Valgerður Freyja Friðriksdóttir var fædd á Hánefsstöðum í Svarfaðardal 20. febrúar 1946. Hún andaðist á sjúkrahúsi Akureyrar 10. mars sl. Foreldrar hennar voru Kristbjörg Eiðsdóttir, f. 27. júlí 1913, d. 12. júlí 1991, og Friðrik Sigurðsson, f. 9. desember 1906, d. 4. nóvember 1985.

Systkini Valgerðar eru: Eyvör, f. 26.12. 1936, Sigrún, f. 7.3. 1938, Sigursveinn, f. 18.6. 1940, Eiður, f. 12.12. 1941, Lilja, f. 19.11. 1947, Hafliði H., f. 15.10. 1952.

Valgerður giftist Antoni Þór Baldvinssyni, f. 22.2.1936, þann 30. desember 1967. Börn þeirra eru 1. Elvar f. 11.5. 1967, m. Vala Lárusdóttir, dætur hans eru Elísa og Henný. 2. Vignir Þór f. 30.5.1969, dóttir hans er Jenný. 3. Freydís Baldrún f. 28.7. 1973, m. Sigurður Viðar Heimisson, dóttir þeirra er Alexía Ósk. 4. Friðrikka Björg f. 21.8. 1977, m. Karl Hersteinsson, börn þeirra eru Anton Valur og María Valgerður, dóttir Friðrikku og Gests Hermannssonar er Klara Rut. 5. Eyþór f. 28.1.1980, m. Kristín María Stefánsdóttir, sonur Eyþórs og Sigríðar Þrastardóttur er Aron Elí, sonur Eyþórs og Kristínar er Fannar Ingi. Valgerður og Anton Þór bjuggu mestan sinn búskap á Dalvík.

Útför Valgerðar fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 16. mars 2013, kl. 13.30.

Hún Valgerður, eða Valla eins og hún var oftast kölluð, féll frá langt um aldur fram eftir stutt en erfið veikindi. Margs er að minnast frá þeim tíma er Tóti kynnti Völlu sína fyrir Sælandsfjölskyldunni fyrir hartnær 50 árum og viljum við, mágar og mágkonur, svilar og svilkonur, þakka þér Valla fyrir allar þær ánægjustundir sem við áttum saman gegn um tíðina.

Fyrr á árum þegar börnin okkar voru lítil voru jólaboðin í Engihlíð eða Sælandi, sunnudagskaffið í Sælandi, veiðiferðirnar í Mýrarkvíslina. Og svo allar afmælis- og fermingarveislurnar, að ógleymdum ættarmótunum. Og það var sama hvað þú tókst þér fyrir hendur, þú stóðst þig með sóma, fékkst t.d. titilinn „dúnstjóri“ þegar þið hjónin heimsóttuð Heiðu og Óla út í Flatey á Breiðafirði. Þú varst góð og skemmtileg heim að sækja, bakaðir gott brauð og kættir okkur með þinni glaðlegu nærveru. Hugur þinn stóð fyrst og síðast að umhyggju við hann Tóta þinn og velferð barna ykkar og barnabarna. Nú að leiðarlokum viljum við þakka þér samfylgdina, sem var styttri en við vildum. Kæri bróðir og mágur, börn þín, tengdabörn, barnabörn og aðrir ástvinir, við vottum ykkur innilega samúð.

Dal einn vænan ég veit

verndar Drottinn þann reit

Allt hið besta þar blómgast hann

lætur

þar er loftið svo tært

þar er ljósblikið skært

þar af lynginu er ilmurinn sætur.

Þetta er dalurinn minn hann er

dalurinn þinn

þar í draumunum eigum við sporin

þar er veröld svo góð

þar sem vagga mín stóð

þar er frjálslegt og fagurt á vorin

Hann er töfrandi höll, hann á tignarleg fjöll

þar í laufbrekkum lækirnir hjala

mér er kliður svo kær, ég vil koma honum nær

hann er öndvegi íslenskra dala.

(Hugrún Filipía Kristjánsdóttir.)

Jóhannes og Hulda, Brynjar, Þorvaldur og Ingigerður, Gylfi og Hildur, Zophonías og Margrét, Ragnheiður og Ólafur, Pálína og Njáll, og fjölskyldur.