Landsþing Sveitarstjórnarfulltrúar alls staðar af landinu komu saman til fundar á Grand hóteli til að ræða þau mál sem eru í deiglunni á sveitarstjórnarsviðinu, samvinnu sveitarfélaga og stefnumótun til framtíðar á þeim vettvangi.
Landsþing Sveitarstjórnarfulltrúar alls staðar af landinu komu saman til fundar á Grand hóteli til að ræða þau mál sem eru í deiglunni á sveitarstjórnarsviðinu, samvinnu sveitarfélaga og stefnumótun til framtíðar á þeim vettvangi. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is „Það er eindregin afstaða sambandsins að það henti ekki nútíma skólastarfi að skipulag vinnu starfsmanna sé ákveðið í smáatriðum í miðlægum kjarasamningi eins og nú er.

Fréttaskýring

Ingvar P. Guðbjörnsson

ipg@mbl.is

„Það er eindregin afstaða sambandsins að það henti ekki nútíma skólastarfi að skipulag vinnu starfsmanna sé ákveðið í smáatriðum í miðlægum kjarasamningi eins og nú er. Kjarasamningurinn á að styðja skólastarf en ekki stjórna því. Markmið sambandsins stefna í þá átt að auka sveigjanleika vinnutímakaflans og færa daglegt skipulag og stjórn skólanna heim á vettvang þeirra,“ sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, við setningu landsþings sambandsins í gær á Grand hóteli.

„Sambandið telur að það sé hvorki raunhæft né æskilegt að draga frekar úr kennsluskyldu kennara. Þvert á móti verði að leggja áherslu á að kennslan er meginþátturinn í starfi hvers kennara. Breytinga er þörf og ég vil lýsa yfir ánægju með að ákveðinn samhljómur var með því sem formaður Félags grunnskólakennara sagði um mikilvægi endurskoðunar kennarastarfsins og þess sem við höfum lagt áherslu á,“ sagði Halldór.

Claus Ørum Mogensen, skrifstofustjóri fjármáladeildar sambands sveitarfélaga í Danmörku, ávarpaði þingið og fór yfir þá vinnu sem þar er unnin varðandi endurskipulagningu skólastarfs. Of margir koma ólæsir úr skóla í Danmörku og þar er samstaða við ríkið um að lengja kennslutíma og efla grunnfög á borð við dönsku og stærðfræði. Fram kom í máli hans að kennarasambandið væri þó ekki að fullu sátt við þær hugmyndir.

Yfirfærslan fagleg og tekist vel

Hann segir markmið með yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaga hafa verið faglega og einnig gerða til þess að fjárhagsleg ábyrgð yrði samþætt og á einni hendi í málaflokknum sem og að stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa ásamt því að efla félagsþjónustu sveitarfélaga.

„Miðað við stöðu málsins í dag get ég leyft mér að fullyrða að þessi tilfærsla hefur tekist vel. Það er mat flestra. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa t.d. lýst ánægju sinn með yfirfærsluna í heild sinni þó alltaf megi gera betur,“ sagði Halldór.

Hann ræddi einnig viðræður við ríkisvaldið um yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaga og sagði þar enn langt í land.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra ávarpaði þingið og sagði að í dag væri um þriðjungur opinbers rekstrar á vegum sveitarfélaga en að með tilfærslu á málefnum aldraðra yrði það um 50%.

BREYTT SKÓLASTARF

Hugmyndum fálega tekið

„Það er athyglisvert að heyra um samstöðu ríkis og sveitarfélaga í Danmörku í þeirri deilu sem þar á sér stað um vinnutímaskilgreiningu kennarastarfsins,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, í ávarpi sínu á þinginu og sagði markmið með breyttu skólastarfi að bæta skólana. „En á meðan fullkomin samstaða ríkir milli ríkis og sveitarfélaga í þessu máli í Danmörku, hvernig er staðan hér á landi? Öllum hugmyndum okkar um breytingar í skólakerfinu er fálega tekið af ráðuneytinu. Og það gildir ekki eingöngu um skólana heldur í mörgum öðrum málaflokkum þar sem svo virðist að ríkisvaldið vilji vera eitt í liðinu.“

Verði kjörnir beint en ekki valdir

„Lykilþátturinn er sá að það er samstaða meðal sveitarfélaga um að nærþjónusta eigi öll heima hjá sveitarfélögum og það sé þörf á enn frekari verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi°, sem segir núverandi skipulag sveitarstjórnarstigsins ekki bjóða upp á það vegna fjölda sveitarfélaga og fámennis í sumum sem séu því ekki fær um að taka við málaflokkum. Hann kallar á að samstarfsvettvangur sveitarfélaga fái lagaumgjörð og að pólitískir stjórnendur á þeim vettvangi séu kjörnir í beinni kosningu en ekki valdir líkt og nú. ipg@mbl.is