Haukur Karl Ingimarsson fæddist á Akureyri 9.7. 1927. Hann lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 4. janúar 2013. Foreldrar hans voru Rósa Kristjánsdóttir, f. 11.2. 1904, d. 30.4. 1991 og Ingimar Sigurjónsson, f. 15.11. 1903, d. 8.2. 1984. Haukur Karl var ókvæntur og barnlaus. Systkini Hauks voru Sigþór Ingimarsson, f. 1925, d. 1948, Sigrún Ingimarsdóttir, f. 1928, d. 1946, Geir Örn Ingimarsson, f. 1930, Alda Ingimarsdóttir, f. 1930, Óskar Ingimarsson, f. 1934, Ásta Dúna Jakobsdóttir, f.1944 og Sigurður Rúnar Jakobsson, f. 1946. Haukur Karl verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, 11. janúar 2013 kl. 10.30.
Mig langar að minnast Hauks frænda míns sem við kveðjum í dag og þakka fyrir samfylgdina. Hann var ákaflega glaðvær, hjartahlýr og gjafmildur maður og vildi allt fyrir alla gera. Hann var ákaflega gestrisinn og hafði gaman af að fá fólk í heimsókn og var alltaf að bjóða fólki einhverjar veitingar þó það væri ekki nema röndóttur moli. Haukur bjó hjá ömmu Rósu og afa Jakob í Mýrinni þangað til þau kvöddu þennan heim og eftir það bjó hann hjá Óskari bróður sínum til dauðadags.
Í dag nýt ég minningar þessa góða fólks á hverjum degi vegna þess að ég bý með fjölskyldu minni í húsinu sem afi Jakob og Haukur frændi byggðu en þar vörðu þeir ásamt ömmu Rósu mestum hluta ævi sinnar. Haukur frændi átti aldrei konu og engin börn en við frændsystkinin getum eflaust öll vottað það að hann hugsaði um okkur öll eins og við værum börnin hans. Í æsku fór ég um hverja helgi í bíltúra með ömmu og Hauki á Skodanum hans, við fórum niður í Bót að skoða bátana en Haukur frændi átti þar trillu sem hann sigldi á um Pollinn á góðviðrisdögum, svo keyptum við kók í gleri og pylsu. Í minningunni ómaði húsið af tónlist því Haukur frændi var oft að æfa sig á harmonikkuna, hann var mjög fær harmonikkuspilari án þess að lesa nótur, hann átti margar fallegar harmonikkur, bæði stórar og smáar, sem voru skreyttar gulli og gimsteinum. Hér á árum áður spilaði hann mikið á böllum en í seinni tíð spilaði hann mikið fyrir heldri borgara í Víðilundi.
Ég trúi því að Hauki frænda hafi fundist sinn tími vera kominn og að hann hafi kvatt okkur sáttur við guð og menn. Við munum sakna hans sárt, sérstaklega foreldrar mínir sem nutu samvista með honum á hverjum degi nú síðustu ár, en þangað gekk hann morgungönguna sína og drakk með þeim kaffi.
Blessuð sé minning hans.
Þín frænka,
Fanney Jónsdóttir.