Makedóníu er úr Metalurg Skopje og Vardar. Þetta eru tvö hörkusterk atvinnumannalið sem hafa gert sig metandi í Meistaradeild Evrópu á síðustu árum eftir að talsvert af peningum kom í handknattleikinn í þessu annars fátæka og smáa ríki á Balkanskaganum.

Öflugur á vinstri vængnum

Helsta kempa Metalurg-liðsins, Naumce Mojsovski, er rétthent skytta sem er ætlað að halda uppi fjörinu á vinstri vængnum í sókninni á meðan Lazarov beitir sinni ógnvænlegu fallbyssu á hægri vængnum.

Sökum þess hversu margir leikmenn landsliðs Makedóníu eru úr sama félagsliðinu er landsliðið vel samæft. Leikmenn standa þétt saman þegar vel gengur. Hins vegar vill gleðin víkja fljótt ef halla tekur undan fæti.

Fáir stuðningsmenn

Eins og fyrr segir voru Makedóníumenn sterkir á EM í fyrra þegar þeir voru nánast á heimavelli. Nú má fastlega búast við að stuðningsmenn stormi ekki í þúsundavís til Sevilla á Spáni til að styðja við bakið á landsliði sínu. Það hefur sýnt sig að þegar Makedóníumenn leika á útivelli, fjarri heimavígstöðvum, eru þeir langt frá því að vera eins sterkir.

Þegar Makedóníumenn og Íslendingar leiða saman hesta sína í Sevilla 15. janúar hafa þeir fyrrnefndu væntanlega tryggt sér tvo sigra því þeir hefja keppnina á leikjum við Síle og Katar. Makedóníumenn munu því mæta fullir sjálfstrausts gegn Íslendingum, staðráðnir í að vinna og freista þess að ná öðru af tveimur efstu sætum riðilsins, sem er örugglega þeirra markmið.