Velferðarráðherra vill síður ræða þróun atvinnumála á kjörtímabilinu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra svaraði fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um fækkun starfa á kjörtímabilinu aðallega með því að ekki væru til nægilega sundurliðaðar upplýsingar til að hægt væri að svara spurningunum. Guðbjartur hefur án efa talið sig eiga stórleik með þessu „svari“ og þótt hann snúa á fyrirspyrjandann.

Svar Guðbjarts sýndi þó aðallega fram á áhugaleysi ráðherrans á vandanum og skilningsleysi stjórnvalda á því hve illa hefur tekist til og hve vandinn er mikill. Stjórnvöld hafa ekki einu sinni áhuga á að reyna að reikna út hver vandinn er á einstökum hlutum vinnumarkaðarins, hvað þá að þau sýni vilja til að fást við vandann.

Skortur á vilja stjórnvalda til að veita upplýsingar um ástand atvinnumála hindrar almenning þó ekki í að kynna sér málin. Á vef Hagstofunnar má til að mynda finna sláandi tölur um algeran skort á árangri í atvinnumálum á þessu kjörtímabili.

Þannig má sjá að þeim sem eru starfandi hér á landi hefur fækkað um vel á þriðja þúsund á þeim fjórum árum sem liðin eru frá því ríkisstjórnin tók við. Þeim sem eru utan vinnumarkaðar hefur fjölgað um ríflega þrjú þúsund og vinnuafl hefur dregist saman um hátt í tvö þúsund einstaklinga. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um hátt í tvö þúsund manns þó að yfir sex þúsund Íslendingar hafi flutt af landi brott umfram þá sem hafa snúið aftur heim.

Þessar einföldu staðreyndir segja meira en mörg orð og mun meira en þögn hins svokallaða velferðarráðherra þó að hún sé að vísu æpandi. Þessar tölur sýna svart á hvítu að árangurinn af því þrotlausa starfi sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hreykja sér iðulega af er enginn. Og hann er raunar miklu minni en enginn.

Nú mundu forystumenn stjórnarflokkanna sjálfsagt segja það sama og jafnan: En hér varð hrun. Vandinn við það úr sér gengna svar er þó einmitt að það er úr sér gengið og hefur verið lengi.

Enginn efast um að hér varð áfall í efnahags- og atvinnulífi en jafn augljóst er að eftir það opnuðust mikil tækifæri fyrir Ísland til að ná vopnum sínum á ný og snúa vörn í sókn. Stjórnarflokkarnir náðu hins vegar saman um að gera ekkert sem að gagni mætti verða en hækka þess í stað skatta úr öllu hófi, sækja um aðild að ESB og reyna að hengja Icesave á þjóðina. Afleiðingarnar sjást í tölum um verra ástand á vinnumarkaði eftir kjörtímabil hinna glötuðu tækifæra og töpuðu starfa.