Toppbarátta Aðalsteinn Eyjólfsson er með lið Eisenach í slagnum um að komast upp í efstu deildina í þýska handboltanum og það á góða möguleika.
Toppbarátta Aðalsteinn Eyjólfsson er með lið Eisenach í slagnum um að komast upp í efstu deildina í þýska handboltanum og það á góða möguleika.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Handboltaþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson er að gera fína hluti með þýska B-deildarliðið Eisenach.

handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Handboltaþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson er að gera fína hluti með þýska B-deildarliðið Eisenach. Liðið er í þriðja sæti af 20 liðum í deildinni og á góða möguleika á að komast í deild þeirra bestu en þrjú efstu liðin vinna sér keppnisréttinn í Bundesligunni.

„Það er búinn að vera fínn gangur í þessu hjá okkur og sérstaklega nú eftir áramótin. Við höfum unnið fimm af síðustu sex leikjum og þetta lítur bara ágætlega út. Þetta er hins vegar jöfn deild og það má lítið út af bera. Við erum í þriðja sætinu og markmiðið er að komast upp. Við vorum nálægt því í fyrra en ætlunin er að taka þetta skref núna,“ sagði Aðalsteinn við Morgunblaðið.

Aðalsteinn er 36 ára gamall og er orðinn býsna reyndur þjálfari þrátt fyrir ungan aldur. Hann hóf þjálfaraferil sinn sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar árið 2000 og varð síðan þjálfari kvennaliðs Gróttu/KR og ÍBV. Aðalsteinn reyndi fyrst fyrir sér erlendis þegar hann var ráðinn þjálfari kvennaliðs Weibern í Þýskalandi árið 2004 en sneri síðan aftur heim ári síðar og tók við þjálfun kvennaliðs Stjörnunnar og var þar til ársins 2008. Hann hélt síðan aftur til Þýskalands og gerðist þjálfari karlaliðs Kassel þar sem hann var við stjórnvölinn í eitt og hálft ár áður en það varð gjaldþrota.

Heppinn að fá tækifæri

„Menn áttu svo sem ekki von á því að Eisenach yrði í toppbaráttunni í vetur og miðað við meiðslin og veikindin sem hafa herjað á hópinn þá er þetta búið að ganga vonum framar,“ sagði Aðalsteinn, sem er samningsbundinn Eisenach til ársins 2014. „Maður er búinn að vera að klífa þennan tröppugang. Fara úr kvennaliði á Íslandi í þessa sterku karladeild. Ég var heppinn að fá tækifæri til að starfa hér í Þýskalandi og stefnan er að vera hérna lengur,“ segir Aðalsteinn en hann er einn fimm þjálfara sem starfa í Þýskalandi. Alfreð Gíslason, Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson eru við stjórnvölinn hjá toppliðum í Bundesligunni og Aðalsteinn og Rúnar Sigtryggsson eru í B-deildinni. „Alfreð ruddi brautina. Þjóðverjarnir eru ekkert sérlega hrifnir af því að fá útlendinga í þjálfarastarfið en vegna góðrar frammistöðu Alfreðs, Guðmundar og Dags er auðveldara fyrir aðra að komast að. Orðspor íslenskra þjálfara verður betra, en til að komast að hér þá er eins gott að vera harður í horn að taka og vera með þýskuna á hreinu,“ sagði Aðalsteinn.

Hannes búinn að sýna ótrúlegan vilja og karakter

Einn Íslendingur spilar undir stjórn Aðalsteins hjá Eisenach en það er Hannes Jón Jónsson. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðið greindist Hannes með krabbameinsæxli í þvagblöðru og gekkst undir aðgerð í október þar sem æxlið var fjarlægt. Hannes var frá keppni í tæpa fjóra mánuði en hann hóf að spila að nýju í byrjun febrúar og hefur komið afar sterkur til leiks þrátt fyrir að vera undir stöðugu eftirliti lækna og hann er enn í lyfjameðferð.

„Hannes er búinn að sýna alveg ótrúlegan vilja og karakter. Það eru ekki margir sem mundu leika þetta eftir sem hann gerir. Ég er gríðarlega stoltur af honum. Miðað við það sem er búið að ganga á hjá honum er þetta ótrúleg frammistaða. Hann hefur verið í vikulegri lyfjameðferð og eftir helgina fer hann í skimun. Vonandi gengur allt vel hjá honum en ef einhverjir skuggar verða komnir aftur á blöðruna verður hann frá í sex vikur. Við skulum rétt vona að svo verði ekki,“ segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn Eyjólfsson
» Aðalsteinn er 36 ára gamall Garðbæingur sem hóf þjálfaraferilinn fyrir 13 árum sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.
» Aðalsteinn hefur þjálfað kvennalið Gróttu/KR, ÍBVStjörnunnar og þýska liðsins Weibern. Hann var ráðinn þjálfari þýska karlaliðsins Kassel árið 2008 en hefur þjálfað karlalið Eisenach frá árinu 2010.