Efnilegur Haukur Helgi Pálsson á æfingu með íslenska landsliðinu og reynir að komast framhjá einum af reynslumestu mönnum þess, Jakobi Erni Sigurðarsyni, sem leikur með Sundsvall í Svíþjóð.
Efnilegur Haukur Helgi Pálsson á æfingu með íslenska landsliðinu og reynir að komast framhjá einum af reynslumestu mönnum þess, Jakobi Erni Sigurðarsyni, sem leikur með Sundsvall í Svíþjóð. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur fengið nokkuð að spreyta sig í síðustu leikjum spænska liðsins Basquet Manresa eftir talsverða setu á varamannabekknum í vetur.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur fengið nokkuð að spreyta sig í síðustu leikjum spænska liðsins Basquet Manresa eftir talsverða setu á varamannabekknum í vetur. Liðinu veitir ekki af því að nýta krafta Hauks því Manresa situr í botnsæti úrvalsdeildar og fall blasir við liðinu ef það kemst ekki í gang á næstunni. Eru þetta nokkur viðbrigði fyrir Hauk frá því í fyrra þegar liðið stóð sig mjög vel og var lengst af tímabilsins í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina.

„Við höfum spilað alveg þokkalega þó það hafi vissulega komið leikir þar sem við höfum verið úti í haga. Við höfum átt góða leiki á móti liðum í toppbaráttunni en ekki tekist að ná stigunum. Við töpuðum á flautukörfu á móti Valencia og fórum í framlengingu á móti Caja Laboral. Við höfum reyndar verið óheppnir með meiðsli og tveir leikmenn úr byrjunarliðinu meiddust til dæmis illa. Annar þeirra er okkar aðalleikstjórnandi. Við erum aðeins að koma til en okkur gengur illa að klára almennilega jöfnu leikina. Þá gerum við mistök þegar líður á jafna leiki og kannski er ástæðan sú að við erum með frekar ungt lið. Tímabilið í fyrra var hins vegar með betri tímabilum sem Manresa hefur átt síðan liðið vann titilinn. Það var mjög gaman að taka þátt í þessu í fyrra,“ sagði Haukur þegar Morgunblaðið tók stöðuna á honum.

Pirrandi en þroskandi

Haukur er auðvitað ánægður með þau tækifæri sem hann hefur fengið í undanförnum leikjum en þá hefur hann spilað í kringum fimmtán mínútur í leik sem er ekki algengt hjá tvítugum leikmönnum í þessari sterkustu deild Evrópu. Haukur segir það hafa reynt á þolinmæðina að fá lítið að spila um tíma í vetur en hann lét það þó ekki trufla sig mikið.

„Auðvitað er skemmtilegra að spila en ekki og þess vegna er maður í þessu. Ég get ekki gengið út frá því að ég fái alltaf að spila og mín tækifæri koma stundum vegna meiðsla annarra og þess háttar. Þá skapast tækifæri fyrir aðra leikmenn. Auðvitað er leiðinlegt þegar maður fær ekki tækifæri en ég held að þetta hafi verið tími sem ég þurfti að fara í gegnum. Ég er sáttur við að hafa kynnst þessu og fyrir mig var þetta þroskandi ef ég á að segja alveg eins og er. Nú veit ég hvernig þessi hlið á atvinnumennskunni er þó ég hafi verið pirraður á köflum. Ef maður stendur sig ekki þá fækkar mínútunum og öfugt ef maður stendur sig vel,“ sagði Haukur ennfremur og virðist hafa tekist skynsamlega á við mótlætið.

Er á fimm ára samningi

Haukur gat sér gott orð í Bandaríkjunum 2010 og 2011 þar sem hann vann sig inn í byrjunarliðið hjá hinum fræga skóla Maryland á sínu fyrsta ári í NCAA-háskólakörfuboltanum. Manresa keypti Hauk sumarið eftir og gerði við hann fimm ára samning. Haukur segist ekki vita hvað tekur við hjá sér ef það verða örlög Manresa að falla en hann gæti allt eins verið áfram hjá félaginu þrátt fyrir það.

„Ég á ennþá þrjú ár eftir af mínum samningi. Ef liðið fellur þá er slæma hliðin á málinu sú að vera ekki lengur að spila í efstu deildinni á Spáni. Ef við skoðum hins vegar bjartari hliðina á málinu þá mun ég væntanlega fá fleiri tækifæri til að njóta mín á vellinum og þroskast frekar sem leikmaður,“ sagði Haukur ennfremur við Morgunblaðið. Því má bæta við að Manresa-liðið hefur verið þekkt fyrir það í gegnum tíðina að ná í unga leikmenn, gefa þeim tækifæri og selja þá áfram fyrir hærri upphæðir.