Túnfiskur Hver fiskur getur verið vel yfir 100 kíló á þyngd og veiðin því spennandi glíma.
Túnfiskur Hver fiskur getur verið vel yfir 100 kíló á þyngd og veiðin því spennandi glíma. — Morgunblaðið/Golli
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Heimilt verður að veiða tvö tonn af túnfiski á stöng í sumar eða um 15 fiska eftir þyngd þeirra.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Heimilt verður að veiða tvö tonn af túnfiski á stöng í sumar eða um 15 fiska eftir þyngd þeirra. Í nýrri reglugerð atvinnuvegaráðuneytis er óskað eftir umsóknum áhugasamra um þessar frístundaveiðar á sjóstöng, en Fiskistofa sér um úthlutunina. Málið hefur m.a. verið rætt við Landssamband smábátaeigenda, en um tilraun til eins árs er að ræða.

Með tilrauninni er hugmyndin meðal annars að auka fjölbreytni í möguleikum ferðamanna hér á landi, en veiðar á túnfiski á stöng eru þekktar til dæmis í Kanada og Bandaríkjunum og vinsæl afþreying meðal ferðamanna. Mörgum þykir spennandi að glíma við stóran og sterkan túnfiskinn og ekki sakar að hann þykir einstaklega góður matfiskur. Stangveiðarnar má stunda frá 16. júní til 14. október. Ekki má veiða nema einn túnfisk í hverri veiðiferð.

26 tonn til línuveiða

Af 31 tonns kvóta Íslendinga á Austur-Atlantshafs-bláuggatúnfiski í ár eru tvö tonn tekin til hliðar fyrir stangveiðar, þrjú tonn eru áætluð í óhjákvæmilegan meðafla og 26 tonn fara í línuveiðar. Miðað er við að einn aðili fái leyfi til þeirra veiða og gildi það allt að þremur árum. Á síðasta ári hafði Stafnes KE leyfi til veiða á 30 tonnum á túnfiski á línu og varð aflinn 16 fiskar eða tæplega 2,7 tonn. Hann fékkst allur í októbermánuði djúpt suður af Reykjanesi. Talið er að túnfiskurinn elti makríl í átt að Íslandsströndum og hugsanlega sé hægt að veiða meira meðan makrílvertíðin er í hámarki. Línuveiðarnar má stunda frá 1. ágúst til ársloka.

Nokkuð er um að túnfiskur komi sem meðafli í önnur veiðarfæri. Í fyrra landaði Júlíus Geirmundsson ÍS tæplega 800 kílóum, Þórir SF 665 kg, Brimnes RE 371 kg, Börkur NK 371 kg og Örfirisey RE 204 kílóum af túnfiski.