Erla Karelsdóttir fæddist í Borgarnesi 24. október 1951. Hún lést á dvalarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði 3. janúar 2013.

Foreldrar: Guðný Halldórsdóttir, húsmóðir og saumakona, fædd 17. apríl 1915, lést 20. feb. 2000, og Karel G. Einarsson bifvélavirki, fæddur 17. júní 1913, lést 5. nóv 1989.

Eiginmaður: Jón Hartmann flugvirki, fæddist 18. ágúst 1949 í Reykjavík. Systkini Erlu: Halldór f. 1940, Sigurást f. 1942, Anna, f. 1943, Gígja, f. 1945 og Einar Örn, f. 1948. Börn Erlu og Jóns: Jóhanna Katrín, fædd 1976, unnusti Árni Brynjólfsson, eiga saman tvö börn, Önnu Dís, f. 2000 og Söru Sif, f. 2006; Guðný Karen Jónsdóttir, f. 1978, gift Stefáni Stefánssyni, eiga saman þrjú börn, Stefán, f. 2004, Erlu Kristínu, f. 2006 og Daníel Kára, f. 2011; Jón Birgir Jónsson, fæddur 1986.

Útför Erlu fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 11. janúar 2013 kl. 13.

Mamma, elsku mamma,

man ég augun þín,

í þeim las ég alla

elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,

man ég þína hönd,

bar hún mig og benti

björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,

man ég brosið þitt;

gengu hlýir geislar

gegnum hjarta mitt.

Mamma, elsku mamma,

mér í huga skín,

bjarmi þinna bæna,

blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,

man ég lengst og best,

hjartað blíða, heita –

hjarta, er sakna ég mest.

(Sumarliði Halldórsson.)

Elskuleg mamma, tengdamamma og amma okkar er fallin frá.

Minningarnar eru allar góðar og yndislegar; ógleymanleg æskan í Noregi þar sem fjölskyldan fór oft í styttri ferðir niður að strönd, göngutúra út í skóg eða lengri ferðir í græna húsbílnum okkar eða „rúgbrauðinu“. Svo fluttum við aftur heim til Íslands þar sem var farið í að byggja hús á besta stað á Álftanesinu. Þar var stutt að fara að hitta skólafélagana og stöðugur gestagangur nágranna, vina og ættingja. Seinna fluttumst við svo í Garðabæinn þar sem enn var ráðist í húsbyggingar og þegar við krakkarnir fórum að flytjast að heiman fluttu foreldrar mínir aftur á upphafsreit, í Hafnarfjörðinn.

Það var alltaf nóg að gera hjá mömmu, hún byrjaði m.a. með snyrtivörukynningar í Noregi, opnaði svo nokkrar snyrtivöruverslanir eftir að við fluttumst heim til Íslands og einnig stofnuðu hún og systur hennar veitingastað á æskuslóðum þeirra í Borgarnesi þar sem var yndislegt að eyða sumrunum og hjálpa til við afgreiðslu og baka pitsur.

Móðir mín var alltaf glaðlynd og jákvæð og henni leið best umkringd fjölskyldu og vinum. Hún elskaði að ferðast innanlands sem utan og naut sín vel úti í náttúrunni. Hún var óþreytandi að fara með barnabörnunum í göngutúra í Heiðmörk, fara að Hvaleyrarvatni að vaða eða á ströndina við Nauthólsvík, helst með teppi og nesti í körfu.

Betri mömmu eða ömmu hefðum við ekki geta óskað okkur og erum þakklát fyrir þær mikilvægu stundir fjölskyldunnar sem við gátum upplifað með henni. T.d. þegar við hjónin vorum gefin saman og mamma lánaði mér fallega brúðarkjólinn sem hún sjálf hafði notað 33 árum áður, og við skírnarveislur barnanna okkar þriggja, en móðir mín hélt á dóttur okkar undir skírn og var svo glöð að eignast nöfnu. Erla er líka ótrúlega stolt af nafninu sínu og líkist ömmu sinni mikið í ákveðni, glaðværð og prakkaraskap.

Þó móðir mín væri orðin veik og háð hjólastól undir lokin sökum illvígs taugahrörnunarsjúkdóms hætti hún aldrei að vera mamma eða amma; gefa ráð, hrósa krökkunum og fylgdist vel með því sem dreif á daga fjölskyldunnar. Það birti alltaf yfir mömmu þegar hún sá barnabörnin koma í heimsókn og færðist bros yfir andlitið þegar hún heyrði af nýjustu uppátækjum yngsta fjölskyldumeðlimsins.

Það var okkur dýrmætt síðastliðin jól að mamma gat komið til okkar og átt með okkur yndislega stund í faðmi fjölskyldunnar. Barnabörnin sakna ömmu sinnar mikið en vita að hún er komin á betri stað hjá englunum núna og líður vel í faðmi góðra vina og ættingja.

Hvíl í friði, við elskum þig.

Guðný Karen, Stefán,

Stefán yngri, Erla Kristín

og Daníel Kári.

Með söknuði og trega kveðjum við þig elsku systir. Loksins fékkst þú hvíldina. Þú varst búin að þjást í mörg ár, en alltaf stóðst þú upp. Og með bjartsýni og miklum vilja fórstu í gegnum lífið með glaðværð, hvar sem þú komst.

Oft var mikið hlegið og gaman var að vera nálægt þér þegar við fórum í sumarbústað eða ferðuðumst saman út í náttúruna með nesti í stuttar ferðir. En svo varstu orðin svo veik síðasta árið að þú komst ekki lengur með okkur. Hvíl í friði kæra systir, minningarnar lifa.

Við sendum eiginmanni hennar, börnum og barnabörnum samúðarkveðjur.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Gígja og Sigurást (Sísí).

Þegar nóttin kemur

taktu henni feginshugar.

Hún mun loka hurðinni

að baki deginum

og lyfta byrði hans

af herðum þínum.

Hún, sem geymir fortíðina

og safnar óskunum,

mun vita

hvert skal leiða þig

og vídd hennar er önnur.

(Þóra Jónsdóttir)

Samúðarkveðjur til fjölskyldu Erlu.

Steinunn og Jón Páll.