[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú hugmynd um málnotkun, að stíllinn sé maðurinn, er ævaforn.

Allir kennarar þekkja af eigin reynslu að það ber ekki mikinn árangur í kennslustund að hækka röddina, kalla eða öskra. Nemendur taka ekkert mark á slíku og hækka sig bara líka og úr verður kennslustund hrópa og kalla. Miklu árangursríkara er að tala sínu eigin eðlilega máli; líklegt er að nemendur geri það þá einnig.

Þeir sem þekkja til hænsnabúskapar kannast við það er haninn rífur sig upp á annan fót sinn, þenur sig og blakar stuttum vængjum og tekur til við að gala, væntanlega um eigið ágæti en lítilmót allra hinna. Ekki er ólíklegt að hann sé að stofna nýjan stjórnmálaflokk. En haninn fær engin fimm prósent og kemst ekki á þing. Hænurnar líta undan og halda áfram lágmæltu skrafi sínu um egg og uppeldi unganna. Stóryrði hanans fjúka út í loftið og deyja út.

Árið 1980 kom út ljóðabókin Heimkynni við sjó eftir Hannes Pétursson. Í henni er að finna eftirfarandi ljóð:

Lágmælt orð

ljóðsins, þau troðast undir

í styrjöldum – einnig

í stórkarlalegu þusi

upplausnartíma þegar dagarnir

eru á dreif eins og fjúkandi hey.

Lágmælt orð

ljóðsins.

En þau gróa

aftur í sviðinni jörð

járns og stóryrða.

Hannes Pétursson hittir naglann á höfuðið. Orðin eru ekki óháð tíma og rúmi og breytast eftir því hvernig vindarnir blása. Tímar hamfara og upplausnar leiða til stóryrða; hið lágmælta treðst undir.

Ljóð Hannesar minnir okkur á að við lifum nú skeið hamfara og upplausnar, hamfarir í heiminum, upplausn samfélaga, ekki síst okkar eigin. Ljóst er að þetta ástand hefur skilað sér með ískyggilegum hætti í málnotkun landsmanna. Til dæmis þykir það ekki tiltökumál að grípa til skamma og svívirðinga um ágætt fólk, jafnvel á opinberum fundum. Séu fésbókarskrif skoðuð og blogg landsmanna má sjá að margir láta þar eins og naut í flagi, mannýgt, blótandi, rótandi upp jörðinni – og ber þó nautið mjög af. Sú skoðun virðist búa þar að baki að það sé augljóst merki umbótavilja og framfarastefnu að blása sig út og sóða yfir einstaklinga fúkyrðum af ýmissi gerð. Sumir munu kalla slíkt dirfsku, jafnvel karlmannleg tilþrif, og sjá í því hetjulega framgöngu.

Sú hugmynd um málnotkun, að stíllinn sé maðurinn, er ævaforn. Stíllinn er maðurinn merkir að við þekkjumst best á því hvernig við högum máli okkar. Ágætur íslenskur málsháttur forn segir sömu merkingar: Af máli má manninn þekkja. Önnur hugmynd um manninn hefur sigrað. Það virðist orðin viðtekin skoðun að fötin séu maðurinn, bíllinn, húsin, hönnunarvaran; allt það sem mennirnir telja sig skreyta sig með, ekki síst hið áþreifanlega. Allt það er ekki við , allt slíkt er til að sýnast við.

Málfar okkar er við . Standist þessi hugmynd um manninn er töluverð ástæða til að staldra við og íhuga stöðu okkar: Hvernig beiti ég tungunni? Hvað segir það um mig?

Þórður Helgason thhelga@hi.is

Höf.: Þórður Helgason thhelga@hi.is